09.04.1968
Neðri deild: 94. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í D-deild Alþingistíðinda. (2997)

115. mál, styrjöldin í Víetnam

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég verð að segja, að mér er ekki alveg ljóst. hvað hæstv. forsrh. á við, þegar hann talar um, að breytt viðhorf í Víetnam valdi því, að sú till., sem hér er til umr., orðalag hennar, verði að gjörbreytast. Mér sýnist einmitt, að eins og horfir í Víetnam núna, sé þörfin jafnvel enn meiri en áður fyrir slíka samþykkt. Þessi þróun, sem átt hefur sér stað, þessi viðleitni til friðar í Víetnam, sem báðir stríðsaðilar eða allir hafa nú sýnt og hlýtur að vera öllum fagnaðarefni. hún orsakast að sjálfsögðu af því fyrst og fremst, hversu voldug er orðin og mikil sú fylking, sem krefst þess, fylking ríkisstjórna og þjóðþinga einstakra stjórnmálamanna og annarra áhrifamanna um heim allan, sem er fylgjandi þeim málstað, sem við flm. þessarar till., sem hér hefur verið vakið máls á, viljum, að Alþingi Íslendinga afli, enda teljum við, að till. þessi sé í fullu samræmi við vilja alls þorra íslenzku þjóðarinnar. En þrátt fyrir friðarhorfur í Víetnam er ekki þar með sagt, að lausn málsins hafi verið tryggð, að friður sé á næsta leiti í Víetnam og þess vegna óþarfi að knýja á í þessum efnum. Þvert á móti virðist mér, að einmitt núna séu mál þessi komin á það stig, að nauðsynlegra sé en nokkru sinni fyrr að knýja á um lausn þeirra, og sú von um frið í Víetnam, sem hefur verið að glæðast að undanförnu, má ekki bregðast, því að ef svo fer, verður ástand þessara mála tvímælalaust enn þá verra en það hefur þó verið hingað til. Tækifæri hefur boðizt til friðsamlegrar lausnar á deilumálunum þar austur frá, og ef það verður ekki notað til hins ýtrasta, kann svo að fara, að annað slíkt tækifæri gefist aldrei framar. Hið skelfilega stríð í Víetnam mundi magnast og átökin aukast, breiðast út, og endirinn kynni að verða sá, sem margir hafa lengi óttazt, sem sé heimsstyrjöld, það alheimsbál, sem ef til vill mundi ekki skilja eftir einn einasta ósviðinn blett á allri jarðarkringlunni.

Ég hef hér áður í vetur rætt um ábyrgð okkar Íslendinga í þessum efnum. Við hefðum að sjálfsögðu fyrir löngu átt að vera opinberlega orðnir þátttakendur í þeirri miklu fylkingu, sem berst fyrir friði í Víetnam. Og nú, þegar barátta þessara fylkinga hefur loks borið þann árangur, að allnokkuð hefur þokazt í friðarátt, sýnist mér, að það sé herfilegasta flónska og í þessu sérstaka tilfelli þó öllu heldur hið vítaverðasta ábyrgðarleysi að halda því fram, eins og maður gæti ímyndað sér og maður hefur heyrt ýmsa alþm. halda fram, að ekki skipti lengur máli, hvort við Íslendingar tökum þátt í þessari miklu fylkingu, sem berst fyrir friði í Víetnam, eða höldum áfram að halda okkur utan við hana, eins og við höfum hingað til gert, okkur til harla lítils sóma.

Það er að vísu rétt, að hlutur okkar Íslendinga í þessu máli getur aldrei orðið mikill, en hann skiptir máli, og hann skiptir einmitt meira máli nú en nokkru sinni fyrr. Ábyrgð okkar í þessum efnum er meiri núna en nokkru sinni fyrr, og sómi okkar liggur við nú meira en nokkru sinni fyrr, að við gerum það, sem í okkar valdi stendur, til þess að friður komist á í Víetnam. Og nú er tækifæri til þess, einmitt núna sérstakt tækifæri til þess, kannske aldrei framar, eins og ég segi. Ef hún bregzt, þessi von um, að friður náist í Víetnam, og ef hún bregzt, segi ég, og afleiðingarnar verða eins og ég nefndi áðan, verður réttilega á eftir hægt að fella yfir okkur þann dóm, að við höfum með sinnuleysi okkar og ábyrgðarleysi borið siðferðilega sök á því.

Ég vil ítreka það, að sómi Íslendinga liggur nú við, að við látum ekki okkar hlut eftir liggja, þegar tækifæri býðst til þess að koma á friði í Víetnam og brýnust er þörfin á öflugri samstöðu í þessum efnum. Vilji Íslendinga í þessum efnum og hlutur okkar Íslendinga að voldugu átaki til þess að koma á friði í Víetnam yrði staðfestur með samþykkt beggja þingdeilda, á þeirri þáltill., sem hér hefur verið vakið máls á, og ég trúi því ekki, fæst ekki til að trúa því, að Alþ. verði slitið svo, að slík samþykkt fáist ekki.