14.03.1968
Neðri deild: 75. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í D-deild Alþingistíðinda. (2953)

156. mál, lausn verkfalla

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að forðast að lengja þessar umræður, en það er tvennt í málflutningi hv. þm. Austf., sem ég hlýt að mótmæla. Það er annars vegar það, að ríkisstj. hafi beitt mig einhverjum þvingunum í sambandi við ákvörðun um, hvenær útvarpsumræður skuli fara fram. Því fer víðs fjarri. Eins og hv. 4. þm. Austf. rakti og fram kom í minni ræðu áðan, þá var það fyrst í gær, sem það lá endanlega fyrir, að ekki næðist samkomulag milli þingflokkanna um þetta atriði, og tel ég, að ekki hafi neinn óeðlilegur dráttur á því orðið að taka þessa ákvörðun. Í öðru lagi hlýt ég að mótmæla því, þegar véfengt er, að rætt hafi verið við forustumenn samningsaðila í sambandi við þetta mál. Sá maður, sem ég hef talað við og ég veit, að hæstv. forsrh. hefur líka talað við, er sjálfur forseti Alþýðusambands Íslands, og frá hinum aðilanum, frá vinnuveitendum, höfum við báðir rætt við Björgvin Sigurðsson. Auk þessa hefur hæstv. forsrh. rætt málið við sáttasemjara, eins og margoft hefur komið fram í þessum umræðum.

Ég hygg, að það hafi verið 1. þm. Austf., sem varpaði fram þeirri spurningu, hvort menn teldu, að það gæti á nokkurn hátt verkað truflandi á samninga, að þetta mál yrði tekið hér til umræðu. Mér finnst reyndar, eins og málavextir eru, að hann hafi svarað þessu sjálfur, því að þegar hann var að lýsa því, hvað hann geti hugsað sér, að þau lög, sem sett yrðu, fjölluðu um, þá var það alls ekki það sama, sem felst í umræddri þáltill. Þáltill. felur það í sér, að það eigi að lögbinda allar kröfur annars aðilans. Eins og þáltill., sem liggur hér fyrir á þskj. 357, er orðuð, ber hún þetta með sér.

Hv 1. þm. Austf. lýsti því hér áðan, að það væri ýmislegt annað en það, sem í þáltill. felst, sem hann gæti hugsað sér, að yrði lögfest. Eins og málin standa, þ.e. að hreyfing er á samningum deiluaðila og það liggur fyrir, að sáttasemjari er kominn nálægt því, eftir því sem heyrzt hefur, að bera fram sáttatill., þá hygg ég, að ekki sé heppilegt, að hér á Alþ. fari fram umr. um till, sem felur það í sér, að gengið verði að fyllstu kröfum annars deiluaðilans.

Eins og ég lít á vinnudeilur, samninga vinnuveitenda við launþegasamtökin og þá löggjöf, sem við búum við, tel ég, að oft geti komið til greina, ef vinnudeila hefur staðið lengi og ekki hefur náðst fullt samkomulag, en bilið milli deiluaðila orðið mjótt, að Alþ. skerist í leikinn með því móti að lögbinda sáttatill., sem búið er að reyna við. Mér er þess vegna spurn: Hvort mundu hv. flm. þessarar margumræddu till. vilja greiða fyrir því, ef svo kynni að fara í þessari deilu, að bilið væri orðið það mjótt, að ekki munaði miklu, en sáttatill, næði samt sem áður ekki fram að ganga að sú sáttatill. yrði lögbundin með hraði hér á Alþ.?

Hv 4. þm. Reykv., sem kvaddi sér hljóðs hérna áðan, las upp setningu úr Skutli, úr grein, sem skrifuð er áður en verkfallið hófst, þar sem réttilega er fram tekið, að út af fyrir sig séu kröfur hinna lægst launuðu í verkalýðshreyfingunni ekki miklar. Hv. þm. gerði um leið það, sem honum er oft lagið, að hann las ekki nema lítinn hluta úr þessari grein og sleit þar með samhengi hennar. Þetta hendir oft þennan hv. þm., þegar hann vitnar í einhver blöð andstæðinga sinna hér á Alþ. Ég vil þess vegna, með leyfi hæstv. forseta, lesa niðurlag þessarar Skutulsgreinar, en það eru í henni ýmiss konar hugleiðingar um kjarabaráttuna og þá deilu, sem var í uppsiglingu, þegar greinin var rituð. Greinin endar með þessum orðum:

„Einhvern veginn hefur atvikaröðin verið sú á undanförnum árum, að þegar verkamenn, sem oftast hafa mátt ríða á vaðið, hafa, á stundum eftir harðvítuga baráttu, fengið sín kjör bætt, þá hafa betur launaðar stéttir komið í kjölfarið og talið sjálfsagt, að þær fengju sömu prósentuhækkun, — oft reyndar meira á hærri grunn, svo að bilið hefur sífellt breikkað. Þá er og athyglisvert, að hin síðarnefnda barátta hefur oft kostað minni átök. Þessi meinsemd, að hinir lægst launuðu megi aldrei fá sín kjör bætt, án þess að allar aðrar stéttir þjóðfélagsins þurfi að koma á eftir, er búin að vera þjóðfélaginu dýr og verkamönnunum sjálfum til mestrar óþurftar. Úrelt skipulag samtaka þeirra á hér vissulega sinn þátt. Og ríkisstjórnir hafa ekki þorað að höggva á hnútinn, sem svo síðar hefur orðið þeim að falli. Hvernig væri nú, þegar þjóðin á við jafnmikla efnahagsörðugleika að etja og hún á í dag, að reyna á þjóðhollustuna, með því, að hinar betur settu stéttir þjóðfélagsins létu það viðgangast, að hinir verst settu fengju leiðréttingu, án þess að hið sama gilti yfir alla línuna? Ef þetta gæti gerzt, væri áreiðanlega um lítinn vanda að ræða. Verkföll eru engum til góðs, en geta verið ill nauðsyn. Þann helga rétt má ekki misnota á sama hátt og ekki má misnota sér óttann við afleiðingar þeirra gagnvart beitendunum sjálfum. Vonandi leysast vandamálin hið fyrsta og án átaka.“

Þannig lauk þessari Skutulsgrein, sem hv. 4. þm. Reykv. las. Ég vil leyfa mér að beina því til hans, að hann hugleiði nú þetta niðurlag greinarinnar.