14.03.1968
Neðri deild: 75. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í D-deild Alþingistíðinda. (2947)

156. mál, lausn verkfalla

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Af ummælum hv. þm. Austf., sem hér hafa talað, er ljóst, að jafnvel hinum skýrustu mönnum getur stundum mjög skotizt í sínum málflutningi og gagnrýni. Hv. þm. tala báðir um það, að þeir vilji hafa venjulega þinglega meðferð á þessu máli. Nú skulum við athuga hver hin venjulega þinglega meðferð á slíkum till. er. Þeim er útbýtt í þinginu, síðan er venja og boðið samkv. þingsköpum, að á fundi í sameinuðu þingi er tekin ákvörðun um það, hvernig málin skuli rædd. Það er margra ára venja nú orðið, að fundur til þess er á miðvikudegi í hverri viku, og síðan er málið tekið á venjulegan þinglegan hátt næsta miðvikudag til efnislegrar umr. Þetta er sá venjulegi máti, sem farið er eftir um þáltill. Nú segja hv. þm., að vegna þess, hversu þessu máli sé varið, hefði átt að hafa einhvern annan hátt á því en þann venjulega þinglega hátt. En þá er ekki hægt að komast hjá því að líta á efni sjálfrar till. Með leyfi hæstv. forseta, hljóðar hún svo:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að beita sér þegar í stað fyrir lausn verkfallanna með lagasetningu um verðtryggingu launa í samræmi við það, sem verkalýðshreyfingin hefur sett fram.“

Um þetta fjallar þáltill. Það er sem sagt áskorun á ríkisstj. að semja frv. og bera fram á Alþ. frv., sem samkv. stjórnarskrá og þingsköpum ber að leggja fram fyrir aðra hvora d. Nú er það mál fyrir sig, að af hálfu ríkisstj. hefur því margoft verið lýst yfir, bæði hér í hinu háa Alþ, fyrir jól og nú eftir að þingið kom saman aftur, eins utan Alþ. í alþjóðar áheyrn, bæði í útvarpi og sjónvarpi, að ríkisstj. telji ekki ráðlegt að bera fram slíkt frv., a.m.k. eins og málefni standa. nú. Það er því alveg ljóst, að ríkisstj. er þessari till. andvíg, við skulum segja með réttu eða röngu.

Hv. þm. geta haft þá sannfæringu, að það sé eðlilegt að ráða fram úr þessu máli með löggjöf, eins og þeir leggja til í till. að skora á ríkisstj. að beita löggjöf. En það er vitað mál, að ríkisstj. er þarna annarrar skoðunar. Af hverju er þá verið að fara krókaleiðina, sem hefur í för með sér tafsamari meðferð, aukastig í meðferð málsins, að leggja það fyrst fram í Sþ., eins og hér er ráðgert, í stað þess, að hv. þm. beri sjálfir fram frv. um það, sem hér er lagt til? Það er sá eini eðlilegi þinglegi háttur til þess að fá úr því skorið á Alþ., hvort frv. í því formi, sem hv. þm. sjálfir telja ráðlegt, hefur fylgi eða ekki. Þeir hefðu getað lagt slíkt frv. fram á mánudaginn var. Þá hefði með þinglegum hætti 1. umr. þess vel getað farið fram í annarri hvorri d. þegar s.l. þriðjudag, án þess að nokkur afbrigði hefðu verið höfð frá venjulegri, þinglegri meðferð. Í stað þess ætlast þeir til, að aðili, sem er andvígur þessari meðferð, setjist niður og semji frv. leiðbeiningarlaust frá hv. þm. um efni þess í einstökum atriðum, því að nú kom það glögglega fram hjá hv. 1. þm. Austf., að það liggur engan veginn ljóst fyrir, hverjar kröfur hv. stjórnarandstæðingar gera um efni slíks frv. Hann segir, að verkalýðshreyfingin hafi mjög fallið frá upphaflegum kröfum um verðtryggingu launa sem áður voru fram fluttar. En úr því að hv. þm. segjast hafa um þetta hugmyndir, af hverju setja þeir þær ekki fram í frv.-formi og fá þannig skorið úr því á hinn skjótasta, eðlilega, þinglega hátt, hvort Alþ. vill fallast á þeirra hugmyndir um þetta eða ekki, þegar þær eru settar fram á efnislegan hátt, formlegan hátt og þannig, að ljóst sé, hvað fyrir hv. þm. vakir?

Það er því alveg ljóst, að hv. þm. hafa í þessu efni þegar frá upphafi ákveðið að viðhafa ekki þann eðlilega venjulega, þinglega máta til ákvörðunar löggjafarmálefnum. Það er hins vegar algerlega rangt, að ríkisstj. hafi út af fyrir sig haft á móti því, að þessi till. fengi skjóta afgreiðslu í þinginu. Það liggur þvert á móti ljóst fyrir, að s.l. mánudag, eins og málin horfðu þá, voru flokkar út af fyrir sig fyllilega til viðræðu um það að hafa útvarpsumr. um málið — og um útvarpsumr. er enginn ágreiningur í sjálfu sér, — þegar á fimmtudagskvöld. Það er að vísu miklu meiri hraði en venjulega á sér stað, þegar útvarpsumr. eiga að fara fram, en það sýnir, að það stóð út af fyrir sig ekki á ríkisstj. í þessum efnum. Það, sem gerist, er hins vegar það, að um miðjan dag á þriðjudag kemur vitneskja um það, að sáttasemjari hefur nýjar, ákveðnar hugmyndir um það, hvernig deiluna eigi að leysa. Eftir að þær till. voru orðnar mönnum kunnar, létu forustumenn beggja aðila bæði verkalýðsnefndarinnar, 18 manna nefndarinnar svokölluðu, og vinnuveitenda, uppi, að þeir teldu mjög óheppilegt, að almennar útvarpsumr. ættu sér stað um málið frá Alþ. meðan verið væri að kanna til hlítar, hvort hægt væri eð ná samkomulagi á þessum grundvelli. Er ég hafði heyrt skoðun þessara aðila beggja, spurði ég sáttasemjara um hans skoðun. Hann sagðist ekki vilja blanda sér í störf Alþ., en hann sagði, að það lægi ljóst fyrir, að ef menn hefðu hug á að vinna að skjótri lausn málsins, væri útvarpsumr. á þessu stigi óheppileg.

Það eru þessi atvik, sem hreinlega valda því, að stjórnarflokkarnir hafa talið óheppilegt, að útvarpsumr. um þetta mál færu fram á þessu stigi, að það yrði vikið frá venjulegri, þinglegri reglu til þess að trufla umleitanir, sem gefa a.m.k. nokkra von um lausn málsins. Nú á það eftir að sýna sig, hvort lausnin finnst eftir þessari leið eða ekki. En það er mikill ábyrgðarhluti fyrir þann, sem vill knýja fram umr. á þessu stigi þvert ofan í yfirlýsingar, svo að ekki sé sagt tilmæli forustumanna beggja aðila um, að opinberar deilur, harðvítugar deilur, sem óneitanlega hlytu að verða, væru látnar eiga sig, látnar bíða meðan menn væru að reyna að finna lausn á þessu mjög erfiða máli. Það er eins og haft er eftir einum glöggum og gegnum stjórnmálamanni, að hann eigi að hafa sagt, að þær viðræður, sem hafa átt sér stað í útvarpi og sjónvarpi að undanförnu milli forustumanna aðila, væru svipaðar því eins og menn ætluðu að fara að semja um lausn deilunnar gegnum hátalara á sjálfu Lækjartorgi. Það var glöggur og greindur maður, margreyndur, sem gaf þessa lýsingu á þessari samningsaðferð. Hafi sú lýsing á þeim fréttaflutningi, sem fram hefur farið nú þegar, verið réttmæt, á hún enn þá frekar við þá aðferð, sem hér er verið að stinga upp á. Hér er verið að reyna að knýja hæstv. forseta með ögrunum til að hafa umr. á þeim tíma, þegar aðilar þeir, sem eru að semja um málið, biðjast undan slíkum umr.

Málið er að öðru leyti í höndum forseta. Það er síður en svo, að ríkisstj. hafi reynt að beita hann nokkurri þvingun. Hann hefur þetta á sínu valdi, og umr. fara að sjálfsögðu fram, þegar hann telur það ráðlegt, en það er ástæðulaust að vita hann fyrir það, þó að hann fylgi venjulegum, þinglegum hætti, eins og málavöxtum er varið.