26.01.1968
Sameinað þing: 30. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í D-deild Alþingistíðinda. (2845)

44. mál, Vatnsveita Vestmannaeyja

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Frsm. og fyrri flm. að þeirri till., sem hér liggur fyrir, gat þess, að hér væri um stórt fyrirtæki að ræða og er það vissulega rétt og mun sennilega vera stærsta framkvæmd, sem nokkurt sveitarfélag í landinu hefur með höndum nú utan höfuðborgarinnar. Það er ekki einasta, að hér sé um stórt fyrirtæki að ræða á íslenzkan mælikvarða heldur er hér um alveg sérstakt fyrirtæki að ræða, sem mér vitanlega á enga hliðstæðu hvorki hér á landi né í norðanverðri Evrópu, þar sem um það er að ræða að leggja neðansjávarvatnsleiðslu alllanga leið yfir opið úthaf frá brimasamri strönd og að brimasamri strönd úti í Vestmannaeyjum.

Nú má spyrja, hvers vegna Vestmanneyingar séu með þetta fyrirtæki á döfinni. Því er fljótsvarað. Ég hygg, að alþm. séu alveg sammála um það að 5000 manna bær hér á Íslandi verður ekki rekinn án þess að þar sé um nægjanlegt og gott neyzluvatn að ræða og vatnsveitu eins og annars staðar á sér stað hér á landi í hliðstæðum bæjum. Það er af þessari ástæðu sem Vestmanneyingar hafa ráðizt í þetta fyrirtæki, telja sig til þess neydda og að framtíð byggðarlagsins byggist að verulegu leyti á því, að þetta fyrimtæki komist áfram og að fullkomin vatnsveita og nægjanlegt neyzluvatn verði úti í Vestmannaeyjum. eins og í öðrum hliðstæðum kaupstöðum bæði hér á landi og annars staðar.

Hv. frsm. kom inn á þær kröfur, sem gerðar hafa verið til ríkisins í sambandi við þessa framkvæmd, og vil ég í því sambandi rifja það upp, sem í því máli hefur gerzt. Í fyrsta lagi var þessi framkvæmd viðurkennd af ríkisvaldinu með yfirlýsingu fjmrh. um, að ríkisábyrgð mundi verða veitt fyrir öllum stofnæðakostnaði. Í öðru lagi var hún enn fremur viðurkennd með yfirlýsingu fjmrh. við afgreiðslu fjárl. fyrir árið 1967, þar sem hann gaf þá yfirlýsingu að ákveðinn hluti af því fé, sem áætlað var til vatnsveitna, yrði látinn renna til vatnsveitu Vestmannaeyja. Ég tel, að þar með sé það viðurkennt af ríkisvaldinu, að þetta fyrirtæki njóti fyrirgreiðslu samkv. vatnsveitulögunum, sem heimila að það verði styrkt á fjárl. með allt að helmingi kostnaðar af stofnæðum og þeim mannvirkjum, sem til stofnæða teljast.

Það má að sjálfsögðu um það deila og er ekki óeðlilegt, þó að hér komi fram á Alþ. ábendingar um frekari fyrirgreiðslu í þessu sambandi. Ég tel slíkt ekkert óeðlilegt, þar sem hér er, eins og ég hef áður sagt, um alveg sérstakt fyrirtæki að ræða. En fyrst og fremst tel ég, að það verði að liggja fyrir, eins og nú er, að ríkisvaldið viðurkenni það samkv. þeim l., sem þessar framkvæmdir byggjast á. Það er svo aftur fjvn. og Alþ. og ríkisvaldsins á hverjum tíma eftirleiðis, að meta stuðning við þetta fyrirtæki og meta það, hvort eðlilegt sé, að það sé styrkt eins og l. frekast heimila og vona ég, að sá skilningur verði ríkjandi hér á Alþ. í framtíðinni, að svo verði gert.

Það eru atriði í sambandi við þá till., sem hér liggur fyrir, og þá greiðsluáætlun Efnahagsstofnunarinnar, sem henni fylgir og er prentuð með þskj., sem ég vildi vekja athygli hv. þm. á. En það er í fyrsta lagi, að inn í áætlunina er tekið ákveðið ríkisframlag í aðeins 4 ár, 2.7 millj. kr. á ári. Þetta getur valdið misskilningi, og hv. alþm. gætu haldið að um það hafi verið samið af forráðamönnum byggðarlagsins, að þannig skyldu framlög ríkissjóðs vera í framtíðinni, en svo er ekki. Ég spurðist fyrir um það hjá Efnahagsstofnuninni, hvernig það mætti vera að slíkar tölur kæmu þarna inn í hennar áætlun og birtar síðan í þskj. hér á Alþ., og fékk þau svör, að það hefði aðeins til bráðabirgða verið tekin þessi upphæð sem þá var í fjárl. fyrir árið 1967. Ég vildi láta þetta koma hér fram til þess að fyrirbyggja það að nokkur alþm. stæði í þeirri meiningu að þetta væri að áætlun Vestmanneyinga sú tala sem endanlega yrði greidd úr ríkisslóði til stuðnings við þetta fyrirtæki Ég tel, að það sé langt frá, að svo sé, heldur munum við fara fram á það og teljum okkur eiga verulegan rétt á því, að þetta fyrirtæki njóti allt að heImingsstuðnings, eins og vatnsveitulögin gera ráð fyrir.

Þá er það annað í greiðsluáætlun Efnahagsstofnunarinnar, sem ég einnig vildi vekja athygli á, en það er það að allir útreikningar, sem þar koma fram, eru byggðir á því, að vatnsveitan eigi að greiðast upp á aðeins 10 árum. Bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum hafa aldrei viðurkennt slíka áætlun og ég hygg, að það væri óeðlilegt, ef til þess væri ætlazt, að þau viðurkenndu það. Vatnsreitur eru almennt að lágmarki reiknaðar út, eins og kallað er, til 20 ára minnst og gert ráð fyrir, að þæs verði greiddar niður á þeim tíma, en ekki 10 árum, enda ber greiðsluáætlun Efnahagsstofnunarinnar það með sér, að slíkt mundi vera mjög óeðlilegt, ef henni yrði fylgt eins og hún liggur hér fyrir. Þar segir, að árið 1977 ætti að vera búið að greiða vatnsveituna upp að fullu eftir 10 ár ætti að vera búið að greiða hana upp að fullu en árið 1987 ætti hún að eiga í sjóði, að mér skilst, um 80 millj., þannig að þeir, sem nú búa í Vestmannaeyjum, greiða þar vatnsveituskatt og önnur gjöld, að það væri ekki einasta, að þeir ættu að greiða þá vatnsveitu sem nú er verið að vinna að koma á, heldur ættu þeir að greiða mikinn hluta af samsvarandi vatnsveitu fyrir framtíðina. Ég tel þetta í alla staði óeðlilegt og hygg, að bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum muni ekki una því, að þessir útreikningar fái athugasemdalaust að standa. Við ætlumst að sjálfsögðu til þess, að þessi veita eins og aðrar verði reiknuð út eftir þeim reglum, sem almennt gilda um útreikninga á vatnsveitum, og eftir þeim upplýsingum, sem ég hef um það er að lágmarki til gengið út frá 20 árum, en ekki 10 árum. Við höfum ekki ástæðu til þess að ætla það þótt þetta sé sérstakt fyrirtæki, þar sem öll leiðslan liggur yfir opið úthaf, að sá hluti leiðslunnar fyrnist nokkuð fyrr en sú leiðsla, sem á landi er, eða leiðslur annars staðar, vegna þess að ég hygg, að mjög vel hafi tekizt til um vinnslu á þeirri leiðslu sem fyrir liggur, að lögð verði frá Landeyjasandi og út til Eyja.

Það kom fram hjá hv. frsm., að hætta væri á, að hætta yrði við framkvæmdirnar eða fresta þeim, ef ekki fengist frekari fjárhagsstuðningur. Sem betur fer er málið ekki, að því er ég bezt veit, neitt á því stigi. Það er búið að leggja 22 km vatnsleiðsluna á landi, virkja vatnsupptökin og leggja leiðsluna og fullprófa hana, þannig að hún er reiðubúin til flutnings alla leið niður á Landeyjasand eða fram að sjávarmáli. Það er búið að gera fastan samning um, að það fyrirtæki, sem vinnur sjóleiðsluna, skili henni næsta sumar, og samkomulag náðist um, að andvirði hennar yrði lánað til 10 ára þannig að ég tel, að það sé alveg öruggt, ef hið danska fyrirtæki stendur við sitt tilboð að því er afgreiðslu varðar, og við höfum ekki ástæðu til að ætla annað en svo verði, að vatnsveitan komist alla leið út til Vestmannaeyja þegar á næsta sumri.

Það hefur verið unnið nokkuð að innanbæjarkerfi í Vestmannaeyjum. Var þar nokkurt kerfi fyrir, og var á s.l. ári unnið nokkuð að því að stækka það, þannig að nokkur hluti bæjarins ætti þegar á næsta sumri að verða settur í samband við stofnæðina og fá sitt neyzluvatn ofan af landi, og er það vissulega ánægjulegur og gleðilegur áfangi

Ég vildi láta þessar upplýsingar koma fram hér í sambandi við þessa umr og sérstaklega undirstrika það um þau tvö atriði, sem ég hef bent á í greiðsluáætlun Efnahagsstofnunarinnar, að þm. ber að skilja það að það er ekki þar um neina endanlega afgreiðslu á málinu að ræða. Þetta hefur verið sett fram af þeim aðila, sem þetta mál vann, eftir þeim gögnum, sem hann taldi sig hafa fyrir hendi, en mun verða endanlega út um þetta gert og ákveðið því að það liggur að sjálfsögðu alveg ljóst fyrir, að ef greiða ætti jafndýrt fyrirtæki niður á aðeins 10 árum, yrði þar um svo óhóflegan vatnsskatt að ræða að við það mundi enginn una. Við höfum að sjálfsögðu gert okkur það ljóst úti í Vestmannaeyjum, að við hljótum að lenda í nokkru hærri vatnsskatti en a. m. k. er hér í Reykjavík og kannske annars staðar, en ef greiða ætti fyrirtækið upp af vatnsskattinum eða bæjarbúum á aðeins 10 árum, er þar um slíkar óhóflegar álögur að ræða að ég tel, að slíkt komi ekki til mála.