13.03.1968
Sameinað þing: 44. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í D-deild Alþingistíðinda. (2928)

133. mál, endurskoðun á rekstri ríkissjóðs og ríkisstofnana

Flm. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Við afgreiðslu fjárl. fyrir áramótin síðustu lýstum við í minni hl. fjvn. því yfir, að við mundum síðar á þessu þingi bera fram till. til þál. sem fæli í sér, að kosin yrði sérstök n. til þess ásamt hagsýslustjóra að endurskoða rekstur ríkissjóðs og ríkisstofnana, með það fyrir augum, að stefnt yrði að hagkvæmni og sparnaði í rekstrinum. Ástæðan til þess, að við leggjum þessa till. hér fram og lýstum því yfir í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna, er sú, að þrátt fyrir margyfirlýsta stefnu hæstv. ríkisstj., hefur staðreyndin orðið sú á síðari árum, að útþensla ríkiskerfisins hefur vaxið með hverju nýju fjárlagaári. Þetta hefur verið, þrátt fyrir þessar yfirlýsingar, og hefur þessi útþensla ekki verið nema að nokkru leyti ákvörðuð af Alþ., heldur af ríkisstj. sjálfri að verulegu leyti.

Enn fremur hefur það gerzt, að þó að Alþ. væri búið að ganga frá fjárl., hefur hæstv. ríkisstj. að einum eða tveimur mánuðum liðnum tekið fjárl. og breytt þeim að verulegu leyti. Þetta átti sér stað 1965 og aftur á fjárl. 1967, og þetta á að eiga sér stað á fjárl. 1968. Þau vinnubrögð, sem hafa verið viðhöfð í sambandi við þessa afgreiðslu á fjárl., hafa verið þau, að hér á hv. Alþ. hefur verið lagt fram frv., sem hefur gengið hér deilda á milli og farið í fjhn., en fjvn. hefur ekkert haft um það að segja hvernig þessi breyting hefur átt sér stað eða hver áhrif hún hefði á fjárl., sem voru nýafgreidd, vegna þess að fjvn. hefur á engan hátt fjallað um málið. Það er okkar skoðun, sem að þessari till. á þskj. 281 stöndum, að með þessu sé verið að taka fjárveitingavaldið að nokkru leyti úr höndum Alþ. og gera fjvn, mjög áhrifalitla um afgreiðslu fjárl. Við höfum líka áður að því vikið, að fjárl. eru undirbúin í fjmrn. og minni hl. Alþ. hefur ekkert um þann undirbúning að segja. Það er aðeins sá tími að haustinu, sem hann hefur til að vinna að fjárlagafrv., sem áhrifa minni hl. Alþ. gætir að nokkru ráði.

Það hefur líka sýnt sig, að sá tími, sem er valinn til þess að vinna að fjárlagaafgreiðslunni, hefur verið mjög takmarkaður, og hefur það orðið fjárlagaafgreiðslunni að sumu leyti til tjóns. Við teljum því, að nauðsyn beri til að taka þessi mál öll til endurskoðunar, sjálft ríkiskerfið og vinnubrögðin við fjárlagaafgreiðsluna, bæði að undirbúningi fjárl. og eins ef ætti að breyta fjárl., eins og gert hefur verið nú þau ár, sem ég vitnaði til, þá ætti sú breyting að vera gerð í samráði við fjvn. og fjvn. fengi að vinna að henni. Það er með öllu óhugsandi, að Alþ. geti unað því, að nýafgreidd fjárl. séu meðhöndluð eins og gert hefur verið af af hæstv. ríkisstj. nú í þriðja sinn með þeirri breytingu, sem nú liggur fyrir hv. Alþ.

Ég mun ekki í sambandi við þessa till. fara almennt út í að ræða þessi mál eða útþenslu ríkiskerfisins, vil aðeins taka það fram, að ekki mun vera að því horfið, að stefna ríkisstj, miðist við að draga úr þessari útþenslu, því að fyrir þessu hv. Alþ. liggja frumvarpsbálkar um brunamálastofnun, siglingamálastofnun, um heilbrigðiseftirlit, sem allir munu ganga í þá átt að auka útþenslu ríkiskerfisins mjög verulega. En þar sem ég geri ráð fyrir því, að í sambandi við frv. það, sem hér liggur fyrir um ráðstöfun hæstv. ríkisstj. í sambandi við breytingu á fjárl., verði þessi mál almennt rædd, mun ég ekki fara út í almennar umr. núna.

Ég vil undirstrika það, að við viljum með þessari till. leita eftir því að fá samstöðu á Alþ. um að gera Alþ. áhrifameira um fjárlagaafgreiðsluna og það verði bezt gert með því, að fjvn. verði gerð virkari um afgreiðslu fjárl., og þar á ég við undirbúning fjárl. og þær breytingar, sem kynnu að verða gerðar á fjárl. eftir að þau hafa verið afgreidd, og að nauðsyn beri til að endurskoða rekstur ríkiskerfisins í heild og þess vegna beri að kjósa n. til þess, eins og hér er lagt til.

Ef um samstöðu um þetta mál væri að ræða frá hendi hæstv. ríkisstj.. erum við flm. þessarar till. til viðtals um það að gera á henni breytingu, sem gengi í þá átt, sem ég hef hér rætt.

Ég legg svo til, herra forseti, að að þessari umr, lokinni verði málinu vísað til síðari umr. og fjvn.