09.04.1968
Neðri deild: 94. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í D-deild Alþingistíðinda. (2994)

115. mál, styrjöldin í Víetnam

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Út af þeirri fsp., sem hv. 3. þm. Norðurl. e. gerði hér, og því, sem hann sagði varðandi störf n., vildi ég leyfa mér að segja nokkur orð.

Hann gerði sérstaklega að umræðuefni afgreiðslu á till., er hann er 1. flm. að hér í hv. d., um styrjöldina í Víetnam. Það mætti ætla, að allshn. væri sennilega versta n. í deildinni í sambandi við afgreiðslu mála, almennt, en ég vil segja honum það og öðrum þdm., að það eru tiltölulega mjög fá mál óafgreidd frá allshn., og meðal þeirra mála, sem eru óafgreidd, er fullt samkomulag innan n. um, eins og t.d. þingsköp Alþingis, að afgreiða þau ekki á þessu þingi, enda verður að segja eins og er, að það er mjög eðlilegt, að slíkt mál verði hér til umræðu og afgreiðslu á tveimur þingum, og ég hef engan þm. heyrt minnast á afgreiðslu á því máli.

Önnur tvö mál, sem óafgreidd eru, hefur ekki staðið á mér sem formanni n. að afgreiða, og hef ég ætlað að afgreiða annað málið nú tvo fundi í röð, en nm. hafa illa mætt á fundum og þá ekki síður nm. hv. stjórnarandstöðu, og ég hef ekki viljað afgreiða þetta m ál, af því að það er flutt af öðrum stjórnarandstöðuflokknum, að fjarstöddu m fulltrúa þess flokks í nefndinni.

Út af þessu sérstaka máli, þessari þáltill. um styrjöldina í Víetnam, vil ég segja það, að litlu eftir að þessari till. var vísað til allshn. og samhljóða till. í Ed. var vísað til allshn. Ed., ákváðum við það í allshn. beggja d. að boða til sameiginlegs fundar nefndanna og ræða um sameiginlega afgreiðslu á þessari till. Á þann fund vantaði nokkra nm. og sérstaklega vantaði nm. úr hópi flokks fyrirspyrjanda, því að það var aðeins einn framsóknarmaður af fjórum í allshn. beggja d., sem hafði tækifæri til þess að mæta á þeim fundi, sem þetta mál var rætt. Sá eini framsóknarmaður, sem mættur var, var varaþm., sem óskaði eindregið eftir því, að málið yrði ekki afgr., af því að hann væri hér einn og tiltölulega ókunnugur afgreiðslu þingmála. Fleira kom einnig til greina. N. var ekki sammála. Fulltrúar Alþb., sem mættu báðir á þessum fundi, vildu samþ. till. óbreytta þá þegar á þessum fundi. Annar þm. Alþfl. í allshn., fulltrúi allshn. Ed., vildi gera breyt. á till. En við hinir, allir fullrúar Sjálfstfl. og fulltrúi Alþfl. í Nd., vildum vísa þessari till. til utanrmn. til umsagnar. Það varð ofan á, og það var settur þar frestur. Ég ætla auðvitað ekki að svara neitt fyrir utanrmn., en þó veit ég, að einmitt um það bil eða daginn eftir að þessi sameiginlegi fundur allshn. d. var haldinn, fór fornnaður utanrmn. af landinu, og ég ræddi við menn úr utanrmn., og svo vita þm. það almennt og fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna að það hefur verið reynt að ná samkomulagi um afgreiðslu á þessu málí, Það hafa farið fram umr., að því er ég bezt veit, á milli flm. eða a.m.k. einstakra flm. annars vegar, forsrh. og utanrrh. hins vegar og einnig verið rætt af stjórnmálaflokkunum hér á Alþingi. Umsögn utanrmn. hefur ekki borizt allshn. d. fyrr en nú fyrir sennilega tæpum þremur stundarfjórðungum. Þá fékk ég bréf í hendur frá utanrmn., sem ég vil leyfa mér að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Með tilvísun til bréfs allshn, Nd., dags. 8. marz s.l., viðvíkjandi þáltill. um styrjöldina í Víetnam, skal fram tekið, að utanrmn. hefur á fundi sínum hinn 5. apríl 1968 rætt þetta mál. Niðurstaðan af þeim umr. er sú, að meirihl. n. álítur rétt að bíða um sinn vegna breytts viðhorfs með að afgreiða málið og sjá, hvað gerast kann í málinu á næstunni. Minni hl. hins vegar var því fylgjandi, að till. yrði afgreidd á þeim grundvelli, sem samkomulag mun hafa náðst um milli flm. annars vegar og forsrh. og utanrrh. hins vegar og stjórnmálaflokkunum á Alþingi verið um kunnugt.

F. h. utanríkismálanefndar, Sigurður Bjarnason, formaður. Gylfi Þ. Gíslason, fundaskrifari.“

Á þessu sést, að allshn. hefur ekki haft tækifæri til þess að taka þetta mál til afgreiðslu, vegna þess að það hefur verið reynt að ná samkomulagi um afgreiðslu málsins þennan tíma, og við í allshn. höfum viljað bíða eftir því og viljað bíða eftir umsögn utanrmn. Það hefur auðvitað ekki gefizt tími til að kalla allshn. saman, því að umsögnin barst í mínar handur um það bil 15 mín. fyrir kl. 2 í dag.