13.02.1968
Neðri deild: 61. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í D-deild Alþingistíðinda. (2986)

115. mál, styrjöldin í Víetnam

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Till., að ég hygg alveg shlj. þessari, hefur verið borin fram í hv. Ed., og hún var þar til umr. í dag, og gerði ég þar nokkra grein fyrir afstöðu minni til þessa máls og skal því ekki vera mjög langorður.

Þetta mál, styrjöldin í Víetnam. hefur tekið upp hugi fjölda manna, bæði í okkar landi og viða annars staðar, og eru allir sammála um, að allt verði gert, sem hægt er, til þess að reyna að binda enda á þessa styrjöld. Það eru miklar hörmungar, sem gengið hafa yfir þessa vesalings þjóð, bæði fyrr og síðar, því að styrjöldin hefur staðið nú í hvorki meira né minna en rúma tvo áratugi. Ef nokkur leið er að binda hér enda á, ættu allir góðir menn að vera sammála um að reyna það, svo fljótt sem unnt er.

Margar till. hafa verið gerðar. Margar þjóðir hafa reynt að bera sáttarorð á milli. Það hafa gert bæði Bretar, Kanadamenn, Frakkar, Ítalir og ýmsir fleiri. Einstaklingar ýmsir hafa líka reynt þetta sama. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna, U Thant, hefur borið fram till. til lausnar þessari deilu, ekki aðeins eina, heldur tvær a.m.k., og gert allt, sem í hans valdi hefur staðið, til þess að bera klæði á vopnin. Ekkert hefur dugað. Það hefur verið gerð tilraun til þess að fá Sovétríkin til að skerast í málið og reyna að beita áhrifum sínum til þess að binda enda á styrjöldina. Þau hafa aftur svarað því, að þetta hljóti að vera mál þeirra sem við eigast, og ekki viljað hafast að.

Hér var borin fram í fyrra till. til þál., sem var, ef ég man rétt, í öllum aðalatriðum shlj. fyrri till. U Thants. Hún kom nokkuð seint fram, og um hana var ekki gerð ályktun, og ska1 ég ekki fara frekar út í það, enda kom þá, skömmu síðar fram af hálfu U Thants önnur till., sem var í veigamiklum atriðum nokkuð öðruvísi. Hér er borin fram till., sem, eins og segir í grg. till., er í meginatriðum sniðin eftir ályktun hollenzka þingsins frá 25. ágúst 1967. Það er alveg rétt, að þessi till. er í meginatriðum sniðin eftir samþykkt hollenzka þingsins, en þó vantar í hana niðurlagið á hollenzku till., sem gekk í þá átt að skora á alla aðila, sem þetta mál snertir, að ganga til samninga á grundvelli Genfar-samningsins frá 1954. Það er sjálfsagt mál, sem kemur til síðar, ef svo vænlega skyldi fara, að til samningaumleitana væri gengið.

Ég tel rétt að skýra frá því líka, að mér hefur borizt blaðaúrklippa eða frásögn af nýrri viðleitni Hollendinga til þess að vinna, að þessum málum. Ég hef ekki fengið þær upplýsingar eftir diplómatískum leiðum, heldur hef ég séð það í hinu merka blaði Herald Tribune, frá 9. febr. s.l. Þar segir frá því, að utanrrh. Hollands hafi lýst því yfir í þinginu, að hann vildi búa síg undir það að leita til annarra landa, og nefndi sérstaklega til Belgíu, Lúxembúrg, skandinavísku löndin og raunar fleiri um, að þau öll mynduðu samstöðu í þessu máli og reyndu þannig að knýja fram einhvern árangur í málinu. Ég teldi það mjög vel viðeigandi, ef til okkar Íslendinga yrði leitað í þessu efni, að við tækjum þátt í þessu og gerðumst aðili að þessum hópi smáþjóða um það að leitast við að fá enda bundinn á styrjöldina.

Ég tel, að þessi hollenzka till., sem hér hefur verið borin fram, fari í rétta átt. Þar er borin fram till. um það að skora á báða deiluaðila og raunar má segja alla deiluaðila um það, að þeir gangi til sameiginlegra sáttafunda og leitist við að binda enda á málið. Ég veit að vísu, að það getur vel verið einhver smámeiningarmunur um orðalag, og teldi þess vegna sjálfsagt, eins og frummælandi lagði hér til, að það yrði gert hlé á umr. hér á einhverju vissu stigi og málinu vísað til n., sem þá væntanlega yrði allshn. þessarar d., til þess að fjalla um málið. Þessari till. var í Ed. vísað til allshn., og mætti þá vel vera að allshn. beggja deilda hefðu eitthvert samráð um afgreiðslu þess.

Þegar till. var samþ. í hollenzka þinginu, var hún ekki samþ. shlj., heldur var hún samþ. þar með 77:54 atkv., þannig að það var ekki einhuga samstaða um hana. En það, sem ég vildi leggja áherzlu á, er, ef hægt væri að ganga þannig frá orðalagi ályktunarinnar, að menn gætu orðið um hana nokkuð sammála. Sömuleiðis vildi ég, að það kæmi kannske fram, — ég er ekki að gera það að neinu aðalatriði, en ég get vel hugsað mér, að það kæmi fram, að ef til okkar yrði leitað af hálfu Luns utanrrh. Hollands eða einhvers í hans stað um samstöðu með þeim löndum, sem hann fær samstöðu við um að ganga í málið með eins miklum krafti og mögulegt er, þá mundum við verða þar þátttakendur. — Fleira hef ég svo ekki að segja á þessu stigi málsins.