09.04.1968
Neðri deild: 94. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í D-deild Alþingistíðinda. (2992)

115. mál, styrjöldin í Víetnam

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að kveðja mér hljóðs hér utan dagskrár til þess að minnast á viss atriði í sambandi við þinghaldið og gang þingmála. Einkum vil ég gera að umræðuefni störf n. og afgreiðslu þeirra á málum, sem til þeirra hefur verið vísað.

Þingið hefur nú setið síðan 10. okt. og aðeins tekið stutt jólafrí, a.m.k. styttra en oft áður. Hins vegar er gangur þingmála þannig, að n. liggja á málum vikum eða mánuðum saman, þangað til í eindaga er komið, þangað til komið er að þinglokum, sem ríkisstj. ákveður, hver vera skuli, og ekki virðast miðuð við afgreiðslu og fullnaðarathugun fyrirliggjandi mála, heldur einhverjar prívatástæður hæstv. ríkisstj. Nú skilst mér, að búið sé að ákveða þinglok. Ríkisstj. hefur ákveðið þinglokin laugardaginn í páskavikunni, að því er fregnazt hefur. Það þýðir, að eftir eru 7 virkir þingdagar. Þingið á eftir að starfa 7 daga. Nú er vitað, að þingið á eftir að ljúka ýmsum föstum og óhjákvæmilegum skylduverkum, svo sem eldhúsdagsumræðum o.fl., sem tíma tekur, og vafalaust er eitt og annað eftir af málum, sem ríkisstj. leggur áherzlu á að knýja fram. En hvað um ýmis önnur mál? Hvað um frv. og þáltill. einstakra þingmanna? Það er hætt við, að ýmis slík mál lendi í undandrætti hjá hv. Alþingi að þessu sinni, m.a. vegna þess, að n. gefa sér ekki tíma til að vinna að þessum málum. En til hvers er þá verið að senda mál til n., ef þær sinna ekki málum. sem til þeirra er beint. Það er skylda þn., að sinna af alúð hverju því máli, sem til þeirra er vísað. Nefndum er það engin ofætlun að gefa út nál. um mál, sem þær fá til meðferðar, ekki sízt þegar um mál er að ræða, sem lengi hafa legið fyrir n. Það er áreiðanlega mikið af slíkum málum óafgreitt hjá n. í þessari hv. d., málum, sem lengi hafa verið til athugunar í n., en ekki fá neina afgreiðslu eða seinkar mjög óhæfilega.

Nú, þegar komið er fast að þinglokum, vil ég sérstaklega minnast á eitt mál, sem lagt hefur verið fyrir þessa hv. d. Mér er málið sérstaklega skylt fyrir það, að ég er 1. flm. þess, og tel eðlilegt og sjálfsagt, að málið fái afgreiðslu, að málið komi a.m.k. frá nefnd. Þetta er till. til þál. um styrjöldina í Víetnam. Till. þessari var vísað til hv. allshn. fyrir nærri tveimur mánuðum og hefur nú legið þar allan þennan tíma, og nál. hefur ekki verið gefið út. Þetta verður að teljast óhæfilegur dráttur og lítil fyrirmyndarvinnubrögð af n. að láta slíkt mál liggja svo lengi óafgreitt. Nú vil ég leyfa mér að spyrjast fyrir um það hjá hv. deildarforseta, ef hann getur svarað því, eða hjá formanni allshn. sjálfum, hvað líði störfum n. varðandi þetta mál, hvort ekki sé að vænta álits n. um þetta efni? Af mörgum og gildum ástæðum hef ég sannfæringu fyrir því, að þingmeirihl. sé í raun og veru fyrir hendi um aðalefni og markmið þessarar þáltill. Ég tel næstum því víst, að meiri hl. Alþingis og þá ekki sízt þessarar hv. d sé þeirrar skoðunar, að við Íslendingar eigum að slást í hóp annarra Norðurlanda og evrópskra lýðræðisríkja, sem óhikað hafa kveðið upp úr um afstöðu sína til styrjaldarinnar í Víetnam. Ég tel næstum víst, að slíkur meiri hl. sé fyrir hendi. Ég ræð það ekki sízt af orðum hæstv. utanrrh. við umr. um till., þegar hún var til frumumræðu í þessari hv. d. Ég held því, að Alþfl. muni ákveðið fylgjandi því, að Alþingi Íslendinga þrumi ekki eins og þurs, þegar slíkt mál ber á góma, heldur taki jákvæða afstöðu til þess. Eins hef ég ástæðu til að ætla, að innan Sjálfstfl. eigi slík till., eða till., sem fjallar um þetta efni a.m.k., fylgi að fagna. Það ræð ég m.a. af samtali við hæstv. forsrh. um þessa till. og meðferð hennar fyrir nokkru. Hann hafði að vísu sitt hvað út á orðalag till. að setja fyrir sitt leyti, en hann var fús til þess að stuðla að því, að till. um þetta efni næði fram að ganga till., sem allir gætu orðið sammála um. Ég hef því fyllstu ástæðu til að ætla það nú, að meiri hl. Alþingis telji það enga fjarstæðu, að Alþingi ræði þetta mál og geri ályktun um það.

Það er vel, að sú búralega einangrunarhyggja, sem stundum skýtur upp kollinum í umr. hér á landi um alþjóðamál, er á undanhaldi, hér á hv. Alþingi. Mér finnst, að einangrunarhyggja og áberandi afskiptaleysi um alþjóðleg málefni séu jafnósæmileg Alþingi Íslendinga og hvatvísleg eftiröpun erlends hugsunarháttar og skoðana. Ég held, að frjálslegar og málefnalegar umræður um alþjóðamál mundu auka stórlega á gildi Alþingis sem þjóðfélags- og lýðræðisstofnunar og verða ríkisstj. mikill siðferðislegur styrkur í sambandi við mótun utanríkisstefnu þjóðarinnar og afstöðu hennar til einstakra vandamála á alþjóðavettvangi, þar sem Íslendingar eru aðilar, svo sem hjá Sameinuðu þjóðunum.

Víetnam-málið er eitt þeirra mála, sem borið hefur hæst á alþjóðavettvangi undanfarin ár. Það hefur ekki sízt borið hátt á vettvangi sameinuðu þjóðanna, en þar eru Íslendingar þátttakendur með sömu réttindi og skyldur og aðrar smáþjóðir. Við höfum þar venjulega fjölmenna sendinefnd hluta af árinu og fastan ambassador allt árið. Að þessu leyti hegðum við okkur því eins og aðrar stærri þjóðir. Og hví skyldum við þá ekki sem aðrar þjóðir leggja eitthvað af mörkum skoðanalega og með tillögugerð um helztu mál, sem rædd eru á vettvangi Sameinuðu þjóðanna?

Ég álit, að Íslendingar hefðu fyrr átt að skipa sér í hóp þeirra þjóða sem fordæmdu styrjöldina í Víetnam og hvettu til friðar þar og samninga um framtíðarskipan mála í landinu. Þessi styrjöld er nefnilega ekki einangrað fyrirbæri, ekki smástyrjöld, sem engin áhrif hefur utan vígstöðvanna. Þessi styrjöld er og hefur verið ógnun við heimsfriðinn, og því kemur hún okkur Íslendingum við, alveg án tillits til smæðar þjóðarinnar eða stærðar og alveg án tillits til þess, hvort áhrif okkar eru mikil eða lítil. Ég vil því mælast til þess, að hv. allshn. hraði afgreiðslu Víetnam-till. Það má vel vera að einhverjum finnist, að aðstæður hafi breytzt svo hina síðustu daga, að till. eigi ekki rétt á sér, hún sé óþörf, hún geri ekkert gagn o.s.frv. Ef til vill hugsa einhverjir svona, og ef til vill hugsa einhverjir hv. allshn.-menn svona, en það gefur þeim engan rétt til þess að aðhafast ekkert um afgreiðslu till. nú, þegar komið er að þinglokum. N. eiga að afgreiða mál. sem þeim eru fengin til athugunar. Ef breyttar aðstæður hafa áhrif á nm., enga þeir að gera grein fyrir þessum breyttu aðstæðum í nál. Ég neita því ekki, að vissar breyttar aðstæður eru fyrir hendi í Víetnam-málinu, frá því að till. var fyrst lögð hér fram. og vitanlega fagna ég þeim breyttu aðstæðum. En það þarf alls ekki að þýða það, að till. hafi misst gildi eða Alþingi geti því fremur haldið áfram að sofa á þessu máli. Í fyrsta lagi er þess að geta, að enn hefur ekki verið setzt að samningaborði um frið í Víetnam. Stríðið gelsar enn og vafamál, hversu mikið aðstæðurnar hafa breytzt og hversu mikið hefur dregið úr styrjöldinni Í öðru lagi hefur loftárásum á Norður-Víetnam ekki verið hætt að fullu, en það hefur lengst af verið talið frumskilyrði virkra samningagerða. Loftárásirnar voru t.d. mjög harðar í gær og ef til vill harðari en nokkru sinni áður.

En hvað sem þessu líður, stendur enn upp á Íslendinga að slást í hóp sambærilegra lýðræðisþjóða um að lýsa yfir áhyggjum sínum yfir Víetnam-styrjöldinni og óttanum á því, að styrjöldin geti breiðzt út og magnazt í allsherjar ófriðarbál. Við getum með engu móti lýst afstöðu okkar skýrar en með því, að sjálft Alþingi sameinist um ályktun um þetta mál. Ef mönnum sýnist ástæða til að taka tillit til breyttra aðstæðna, er ekkert við því að segja, en ég tel það ótækt í máli sem þessu, að n. skili ekki áliti. Það eiga n. að gera í öllum málum ekki sízt í hinum stærri málum, sem þessi till. um styrjöldina í Víetnam vissulega er.