28.02.1968
Sameinað þing: 41. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í D-deild Alþingistíðinda. (2910)

125. mál, aðstoð við síldveiðiskip á fjárlægum miðum

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Venjulegum fundartíma er lokið svo ég mun stytta mál mitt mjög. Ég geri ráð fyrir því, að flm. sé mikið í mun að koma þessu máli til n. núna og ég held, að í sjálfu sér séu allir sammála um það, eins og mér heyrist á öllum hv. ræðumönnum, sem hér hafa talað, að þeir séu sammála um það að leita þurfi úrlausnar á þeim vandamálum, sem hafa komið upp í sambandi við síldveiðarnar á s.l. sumri. En allt bendir til, að það geti jafnvel einnig orðið fyrir hendi á komanda sumri.

till., sem hér er til umr., er í sjálfu sér ekki annað en samsafn ályktana og samþykkta frá fjölmörgum aðilum, ráðstefnum og fundum sjómanna og útgerðarmanna og annarra hagsmunasamtaka, sem eiga hagsmuna að gæta í sambandi við þessar veiðar. Hún er mjög ýtarleg og tekur yfir marga þætti þessara vandamála. Í sjálfu sér þarf ekki að ræða þetta frekar, gætum við haldið, eftir þær umr., sem hér hafa farið fram. Það hefur komið fram, að í tveimur rn. hefur verið unnið og er unnið að lausn þessara vandamála sem þarna er bent á, og í seinni ræðu hv. flm. kemur það helzt fram hjá honum að honum líki ekki, að sú n., sem er að rannsaka málið á vegum sjútvmrn., hafi ekki það framkvæmdavald, sem hv. flm. vill, að hún fái. Mér finnst nú eiginlega, að þarna sé verið að deila um keisarans skegg. Ef einhverjar skynsamlegar till. koma frá þessari n., sem stendur að þessari rannsókn, verður auðvitað séð um það, að þær nái fram. Það eru allir jafnsammála um það að það þurfi að leita að og finna lausn á ákveðnum vandamálum. Ég held hins vegar, eins og þessi till. gefur tilefni til, að við séum kannske ekki alveg á réttri leið og ekki heldur samkv. þeim orðum, sem féllu hjá hv. flm. Ég held, að við þurfum ekki að leggja mikinn kostnað eða starf í það að leita að eða festa kaup á fleiri skipum til þess að flytja hráefni hingað til lands af fjarlægum miðum í verðlitla eða verðlausa grútarframleiðslu. Hins vegar ber okkur auðvitað að leggja höfuðáherzlu á að flytja til verkunarhafna hér á landi síld, sem getur ekki aðeins orðið uppbyggjandi fyrir okkar atvinnulíf, heldur eins og hingað til undirstaða að okkar útflutningi. Það er, eins og hv. 2. þm. Reykn. réttilega benti á, nauðsynlegt fyrir okkur, jafnvel þótt við yrðum að leggja þar í kostnað, sem sjálfur atvinnuvegurinn stæði ekki undir, til þess að við gætum þá haldið í okkar dýrmætu markaði, sem við höfum fyrir þessar vörur. En ég geri ráð fyrir því, að það séu fleiri en við sem höfum tekið til máls um þetta hér inni, sem hafi nokkurt vit á þeim hlutum, þótt þeir eigi ekki sæti hér á hv. Alþ., enda hafa þegar verið gerðar allýtarlegar tilraunir á þessu sviði, þótt þeim sé hvergi nærri lokið og auðvitað þurfum við að halda þeim áfram. Samt sem áður er ég algerlega fylgjandi því, að það verði þegar að hefjast handa í sumar u m það, að slík hráefni verði flutt til verkunarhafna hér á landi.

Herra forseti. Ég skal ekki tefja tímann lengur. Eins og ég tók fram í byrjun ræðu minnar, tel ég nauðsynlegt, að þessi till. komist til n., sem þá leiti sér umsagnar þeirrar vinnunefndar, sem þegar er að vinna í þessu máli.

Út frá þeim orðum, sem hv. frsm. lét falla um það, sem dómsmrh. upplýsti hér áðan í sambandi við varðskipin þegar hann benti á okkar gamla varðskip Ægi, vil ég segja, að það er auðvitað miklu fleira, sem kemur upp í þessu máli, en það eitt, hvað við teljum sæmandi fyrir einn lækni. Það kemur líka upp það vandamál að ráða fram úr óskum þeirra, og það er ekki nóg að segja: Gjörið þið svo vel, þarna er skip, farið þið um borð. — Þeir verða að fást, þeir góðu herrar, til þess að fara um borð í þessi skip, og þeir fara ekki fyrr en þau eru búin þeim útbúnaði, sem þeir telja nauðsynlegan til þess að veita fyrstu hjálp. Og þess vegna var horfið að því ráði að útbúa öll þrjú nýjustu varðskipin eða tvö þau nýjustu og það, sem er í byggingu, þannig, að þau gætu veitt þessa hjálp á fjarlægum miðum, auk þess sem þau gætu komið að notum hér í kringum landið bæði á fjarlægum og afskekktum stöðum, og eins þegar árar líkt og nú hefur gert hjá okkur hér í vetur og s.l. vetur. Þá er þetta auðvitað til öryggis fyrir allan landslýð.

Við skulum ekki gleyma öðrum þætti þess að hafa varðskip á fjarlægum miðum, þar sem kannske á þriðja þúsund íslenzkir þegnar eru saman komnir á stóru svæði. Það er hér minnzt á í þessari till., að það sé nauðsynlegt, að það sé hægt að hafa eðlilegt talstöðvasamband við land. Engir aðilar á íslenzka flotanum eru betur hæfir til þess en einmitt íslenzku varðskipin, ekki aðeins við land hér heima úr mikilli fjarlægð vegna hins góða tækjakosts, sem þar er um borð heldur og við erlendar strandstöðvar. Þar fyrir utan eru þessi nýrri varðskip mjög ganghröð og geta komið og veitt aðra hjálp en beina slysa- og læknishjálp, eins og við höfum nýlega gott dæmi um hér við strendur okkar lands. Þar fyrir utan eru þessi skip útbúin þyrluþilfari, og það þarf ekki endilega að vera, að sú þyrla sé staðsett þar um borð eða komi héðan frá Íslandi. Vegalengdin frá ströndum Noregs út á þau mið sem skipin stunduðu sínar veiðar á á s.l. sumri, er hverfandi lítil miðað við vegalengdina þaðan og hingað heim, og slík þjónusta gæti aðeins komið að notum frá strandstöðvum þar og reyndar frá hjálparskipum, sem eru á miðunum fyrir aðrar þjóðir, og sjómannasamtökin hafa m.a. sent sínar þakkir til fyrir frábæran stuðning, sérstaklega á s.l. sumri. Ég tel sjálfsagt, að þegin yrðu tilboð sem sjómannasamtökin hafa fengið t.d. frá Sovétríkjunum, frá samtökum sjómanna þar, en það boð hefur legið fyrir frá þeim, að slík aðstoð yrði áfram veitt, ef við mundum óska eftir því. Það hefur verið mjög eindregin ósk sjómannasamtakanna hér við dómsmrh. — og það kemur m.a. fram í till., sem hann lýsti hér áðan, frá þessari n., sem hann skipaði — að það verði jafnframt leitað aðstoðar þessara aðila til þess að geta mætt slysum og veikindum sjómanna okkar á fjarlægum miðum.