18.03.1968
Neðri deild: 77. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í D-deild Alþingistíðinda. (3007)

134. mál, nefnd til að rannsaka ýmis atriði herstöðvamálsins

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þessi till., sem hér liggur fyrir, er um skipun nefndar samkv. 39. gr. stjórnarskrárinnar til að rannsaka ýmis atriði herstöðvamálsins. Þessi till. er í 5 liðum, og ég skal leyfa mér að fara nokkrum orðum um hvern þeirra. Ég mun ekki fara út í að ræða myrkraverk amerísku leyniþjónustunnar, sem hv. flm. ræddi hér mikið um, og ekki heldur um Víetnam eða utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Það er annað mál eða önnur mál réttara sagt, sem ég tel, að ekki eigi að blandast inn í þetta, sem hér liggur fyrir.

Hv. þm. sagðist vera mikill vinur Bandaríkjanna, en eftir því sem ég gat skilið ræðu hans, gat ég ekki annað fundið en hún lýsti botnlausu hatri á Bandaríkjunum og öllu, sem þeirra er. Og meginatriðið í hans ræðu var ekki einasta að ræða um þá till., sem hér liggur fyrir, heldur að reyna að tína saman úr öllum áttum það, sem hann gat fundið, að miður færi í stjórn Bandaríkjanna. Þar var ekkert annað að finna en dylgjur, meira og minna rökstuddar, en þó aðallega minna, um utanríkisstefnu Bandaríkjanna, enda tók hann líka fram í sinni ræðu, að það væri hvergi hægt að treysta loforðum Bandaríkjamanna. Það var ekki mikið vináttubragð að þessu, og ég held þess vegna, að hv. þm. hefði gjarnan átt að láta það vera að telja sig svona góðan vin Bandaríkjanna.

Ég skal svo rekja í nokkrum orðum þessi atriði, sem eru uppistaðan í þessari till. Nefndarskipun samkv. 39. gr. stjórnarskrárinnar er ákaflega sjaldgæf í okkar landi, og ég efast um, að hún hafi nokkurn tíma verið sett á laggirnar. Hún er heimiluð í stjórnarskránni, það er alveg rétt, eru það hefur ekki það ég man komið til, að henni væri falið að rannsaka mál eins og þetta. En það, sem í þessari tillögu felst, er þetta:

Í fyrsta lagi, hvernig Íslendingar geti tryggt, að bandarískar flugvélar búnar kjarnorkuvopnum fljúgi ekki um íslenzka lofthelgi og lendi ekki á íslenzku landi, með hliðsjón af þeim atburðum, sem gerzt hafa í Thule á Grænlandi, þvert ofan í fyrri yfirlýsingar Bandaríkjanna. Þetta slys, sem varð í Thule fyrir 8 vikum, hefur verið rætt hér á Alþ., og í framhaldi af þeim umræðum fékk ég aðmírálinn, admiral Stone, á Keflavíkurflugvelli og sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi til að koma til mín og ræða þetta og þar með, hvort ekki væri öruggt, að það yrði ekki flogið með slíkar sprengjur yfir íslenzka lofthelgi, og ég tel mig hafa fengið frá þessum aðilum báðum örugga vitneskju um það, að ekki verði flogið yfir Ísland með kjarnorkusprengjur innanborðs. Nú hefur það komið fyrir síðan, að fyrrv. varnarmálaráðh. Bandaríkjanna, McNamara, tók þá ákvörðum, áður en hann yfirgaf sitt embætti, að hætta flugi með kjarnorkusprengjur. Hv. þm. vildi nú draga í efa, að þetta væri mikið að marka, því að þessir menn héldu aldrei það, sem þeir lofuðu. En ég vildi bara segja: Hvernig á n., sem fær þetta mál til rannsóknar, ef það yrði gert, hvernig ætti hún að ganga úr skugga um þetta? Það er yfirlýst af fyrrv. varnarmálaráðh. Bandaríkjanna, að það verði ekki flogið með þessar sprengjur, ekki einasta yfir Ísland, heldur einnig alls staðar. Ef það er ekki treyst loforðum, sem gefin eru af opinberri hálfu í Bandaríkjunum, hvernig á þá íslenzk n. að finna það út, hvort þetta er gert eða ekki? Á hún að fara upp í hverja flugvél og kynna sér það þar? Eða verður hún ekki að reiða sig á yfirlýsingar Bandaríkjanna, þar til annað sannast? Ég sé ekki, hvernig n., þótt hún sé skipuð samkv. 39. gr. stjórnarskrárinnar, getur fundið út, hvort flugvélar Bandaríkjanna hafi þessar sprengjur innanborðs eða ekki, og geti þess vegna ekki gert annað í málinu en leita eftir upplýsingum frá þessari Bandaríkjastjórn, sem hún tortryggir að vísu, um það, hvað gerist í þessu máli.

Ég held þess vegna, að þetta atriði verði

ekki kannað til neinnar hlítar, ef menn treysta ekki þeirri yfirlýsingu, sem Bandaríkjamenn hafa nú gefið.

Þá kem ég að öðru atriðinu, sem er um sjónvarpið frá Keflavík, sem mjög hefur verið til umr. líka á hv. Alþ. Og út af því vitnaði ég fyrir nokkru í upplýsingar, sem aðmírállinn í Keflavík gaf okkur um rannsókn á þessu máli. Þessi rannsókn leiddi það í ljós þá, að af 49 rannsökuðum tilfellum voru aðeins 5, minnir mig, sem höfðu möguleika til að ná Keflavíkursjónvarpinu, og þó ekki vel. Hinir 44 höfðu enga möguleika til þess að sjá sjónvarpið. Þá sagði aðmírállinn líka að borizt hefði tæki frá Bandaríkjunum, sem torveldaði þetta enn, en það hafði þá ekki verið sett upp vegna slæmra veðurskilyrða, en hefur nú verið sett upp. Og enn hefur verið rannsakað, til hve margra staða, þetta útvarp næst með sæmilegu móti. Og ég hef fengið um það skýrslu frá aðmírálnum, sem hefur falið íslenzkum sérfræðingum, verkfræðingum og útvarpsvirkjum, að fara fyrst og fremst til þessara staða sem þeir voru áður á., og mæla hvernig móttökuskilyrðin væru. Þá kom það í ljós, að í einu af tilvikunum, sem áður sáu nokkurn veginn Keflavíkursjónvarpið, sást það alls ekki nú, og hin þrjú, sem þá voru eftir, miklu verr en áður. Og það liggur fyrir umsögn frá íslenzkum sérfræðingum, sem kannað hafa málið, að 95% af Stór-Reykjavík væru útilokuð frá því að taka á móti sjónvarpi frá Keflavíkurflugvelli.

Hann vildi draga það í efa, hv. frsm., að Bandaríkjamenn hefðu staðið við loforð sitt um það að takmarka útsendingarnar, en mér finnst sannast sagna, að með þessum árangri, sem þegar hefur náðst, sé útsendingin til Reykjavíkursvæðisins mjög takmörkuð, þar sem þeir segja, sérfræðingarnir, sem unnu að þessari rannsókn, að það séu hæst 4—5%, sem hafa nokkra möguleika til þess að sjá þetta sjónvarp, og í flestum tilfellum sjáist það illa.

Ég tel þess vegna, að það sé engin brigð í þessu fólgin og að það sé engin þörf á að rannsaka það öllu nánar.

Út af dylgjum hv. þm., eins og líka kemur fram í till. og aths. við hana, þá skal ég ekkert annað um það segja en það, að ég er viss um, að Guðmundur Í. Guðmundsson, fyrirrennari minn í embættinu, hefur ekki vísvitandi sagt rangt frá. Ég tel ekki þess vegna neina þörf á því að skipa neina n. til að rannsaka þetta atriði.

Þriðja atriðið, sem gert er ráð fyrir samkv. þáltill. að verði rannsakað, er hvaða áhrif dvöl Bandaríkjahers á Íslandi hafi einkum haft á íslenzkt þjóðlíf, t.d. verði vandlega rannsökuð hin mikla fjármálaspilling, sem lengi hafi þrifizt í skjóli hersetunnar, og reynt að kanna, hvaða áhrif hersetan hafi haft á uppeldi, hugsunarhátt og tungutak íslenzkrar æsku í nágrenni herstöðvarinnar.

Ég hygg nú, að þó að n. væri kosin, þá mundi verkefnið vera mjög erfitt fyrir hana, því að hvernig á að gera upp á milli þeirra áhrifa, sem það veldur, að sjónvarpið hafi sézt, og hver séu áhrifin af hinum erlendu kvikmyndum t.d., sem flæða yfir landið og hafa gert í langan tíma? Ég sé ekki mikinn mun á því, hvort kvikmynd frá Keflavíkursjónvarpinu sé sýnd íslenzkri æsku eða öðrum Íslendingum, eða á því, að sama mynd eða svipuð sé sýnd í íslenzku kvikmyndahúsi. Ég held þess vegna, að erfitt verði eða mundi verða erfitt fyrir n., hvort sem hún hefði heimildir 39. gr. stjórnarskrárinnar á bak við sig eða ekki, að úrskurða, hvaðan áhrifin kæmu, sem ég neita ekki að hafi orðið á æskufólk nútímans hér á Íslandi.

Fjórða till., sem nefnd er, er það, hvort herstöðvar geti talizt veita þjóðinni nokkra vörn á ófriðartímum og hvort þær séu ekki líklegri til þess að kalla háskann yfir þjóðina, ef til styrjaldar dregur. Um þetta vildi ég aðeins segja það, að ég fyrir mitt leyti er ekki í vafa um það, það er mitt persónulega mat, að það lið, sem nú er staðsett á Keflavíkurflugvelli, veiti okkur mikið öryggi og kæmi í veg fyrir að landið yrði hertekið, ef til styrjaldar kæmi. Við sjáum, hvernig þetta gekk í styrjöldinni 1939—45. Vegna staðsetningar erlends liðs á Keflavíkurvelli tókst að komast hjá því, að aðrir menn, sem talið er, að hefðu haft hug á því að ná fótfestu hér á landi, gætu gert það, og ég er ekki í vafa um, að það er þessu erlenda liði að þakka að þetta tókst ekki þá, og ég er alveg sama sinnis um framtíðina.

Hins vegar má líka á það benda að eins og hv. frsm. minntist á, þá var það yfirlýst af hálfu forsrh. við þingsetninguna eða skömmu eftir þingsetninguna í haust, að þetta mál yrði tekið upp til athugunar. Það hefur verið rætt í utanrmn. og verið rætt um það þar, hvort við ættum að sérmennta einhvern mann eða menn íslenzka til þess að meta hernaðarlegt gildi varnarliðsins eða hvort við ættum að fá erlenda sérfræðinga frá hlutlausu ríki til þess að gera þetta. Nú náttúrlega hefur utanrmn. ekki sérstaklega um þetta að segja, þó að það kæmi þar til umræðu á sínum tíma. En ég vitna þá til þess, sem forsrh. sagði í sinni ræðu um þetta, þegar þingið var sett eða skömmu eftir að þingið var sett. Og það er áreiðanlegt, að það mál verður tekið upp og kannað tæknilega og herfræðilega, hvort við höfum ávinning af því að hafa varnarliðið hér í landinu og hvort við megum treysta því, að það geti hjálpað til að verja landið, ef til kæmi.

Í fimmta lagi er það verkefni n. að kanna, hvaða upplýsinga unnt er að afla um þær áætlanir, sem vitað sé, að NATO hafi gert um hugsanlega íhlutun bandalagsins í innanríkismál þátttökulandanna, þegar þær aðstæður skapast, að þess sé talin þörf, og hvort þessar áætlanir snerta Ísland. Ég vil nú segja það, að þetta er í fyrsta skipti, sem ég heyri það nefnt, að það séu uppi ráðagerðir hjá NATO um það að blanda sér í innanríkismál landa og þá alveg sérstaklega Íslands. Við höfum fulltrúa hjá NATO, og ég hef þess vegna leitað eftir því við hann að fá hans umsögn um málið, Fulltrúi okkar hjá NATO-ráðinu í Brussel mætir, eða einhver frá okkur, á hverjum einasta fundi, sem NATO-ráðið heldur. Þar er enginn fundur haldinn svo, að ekki séu allir mættir. Ef um einhverja ákvörðun hefði verið að ræða, sem tekin hefði verið, hlyti okkar fulltrúi þess vegna að hafa orðið var við hana. Þessi fulltrúi okkar, Níels P. Sigurðsson, hefur skrifað mér svo um málið:

„Í þáltill., sem lögð hefur verið fram á Alþ. af 5 þm. Alþb., er m.a. óskað eftir, að rannsakað verði, hvaða. upplýsinga er unnt að afla um þær áætlanir, sem vitað er, að NATO hefur gert um hugsanlega íhlutun bandalagsins í innanríkismál þátttökulandanna, þegar þær aðstæður skapast, að þess er talin þörf, og hvort þessar áætlanir snerta Ísland.

Í þessu sambandi skal tekið fram, að engar áætlanir hafa verið gerðar af NATO um hugsanlega íhlutun bandalagsins í innanríkismál aðildarríkjanna. Það er yfirlýst stefna NATO, að bandalagið skipti sér ekki af innanríkismálum aðildarríkjanna, og er því rannsókn á því atriði algerlega óþörf.“

Enginn maður hefur af okkar hálfu betri aðstöðu til þess að kanna það og meta, hvort um svona áætlun hafi verið að ræða, en einmitt hann, því að þar er enginn fundur haldinn og engin ályktun gerð án þess, að allir fulltrúar aðildarríkjanna séu þar mættir.

Að síðustu segir hann, fulltrúi okkar hjá NATO:

„Aðrir liðir þessarar þáltill. virðast heldur ekki gefa tilefni til rannsóknar.“

Þetta er hans mat. Ég held þess vegna, að þessi tillögugerð hér sé til einskis annars ætluð en að sýna það, sem hv. 4. landsk. þm. sagði, að lýsa því, hvað hann hefur innilega mikla, ást á Bandaríkjunum, að búa til sögur um það, að þau standi fyrir því, að NATO geri áætlun, — því að náttúrlega er það allt saman Bandaríkjunum að kenna, — geri áætlun um áhrif á innanríkismál Íslendinga, sem enginn, sem þekkir til, veit til að hafi verið gerð.

Ég skal svo ekki fara miklu lengra út í að ræða þetta mál. Mér finnst, að það beri ekki vott um mikinn vinskap hv. þm. við Bandaríkin, enda hefur allt hans tal og allt hans framferði að undanförnu verið á þann veg, að það bendir til nokkurs annars. Ég legg því til, herra forseti, að þessi þáltill. verði felld.