28.02.1968
Sameinað þing: 41. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í D-deild Alþingistíðinda. (2909)

125. mál, aðstoð við síldveiðiskip á fjárlægum miðum

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Það er nú ekki orðið ákaflega mikið sem á milli ber í þessum umr., annað en það að hv. 4, þm. Austf. vill, að Alþ. samþykki ákveðna fjárveitingu til ráðstöfunar fyrir mig í þessu skyni, og sízt ætti ég að hafa á móti því, til jafnfrjálsrar ráðstöfunar og hér er um að ræða. Það, sem ég vildi einungis vekja athygli á með orðum mínum hér áðan var það, að hvort sem ég þarf að koma fyrir Alþ, eða fjmrh., vil ég geta með nokkrum rökum bent á, hvernig ég ætla eða hvernig mitt rn. eða ríkisstj. eða hvað menn vilja nefna það, ætlar að nota þetta fé. Ég er ekki að tala um að það þurfi að vera upp á aura eða krónur, heldur svona nokkurn veginn að það sjáist, hver fjárþörfin í heild sé. Ég teldi eðlilegt, að ég yrði spurður um þetta hér á þingi, ef ég kæmi með slíka beiðni hingað og ég hygg, að það yrði eins með minn ágæta kollega, hæstv. fjmrh., að hann vildi nokkuð vita um, hvernig þessu fé yrði dreift. Það var hugmyndin að baki orðum mínum.

Varðandi það, sem hv. 2. þm. Reykn, lagði áherzlu á í sinni ræðu vil ég endurtaka það, sem ég sagði í upphafi, en hann lagði fyrst og fremst áherzlu á það, að n. hraðaði sínum störfum. Það er undirstrikað í skipunarbréfi til nm., að lögð sé áherzla á það af hálfu ríkisstj., að n. hraði svo störfum sem frekast er kostur á. Og ég tel það nokkra tryggingu fyrir því, að svo verði gert, þegar höfð er hliðsjón af því, hvaða aðilar skipuðu fulltrúa í nefndina.