31.01.1968
Sameinað þing: 32. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í D-deild Alþingistíðinda. (2864)

71. mál, lækkun tolla á efnum og vélum til iðnaðarins

Flm. (Þórarinn Þórarinsson) :

Herra forseti. Við erum orðnir svo sammála um margt ég og ráðh., að það er kannske rétt að fella þetta spjall niður, vegna þess að við erum þá frekar að tala um aukaatriði en aðalatriðið. Ég gladdist alveg sérstaklega yfir þeirri yfirlýsingu sem kom fram hjá hæstv. ráðh. nú síðast, að það skorti mjög á það í löggjöf og stjórnarframkvæmdum, að iðnaðurinn byggi við sömu aðstöðu og landbúnaður og sjávarútvegur, vegna þess að þetta er einmitt það sem ég hef margsinnis verið að halda hér fram á Alþ. á undanförnum árum, og þá við takmarkaðar undirtektir. En ég vil benda á eitt atriði sem dæmi um þetta, þar sem jafnrétti skortir milli þessara atvinnuvega og mér hefur þrátt fyrir góða viðleitni ekki tekizt að fá hæstv. iðnmrh. til að fallast á. Hann minntist hér áðan á iðnlánasjóðsgjaldið sem iðnaðurinn greiðir til Iðnlánasjóðs. Þess er aflað með mjög svipuðum hætti og fjár er aflað í stofnlánadeild landbúnaðarins, þ.e.a.s. bændur greiða sérstakan launaskatt í stofnlánadeildina og fá frá ríkinu jafnhátt framlag. Sjávarútvegurinn greiðir líka ákveðið gjald til Fiskveiðasjóðs með sérstökum útflutningsskatti og fær á móti jafnhátt framlag frá ríkinu. Hins vegar er það þannig, að iðnlánasjóðsgjaldið sem iðnaðurinn borgar, hefur tvö seinustu árin verið meira en 20 millj. kr., en framlag ríkisins er akki nema helmingurinn af því eða 10 millj. kr. Þarna vantar t.d. á, að iðnaðurinn sitji við sama borð og aðrir atvinnuvegir. Því er að vísu haldið fram í þessu sambandi, að iðnaðurinn borgi ekki þetta gjald vegna þess, að hann geti lagt það á neytendurna. Þetta er með öllu rangt. Og t.d. núna, eftir að verðlagsákvæðin ná orðið til allra vara, er alveg útilokað að þetta sé hægt. Verðlagsnefndin sér um það. Það er líka alveg eins, að þegar um verulega samkeppni er að ræða á markaðnum, þá ræður ekki seljandinn verðinu á vörunni, heldur verður hann að haga sér eftir því, þess vegna er útilokað í því tilfelli, að það sé hægt að leggja þetta iðnlánasjóðsgjald á vöruna.

Ég ætla nú ekki að fara að munnhöggvast við ráðh. að þessu sinni neitt sérstaklega um álbræðsluna, en ég vildi aðeins segja það í sambandi við hana, að álsamningurinn er einmitt sönnun þess, hve illa er búið að íslenzkum iðnaði, því hinu erlenda fyrirtæki hefði ekki dottið í hug að koma hingað með sinn rekstur, ef það hefði ekki fengið margs konar undanþágur frá þeim kjörum eða skyldum,sem lagðar eru á ísl. iðnað. Álbræðslan fær t.d. undanþágu frá öllum tollum. Fjarri fer því, að iðnaðurinn fái það í dag, því að hann verður að borga 25% toll af flestum vélum, sem hann fær, og hann verður að borga upp undir 100% í sumum tilfellum af hráefni, sem hann fær til starfsemi sinnar. Ég er ekki að segja það, að álbræðslusamningurinn sé til fyrirmyndar, og ég tel hann það ekki á ýmsum sviðum eins og t.d. í sambandi við raforkuverðið Ég sé engin rök mæla með því, að við seljum raforkuna 27% ódýrara en Norðmenn til slíkra fyrirtækja En ég held hins vegar hvað tollamálin snertir, að þá geti álbræðslusamningurinn verið til fyrirmyndar um það hvernig á að búa að íslenzkum iðnaði.

Ráðh. minntist á, að hann hefði ekki mikið orðið var við stuðning minn við Iðnlánasjóð. Ég held að ráðh. meini þetta nú ekki, þótt hann segi þetta, því að hann fylgist áreiðanlega það vel með þingmálum, ekki sízt í sambandi við iðnaðarmál, sem heyra undir hans rn., að hann mun áreiðanlega minnast þess, að ég hef hér á Alþ. margsinnis flutt bæði till. við fjárl. og svo sérstaklega um aukið fjármagn til Iðnlánasjóðs, og niðurstaðan hefur nú oftast orðið sú, að eftir að ég hef verið búinn. að flytja slíka till. svona 2—3 sinnum, að þá hefur ríkisstj. komið á eftir og hækkað tekjur sjóðsins eitthvað. En hins vegar finnst mér, að það sé alveg óþarfi fyrir hæstv. ráðh. að vera upp með sér af þessum 10 millj. kr., sem Iðnlánasjóður fær frá ríkissjóði og sem er mörgum sinnum lægra en tilsvarandi framlög, sem landbúnaður og sjávarútvegur fá. Ég held, að þegar Iðnlánasjóður var stofnaður á kreppuárunum, 1934 eða 1935 held ég að það hafi verið þá var ríkistillagið 25 þús., og það mun mönnum ekki þykja nein stór upphæð nú. En sennilega munar ekki miklu á því, að það sé eins stór hluti af ríkisútgjöldunum þá eins og 10 millj. kr. eru í dag. Ég held, að fjárl. hafi þá verið upp á 12 eða 13 millj. kr., en nú eru þau upp á 6 milljarða, svo að ég held, að tillagið til iðnaðarins, sem er reiknað á þennan hátt, hafi ákaflega lítið aukizt miðað við það hvað ríkið hefur aukið kostnað sinn á ýmsum öðrum sviðum.

Þá vildi ráðh. halda því fram, að það væri rétt að halda uppi samkeppni við íslenzk fyrirtæki með innflutningi erlendra iðnaðarvara. Og meginröksemd hans fyrir þessu var sú, að þetta mundi hvetja íslenzka framleiðendur til þess að vanda vöruna og að því leyti taldi hann, að orðið hefði meiri þróun í þessum efnum hjá íslenzkum iðnaði en áður fyrr. Ég held, að þessi fullyrðing hans sé alveg röng. Ég er alveg sannfærður um það, að ef við rekjum þróun iðnaðarins frá því að hann hóf starfsemi sína og fram til dagsins í dag, komi það í ljós, að þar hefur alltaf verið um stöðuga þróun að ræða, þrátt fyrir erfiðar aðstæður hafi iðnrekendur alltaf verið að sækja fram, alltaf verið að bæta bæði framleiðni og vöruvöndun. Ég held, að það sé ekki hægt að halda því fram með sanni, að þar hafi nokkurn tíma verið um verulega stöðnun að ræða. Ég held, að þó að menn bendi á það í dag, að ýmislegt fari öðru vísi í íslenzkum iðnaði en ætti að vera, þá sé ekki hægt að kenna því um, að íslenzkir iðnrekendur eða atvinnurekendur hafi ekki haft vilja til þess að fylgjast með tímanum og vinna bæði að aukinni framleiðni og vöru,vöndun Ég dreg það í efa, að hægt sé að finna atvinnurekendur annars staðar, sem hafa sótt öllu meira fram en íslenzkir iðnrekendur hafa gert á undanförnum 30–40 árum, þegar tillit er tekið til þess, hve miklu erfiðari þeirra aðstæður hafa verið en yfirleitt hliðstæðra stétta annars staðar. En það sýnir, að það er alveg óhætt, við getum alveg hiklaust treyst íslenzku framtaki og íslenzkum atvinnurekendum, ef sæmilega er í hendurnar á þeim búið.

Ég vil segja, að það er alveg undraverður

árangur, sem hefur náðst hér í mörgum iðngreinum og var búinn að nást löngu áður en þessi innflutningur núv. ríkisstj. kom til sögunnar. Ég held, að það stafi af vanþekkingu hæstv. ráðh. á íslenzkum iðnaði til lengdar, þegar hann heldur því fram, að það hafi eiginlega engin þróun að ráði átt sér stað fyrr en nú allra síðustu árin, að farið var að flytja inn erlendar iðnaðarvörur. Það er bæði vanþekking og vantrú á íslenzku framtaki, sem kemur fram í þessum orðum ráðh. eða fullyrðingar, en við verðum bara að horfast í augu við það, að ef við viljum viðhalda íslenzkum iðnaði og gefa honum starfsskilyrði, þá verðum við í sumum tilfellum að útiloka erlenda framleiðslu. Og það er ekkert sérstakt hjá okkur að gera þetta. Það eru margar stærri þjóðir, sem hafa betri aðstöðu til að reka vel iðnað en við sem verða að gera þetta. Meira að segja Bandaríkin hafa stundum gripið til verndarráðstafana fyrir vissar iðngreinar þar í landi. Við þekkjum það í sambandi við okkar sjávarútveg, að við erum alltaf að mæta alls konar hömlum í sambandi við sölu á sjávarafurðum í öðrum löndum, vegna þess að viðkomandi þjóðir eru að vernda sína framleiðslu. Og meðan okkur hefur ekki tekizt að búa iðnaðinum að öllu leyti samkeppnishæf skilyrði, þá verðum við að veita honum vissa vernd, ekki aðeins í sambandi við tolla, heldur oft og tíðum í sambandi við innflutning. Nú, það er líka gert, og ber að viðurkenna það. Það er gert á ýmsum sviðum enn í dag, að það eru ekki fluttar inn erlendar iðnaðarvörur í vissum greinum, og ég álít, að það sé rétt. En svo verðum við líka í sambandi við þann innflutning, sem hefur átt sér stað á undanförnum árum, að gera okkur það ljóst, að hann hefur átt sér stað undir kringumstæðum, sem voru alveg sérstaklega óhagstæðar fyrir iðnaðinn. Það er búið að viðurkenna það að seinustu árin hafi gengisskráningin verið röng, þess vegna hafi genginu verið breytt. Og það gat að sjálfsögðu ekki átt sér stað undir óhagstæðari skilyrðum fyrir iðnaðinn að hefja stórfelldan innflutning á erlendum iðnaðarvörum en þegar gengisskráningin var honum í óhag. og það þýðir ekkert fyrir hæstv. ráðh., að mótmæla því, að fjölmargar iðngreinar hafi dregizt verulega saman og jafnvel lagzt alveg niður vegna þessa innflutnings. Ég er alveg óhræddur við að játa þessa verndarstefnu þegar um það er að ræða, hvort við eigum að byggja upp iðngreinar i landinu sem kannske hafa veika aðstöðu til að byrja með. Ég kýs miklu frekar, að það sé farið inn á þá braut, en að við leyfum ótakmarkaðan innflutning á erlendum vörum með þeim afleiðingum, að þessi atvinnugrein geti ekki risið á legg.