14.03.1968
Neðri deild: 75. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í D-deild Alþingistíðinda. (2950)

156. mál, lausn verkfalla

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að fylgja þeim fyrirmælum, sem hæstv. forseti hefur gefið hér um ræðutíma, enda þótt þingsköp mæli svo fyrir, að þm. hafi jafnan rétt til þess að gera stutta athugasemd um þingsköp. Ég ætla mér ekki að fara að endurtaka þau rök, sem hér hafa komið fram fyrir þeirri kröfu, að umrædd þáltill. verði tekin til umr. Þau eru svo sjálfsögð og augljós, að mér finnst óþarft að vera að endurtaka þau. En þeirri skoðun, sem hér hefur komið fram af hálfu hæstv. forsrh., vil ég eindregið mótmæla, að frjálsar umr. séu líklegar til þess að spilla fyrir lausn mála.

Það glíma tvö stjórnarkerfi í heiminum í dag, einræðiskerfi og lýðræðiskerfi. Lýðræðiskerfið byggist á því, að frjálsar umr. séu til þess að tryggja lausn mála og fá hinar beztu niðurstöður. Einræði byggir hins vegar á því, að frjálsar umr. séu óheppilegar, það sé óheppilegt að hafa marga flokka, fleiri en einn og annað þess háttar, því að það spilli fyrir lausn málanna. Mér finnst hæstv. forsrh. vera að nálgast ákaflega. mikið þennan hugsunarhátt, þegar hann er farinn að prédika hér í ræðustólnum á Alþ., að frjálsar umr. séu líklegar til þess að spilla fyrir lausn mála. Ef við erum lýðræðismenn, þá verðum við að byggja á þeirri trú og þeim skoðunum, að frjálsar umr. greiði fyrir lausn mála, en ekki hið gagnstæða. Og ef ríkisstj. treystir á málstað sinn, þá á hún jafnan að óska eftir frjálsum umr., en þagga þær ekki niður. Það gerir líka áreiðanlega hver sú ríkisstj., sem treystir því, að hún hafi rétt fyrir sér. En ástæðan til þess, að ríkisstj. berst nú gegn frjálsum umr. með forsrh., byggist á því, að hann treystir ekki á málstað sinn, hann þorir ekki að ræða hann í alþjóðar áheyrn.

Það atriði, sem ég vildi annars sérstaklega benda á í þessu sambandi, er það, að forsrh. hélt því fram, að það mundi ekki vera, þingmeirihluti fyrir þessari till. Ég tel, að það sé fullkomlega ókannað, hvort svo sé. Á hlaupársdaginn kom út tölublað af blaðinu Skutli, sem er gefið út á Ísafirði. Ábyrgðarmaður þess er Birgir Finnsson, hæstv. forseti sameinaðs Alþ., og einn þeirra manna, sem hefur atkvæðisrétt hér á Alþ. Í þessu blaði, sem hann er ábyrgðarmaður að, birtist forustugrein, þar sem rætt er um vísitöluna og verkföllin, og þar segir m.a. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Vart verður annað með sanni sagt, en að verkalýðshreyfingin sé hógvær í kröfum sínum. Ekki er minnzt á grunnkaupshækkun, aðeins farið fram á að fá leiðrétt kaupgjald, sem svarar aukinni dýrtíð. Í þessu sambandi skyldu menn hafa hugfast, að sú leiðrétting, sem farið er fram á, hefði fengizt orðalaust og án nokkurra átaka ef lögbinding um vísitöluhækkun hefði ekki verið numin úr gildi.“

Þetta stendur í forustugrein í því blaði, sem hæstv. forseti Sþ., Birgir Finnsson, er ritstjóri að, og stendur það nafnlaust, og verður ekki annað séð en þetta sé á hans ábyrgð. Mundi sá maður, sem skrifað hefur þetta í sitt blað, vera á móti þeirri till., sem hér liggur fyrir? Og ég spyr hins sama um marga hv. Alþýðuflokksmenn, sem hafa talað á sömu leið. Ég held þess vegna, að það sé engan veginn rétt, sem forsrh. fullyrðir, að það sé víst, að þessi till., sem hér er um rætt, ef hún kæmi til atkvæða, hefði ekki þingmeirihluta að baki sér. Og það er vegna þess, sem við flm. till. leggjum alveg sérstaka áherzlu á, að hún fái afgreiðslu á Alþ. sem allra fyrst og komi ekki síðar til umr. en á morgun.