13.03.1968
Sameinað þing: 44. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í D-deild Alþingistíðinda. (2930)

133. mál, endurskoðun á rekstri ríkissjóðs og ríkisstofnana

Flm. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég gat þess hér áðan, að ég ætlaði mér ekki að fara út í almennar umræður um fjárlagarafgreiðslu eða stefnu hæstv. ríkisstj. um meðferð fjármála eða efnahagsmála Hæstv. fjmrh. gaf að vísu nokkurt tilefni til slíks, en ég mun nú samt ekki fara langt út í það.

Hæstv. ráðh. sagði, að það gæti enginn láð sér það, þó að hann vildi ekki ganga inn a það, að illa hefði verið á fjármálum haldið hin síðustu árin, a.m.k. undir hans stjórn, og ég ætlast ekki til þess af honum, að hann geri það. En ég held, að það sé jafnsanngjarnt að fara ekki heldur fram á það við mig né aðra stjórnarandstæðinga, að við viðurkennum það, að vel hafi verið á þessum málum haldið hin síðustu ár, því að það væri fjarri öllu lagi og mjög ósanngjarnt. Og ég held, að það geti enginn láð okkur það, þó að við höldum því fram, að útþensla í ríkiskerfinu hafi verið mikil, því að staðreyndirnar sanna sitt mál þar um, eins og mjög lítils háttar er drepið á í grg. fyrir till. okkar hér á þskj. 281. Hægt væri að fara út í langa upptalningu á því, en ég mun ekki gera það að sinni. Ég vil líka segja það um sparnaðartalið, að þrátt fyrir það þótt ég og fleiri stjórnarandstæðingar hafi deilt á hæstv. ríkisstj. og nokkuð mikið fyrir það að hafa á engan hátt sýnt viðleitni í því að draga úr rekstri ríkisins eða gera hann hagkvæmari, þá mun ég þó aldrei eða við aðrir í stjórnarandstöðunni þau ár, sem núv. valdhafar hafa setið á valdastólum, hafa lagt fram eins mikið eða krafizt eins margra fyrirheita og framkvæmda í sparnaði og þessir ráðamenn hafa sjálfir gert á sínum fyrstu árum. Þar skortir okkur mjög á að hafa fundið upp svo mörg sparnaðarfyrirheit og þeir hétu á fyrstu tveimur árum sínum hér í valdastólunum. Hitt vita allir, að þeir hafa gleymt, er til framkvæmdanna átti að koma, og á það höfum við deilt og það með réttu.

Ég þarf ekki að eyða orðum að því, að útþensla í ríkiskerfinu hefur verið geysilega mikil, og það er ekki óeðlilegt, þó að Alþ. vilji, einnig minni hl., fá að kynnast því, hvort hér hafi verið skynsamlega og rétt á málunum haldið, þegar m.a. það er haft í huga, að í sambandi við vinnudeilur í haust var fulltrúum frá verkalýðsfélögunum boðið að setjast upp í hagsýslustofnun og kynna sér undirbúning og gerð fjárl. Það er því ekki undarlegt, þó að alþm. vilji ekki fá verri aðstöðu til þess að kynna sér undirbúning og gerð fjárl. en þessum mönnum var boðið upp á. Ég álít því, og það er ljóst, og ætla ég ekki að fara að deila við hæstv. fjmrh. um það, að það hlýtur auðvitað að vera svo, að hæstv. ríkisstj, á hverjum tíma ber ábyrgð á fjárl. og meiri hl. Alþ. markar þá fjármálastefim, sem mörkuð er með fjárl. hverju sinni, en það segir ekki það, að minni hl. ætti ekki að fá að kynnast málunum betur en nú er.

Ég held því fram, að með tveggja mánaða vinnu á hausti, eins og gert er nú, hafi minni hl. í fjvn. ekki þá vinnuaðstöðu, sem hann þarf að hafa til þess að geta tekið að sínu leyti þátt í undirbúningi og afgreiðslu fjárl., og þessu þarf að breyta. Ég held því líka fram, að útþenslan í ríkiskerfinu hafi verið það mikil á síðustu árum, að það sé fullkomin ástæða til, að Alþ. láti athuga það, hvort hér hafi verið nógu skynsamlega og vel á málum haldið. Og ég held því í þriðja lagi fram, að það sé óeðlilegt og ekki viðunandi vinnubrögð, vinnubrögð, sem Alþ. geti ekki unað við, að mikið af fjárl. sé tekið og þeim breytt að tveimur mánuðum liðnum frá samþykkt þeirra og það sé gert uppi í fjmrn, og fjvn. Alþ. eigi engan kost á því sem slík að vinna að því máli eða kynna sér þetta. Þess vegna álít ég, að það þurfi að breyta hér vinnubrögðum frá því, sem nú er, og vegna þess er þessi till. okkar fjórmenninganna flutt.