13.03.1968
Sameinað þing: 44. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í D-deild Alþingistíðinda. (2940)

135. mál, akreinar á blindhæðum

Flm. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins taka það fram, að það er mikill misskilningur, að mér gangi illa að skilja hæstv. ráðh. Það hefur tekizt til þessa og ef ég heyri nægjanlega til hans, sem mér gengur oft illa, því að hann talar orðið svo lágt, hæstv. ráðh., þá tekst mér að skilja. Og það, sem ég skildi, var það, að ef ég hefði flutt till. strax eftir að l. voru afgreidd, hefði það verið vantraust á ráðh., af því að ég treysti honum ekki til þess að koma þessu verki áfram. Hins vegar hef ég séð, að lítið hefur verið aðhafzt í þessu máli, og þess vegna er till. fram borin.

Út af því, sem hæstv. ráðh. sagði, að það mundi sennilega ekki á mér standa, ef hann leitaði eftir nýjum fjáröflunarleiðum, þá vil ég geta þess, að ég hef staðið með hæstv. ráðh. í því, að afhenda honum 100 millj. í auknum sköttum á einu og sama þinginu til að standa að aukinni og bættri vegagerð, en árangurinn hefur orðið sorglega lítill.