13.02.1968
Neðri deild: 61. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í D-deild Alþingistíðinda. (2989)

115. mál, styrjöldin í Víetnam

Flm. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég vil taka undir með síðasta ræðumanni um þakkir til hæstv, utanrrh. fyrir það, hvernig hann hefur tekið á þessu máli, því að það gerir hann viturlega.

Aftur á móti þótti mér illt að heyra, að sumu leyti, til hv. 2. þm. Vestf., vegna þess að hann fór hér að rifja upp atriði, sem við flm. höfum forðazt að gera. Við höfum ekki verið með neitt hnútukast í einn eða neinn í samhandi við þetta mál, heldur reynt að fá samstöðu þingsins um það að taka undir skynsamlega skoðun, sem nú er mjög vaxandi fylgi fyrir víða í heiminum. Hv. þm. fór að rifja upp a.m.k. eitt atriði í sambandi við sögu Víetnams á síðari árum, og það hefði svo sem verið ástæða til þess að gera það líka miklu nánar, og ég var búinn að búa mig undir það að gera það mjög rækilega hér í ræðu, ef á þyrfti að halda. En mér sýnist nú, að þess sé ekki þörf. En í tilefni af því, sem hv. þm. sagði, langar mig til þess að víkja hér að einni tilvitnun, aðeins stuttri tilvitnun, því að ég ætla ekki að níðast á hæstv. forseta um tímann núna. Ég veit, að það skiptir máli að geta haldið áfram því máli, sem hér er einnig á dagskrá. En mig langar til þess að vísa hér til einhverrar berorðustu gagnrýni, sem ég hef heyrt um stefnu Bandaríkjanna í Víetnam, en hún kemur fram í ræðu prófessors George McKahins í Cornellháskólanum í Bandaríkjunum, en þar segir prófessorinn svo m.a. í lauslegri þýðingu:

„Stefna Bandaríkjanna hefur verið röng frá fyrstu tíð. Okkur hefur tekizt að treysta þá skoðun í sessi, að víetnamskir föðurlandsvinir eigi einskis annars úrkosta en fylkja sér undir fána Ho Chi Minhs.“

Enn fremur segir prófessorinn, og það er vert, að við tökum eftir þeim orðum, vegna þess að þar er komið örstutt inn á Genfar-samkomulagið:

„Svo kom Genfar-samkomulagið og kvað skýrt á um það, að Víetnam væri eitt land. Í einhliða yfirlýsingu sinni í Genf töluðu Bandaríkin aðeins um Víetnam í eintölu, en nefndu hvorki Suður- né Norður-Víetnam. Eigi að síður tóku Bandaríkjamenn til við að mynda sérstakt ríki í suðurhluta landsins, og enn gerðum við þá skyssu,“ segir hinn bandaríski prófessor, ,,að ímynda okkur, að við gætum sett á laggirnar lífvænlega ríkisstj., án þess að hún hefði nægilega traustan þjóðernislegan grundvöll á að standa.“

Ég hygg, að þessi tilvitnuðu orð þessa bandaríska prófessors snerti kjarna þessa máls, án þess að ég ætli að fara að rifja þetta mál frekar upp, en það hefði ég getað, ef mér hefði fundizt, að ástæða væri til, en ég vil ekki fara að munnhöggvast hér við hv. 2. þm. Vestf. um þetta atriði. Ég vil aðeins ítreka þakkir mínar til hæstv. utanrrh. fyrir þær góðu undirtektir, sem till. fær hjá honum, og ég vil endurtaka það, sem ég sagði í frumræðu minni, að vitanlega erum við flm. þess albúnir að breyta orðalagi till., ef það má verða frekar til þess, að hún hafi framgang. Ég sé nú ekki heldur ástæðu til þess að ræða. þó að það væri kannske viss ástæða til, að hv. 2. þm. Vestf. furðaði sig á því, að við framsóknarmenn skyldum flytja hér till. ásamt Alþb.-mönnum einum saman. En ég vil aðeins benda honum á það, ef hann veit ekki um það, og öðrum hv. þm., að við gerðum þó nokkuð til þess að fá samstöðu manna úr fleiri flokkum um þennan tillöguflutning, en það heppnaðist ekki.