19.03.1968
Neðri deild: 78. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í D-deild Alþingistíðinda. (3011)

134. mál, nefnd til að rannsaka ýmis atriði herstöðvamálsins

Magnús H. Gíslason:

Herra forseti. Ég hef oft orðið þess áþreifanlega var, hvað okkur Íslendingum, mörgum hverjum a.m.k., er oft og einatt tamt að ræða utanríkismál almennt og samskipti okkar við erlendar þjóðir af litlu raunsæi og takmarkaðri stillingu. Er það þó næsta furðulegt fyrirbrigði, því að fátt er lítilli þjóð í stórri og viðsjálli veröld nauðsynlegra en að halda vel vöku sinni á þeim vettvangi, gæta fullrar íhygli en hófs í dómum, án þess að gleyma því nokkru sinni, að við, þessi 200 þús. manna þjóð, eigum jafnan rétt til frelsi og sjálfstjórnar og milljónaþjóðirnar og erum að sínu leyti engu þýðingarminni þátttakendur í þjóðasafni heimsbyggðarinnar en hinar stærri.

Alveg sérstaklega finnst mér þó gæta þessarar furðulegu vanstillingar, þegar rætt er um dvöl hins erlenda herliðs hér á landi og þau mál, sem tengd eru henni. Raunar verður varla sagt, að hersetan sé einvörðungu utanríkismál. Herinn er að vísu upphaflega hingað kominn vegna samningsgerðar okkar við aðra þjóð eða aðrar þjóðir, en dvöl hans hér verkar á og grípur með margvíslegum hætti inn í okkar eigið þjóðlíf, og mér skilst, að það sé okkar sjálfra að ákveða hvort og hvenær hann skuli hverfa til eigin föðurhúsa. Það er engu líkara en að margir okkar hafi til allra þessara mála fyrir fram mótaða afstöðu, það sé skilyrðislaust ágætt, allt, sem kemur úr þessum stað, en óyggjandi óhæft, allt, sem ber að úr hinni áttinni. Slík afstaða getur naumast nokkurn tíma leitt til heillavænlegrar niðurstöðu, í það minusta mundi það vera tilviljuninni einni háð og er sízt sæmandi fulltrúum á þjóðþingi.

Till. sú á þskj. 282, sem hér liggur fyrir til umr. og flutt er af 4 hv. þm. Alþb., fjallar um að skipuð verði n. til þess að athuga áhrif hersetunnar á íslenzkt þjóðlíf. Er till. í 5 liðum, sem afmarka í stórum dráttum þau verkefni, sem rannsókn umræddrar n. ætti einkum að beinast að. Ég ætla ekki að fara að rekja þessa þætti lið fyrir lið, enda hvort tveggja að frsm. fyrir till., hv. 4. landsk. þm., Jónas Árnason, gerði það mjög skilmerkilega hér í gær, og auk þess hafa allir hv. þm. till. að sjálfsögðu á borðinu fyrir framan sig.

En mig langar til að minnast örfáum orðum á nokkur atriði, sem till. fjallar um, og þá um leið þau andsvör, sem fram komu í ræðu hæstv. utanrrh., sem mér fannst raunar mótuð af meiri viðkvæmni og reyndar gífuryrðum en hæfilegt er að hljómi úr ráðherrastóli, enda þótt hv. frsm. till. flytti mál sitt af nokkrum skaphita hér í gær, eins og skáldum er títt.

Öllum er það í fersku minni, að fyrir nokkru glopraði bandarísk flugvél niður kjarnorkusprengjum á Grænlandsís. Að vonum setti ugg að mönnum, hér á norðurhveli jarðar a.m.k. Menn spurðu sem svo: Hvenær dettur næsta sprengja niður og hvar hafnar hún og hverjar verða afleiðingar þess? Dönsku stjórninni virðist hafa verið ókunnugt um ferð þessarar flugvélar yfir dönsku yfirráðasvæði og þaðan af síður haft hugmynd um, hverja háskagripi hún hafði innanborðs. Má það heita furðulegt skeytingar- og virðingarleysi gagnvart hinni dönsku þjóð að leita ekki leyfis hennar til slíks ferðalags. Var e.t.v. búizt við synjun slíkrar bónar og þá valinn sá kostur að leita einskis leyfis? Hefur þessi leikur e.t.v. verið leikinn oftar og víðar á undanförnum árum í von um að ekkert óhapp henti og glæfraspilið kæmist því aldrei upp? Höfum við Íslendingar kannske fengið svona heimsóknir án þess að hafa haft hugmynd um? Hæstv. utanrrh. sagðist hafa fengið bandaríska sendiherrann og yfirmann varnarliðsins til þess að gefa hátíðlegt loforð um, að flugvélar með kjarnorkufarm legðu ekki leið sína yfir Ísland og íslenzkt yfirráðasvæði. Ég efast ekkert um, að hann segi það satt. En getum við treyst því loforði? Ja við getum, þegar allt kemur til alls, kannske lítið annað gert. Hv. 6. þm. Reykv., Magnús Kjartansson, talaði um, að við ættum að koma upp eins konar eftirlitskerfi. Ég veit nú ekki gjörla, hvernig það er hugsað í framkvæmd, en einboðið sýnist mér að henda þeirri hugmynd ekki frá sér samt sem áður að óathuguðu máli.

Ég skal ekki eyða mörgum orðum að dátasjónvarpinu. Það er ekki ánægjulegt að rifja upp þá hneisu, sem við erum búnir að hafa af því. Þáttur fyrrv. utanrrh., Guðmundar Í. Guðmundssonar, í því máli má ekki gleymast, því miður. Hann á að lifa sem viðvörun. Stjórnmálamenn mega aldrei gleyma því, að þeim er einnig, eins og öðrum, þörf varúðar á sínum vegum. Sé það rétt hjá hæstv. utanrrh., að fyrrv. ráðh., Guðmundur Í. Guðmundsson, hafi ekki sagt Alþ. vísvitandi ósatt í umr. um þetta leiða mál, þá hefur hann þó a.m.k. látið undir höfuð leggjast að afla sér nærtækra upplýsinga, og það er ekki heldur góð frammistaða.

Hæstv. ráðh, taldi erfitt að meta, hversu mikinn þátt hersetan ætti í neikvæðri mótun íslenzks æskulýðs og hve mikið erlent kvikmyndarusl. Vera má, að þar verði illa á milli greint. Fáa hef ég þó heyrt halda því fram, að íslenzkt æskufólk, og þarf raunar ekki æskufólk til, sæki nokkra hollustuhætti né þrif til hins útlenda herliðs, enda kæmi það líka illa heim við reynslu annarra þjóða af þvílíkum dvalargestum. Mun hitt sönnu nær, að þau áhrif séu svo margháttuð og víðtæk, að þau verði aldrei könnuð til neinnar hlítar af nokkurri nefnd.

Hæstv, ráðh. taldi sér ókunnugt um íhlutun Bandaríkjastjórnar og Nato um utanríkismál þátttökuríkja þess. Auðvitað veit hæstv. ráðh. bezt, hvað honum er kunnugt um og hvað ekki. Ég hélt hins vegar í fáfræði minni, að gervallri heimsbyggð væri kunnugt um afskipti stórvelda af innanlandsmálum annarra ríkja og margvíslega viðleitni þeirra til þess að hafa áhrif á þróun þeirra og stefnu. Rússar hafa að sínu leyti stuðlað að því, að stjórnir vinveittar þeim sætu að völdum í Austur-Evrópu. Bandaríkin hafa fyrir sitt leyti farið eins að t.d. í Suður-Ameríku og Grikklandi, og hver er sá, sem ekki veit, hvað er að gerast í Afríku og Asíu? Það væri geipileg glópska að láta sér detta í hug, að við værum ekki einnig undir smásjánni í þessum efnum. Heimsveldin reyna alls staðar að hafa sín áhrif og tryggja sína aðstöðu. Bandaríkjamenn eru þar engin undantekning. Hefur CIA ekki verið að teygja anga sína hingað? Er hæstv. ráðh. ókunnugt um það? Auðvitað er sagt, að þetta sé allt gert til þess að tryggja og efla lýðræðið, en þurfum við bara nokkra lýðræðislexíu að sækja vestur um haf? Ætli jafnvel Bandaríkin geti ekki ýmislegt lært af okkur í þessum efnum, ekki síður en við af þeim? Og ekki held ég, að við högnumst neitt á því að skipta á okkar ófullkomna lýðræði og lýðræði Suður-Ameríkuríkja og Grikkja, þótt aðfengið sé.

Við Íslendingar erum lengi búnir að hafa her í þessu landi, mikils til of lengi. Ég efast ekkert um það, að þeir, sem sömdu um hersetuna á sínum tíma, hafi trúað því, að hún væri okkur nauðsynleg vörn, en öðrum þá að vísu einnig. Ég hef verið hersetunni andvígur frá upphafi og aldrei farið leynt með það. Hins vegar er tilgangslaust að fara hér nú að draga fram rök með eða móti því, að á þetta ráð skyldi brugðið á sínum tíma.

En þó að hæstv. utanrrh. og ýmsir aðrir góðir Íslendingar hafi trúað á varnargetu herliðsins við upphaf hingaðkomu þess, finnst mér furðulegt, ef hann álítur taflstöðuna óbreytta síðan, en það fannst mér koma fram í ræðu hans hér í gær, ef ég hef skilið hann rétt. Ég trúi því ekki, að hæstv. ráðh. hafi dagað svo uppi, að hann meini þetta. Brjótist út stórveldastyrjöld nú, sem allir óspilltir menn vona, að aldrei komi til, þá held ég, að fáum detti í hug, að þessir dátadrengir suður í Keflavík geti varið okkur stundinni lengur. Þeir verja ekki einu sinni sjálfa sig. Hins vegar bjóða þeir hættunni heim. Herstöð gerir það ævinlega og alls staðar. Ein kjarnaflaug og herstöð Bandaríkjanna í Keflavík er eyðilögð. Segjum að það sé þeirra mál. En hún gerir meira. Hún mundi sjá fyrir nokkrum þúsundum Íslendinga um leið. Það vildi ég halda, að væri aftur á móti okkar mál. Sjálfsagt yrði það ekki óskemmtileg tilhugsun fyrir okkur hinum megin, afkomendur hinna fornu víkinga. að við hefðum þó aldeilis lagt lóð okkar á vogarskálina til þess að bjarga heiminum. En hvaða heimur yrði það og hvers konar heimur?

Nei, herstöð tryggir ekki frið. Herstöð tryggir tortímingu, ef út af ber. Von mannkynsins um frið byggist ekki á herstöðvum. Hún byggist á því, að þjóðir heimsins hafi þroska, mannvit og manndóm til þess að leggja herstöðvar niðum.

Það er sjálfsagt, að þessi till., úr því að hún er á annað borð komin fram, fari til n. Hún fjallar um svo alvarlegt mál. víðtækt og yfirgripsmikið, að það er einboðið að ræða hana betur og gaumgæfa. Ég er heldur ekki frá því, að hún geti tekið ýmsum breytingum til bóta, eins og reyndar flestir aðrir hlutir. Og nauðsynlegt er að ná um hana sem víðtækustu samstarfi, því að ella er ósýnt um, hvert gagn nefndarskipun sem þessi mundi gera. Og ég held, að menn komist jafnan að betra samkomulagi, þegar þeir taka að ræða málin í rólegheitum í nefndum, en í meira og minna heitum umr. á þingfundum. Það er óhyggilegt, mér liggur við að segja óþinglegt, að meina till. athugun í n. Það eru slæm vinnubrögð. Hitt er þó verra, að það lýsir í raun og veru einsýni og ofstæki, sem ég vona að hv. alþm. séu vaxnir upp úr.

Ég býst nú við, að við séum svona með sjálfum okkur sammála um það allflestir, að afleiðingar hersetunnar og áhrif á íslenzkt þjóðlíf séu mikil, margvísleg og miður holl. Sjálfsagt verða þau seint rannsökuð til fullrar hlítar, og þau halda áfram að verka og verða viðvarandi, á meðan við nemum ekki meinið sjálft í burtu. Þess vegna eigum við bara að ganga hreint til verks og óska herliðinu góðrar ferðar heim til sín. Það er á okkar valdi að gera það. Þá munu áhrif hersetunnar smátt og smátt gufa upp úr þjóðlífinu. Þá verður loftið hreinna og léttara að draga andann.

Fyrir mér er það ekkert aðalatriði, hvort herinn fer allur á einum og sama degi eða í áföngum smátt og smátt, en mestu skiptir það, að farið sé með einlægni og opnum huga að undirbúa endanlega brottför hans. Það er eina raunhæfa lausn málsins, og um hana vona ég, að við getum sem flestir sameinazt.