19.03.1968
Neðri deild: 78. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í D-deild Alþingistíðinda. (3014)

134. mál, nefnd til að rannsaka ýmis atriði herstöðvamálsins

Utanrrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Ég vildi þá fyrst með nokkrum orðum, áður en ég fer að ræða um undirtektir hv. flm. undir ræðu mína í gær, segja, að þó að ég segði, að ég teldi rétt að fella þessa till., hef ég ekkert á móti því, að hún fari í n. En hins vegar lagði ég til, að till. á því stigi, er hún kæmi fram aftur, gæti verið felld og yrði felld. Það var ekki mín meining að ætla það, að hún yrði þegar felld við þessa umr., áður en hún fengi þinglega afgreiðslu.

Að öðru leyti skal ég segja það, að þessum umr. hefur verið drepið mjög á dreif, bæði í gær og eins í dag. Það er lítið sem ekkert, a.m.k. í dag, rætt um sjálfa till., sem hér liggur fyrir, heldur hafa umr. beinzt að Víetnam-styrjöldinni, yfirgangi Bandaríkjanna eða frammámanna Bandaríkjanna kannske frekar, og ýmislegt þess háttar.

Ég get alveg tekið undir með hv. 1. þm. Vestf. um það, að það væri rétt og æskilegt að taka upp málið, varnarmálin og herstöðvarnar hér til umr., þegar tími væri ætlaður til þess sérstaklega. Hér liggur ekki annað fyrir en það, að hér verði kosin n. af þinginu samkv. 39. gr. stjórnarskrárinnar og með þeim réttindum, sem því fylgja, til þess að kanna fimm ákveðin verkefni. Ég minntist á þessi fimm atriði í gær og sýndi fram á, að mér fannst, að það væri óþarfi að setja þessa n. á laggirnar svo hátíðlega eins og samkv. 39. gr. stjórnarskrárinnar, vegna þess að þessi atriði væru ekki þannig vaxin, að þau þyrftu neinna rannsókna með.

Í fyrsta lagi, fyrsti hluti till. fjallar um, að bandarískar flugvélar búnar kjarnorkuvopnum fljúgi ekki um íslenzka landhelgi eða lofthelgi og lendi ekki á íslenzku landi. Ég vitnaði til þeirrar yfirlýsingar, sem varnarmálaráðh. Bandaríkjanna fyrrverandi, McNamara, gaf skömmu áður en hann lét af embætti, og að öðru leyti til umsagnar, sem þeir höfðal gefið, yfirmaður varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli og ambassador Bandaríkjanna hér, að þetta kæmi ekki til mála, — ég fékk það staðfest í þeirra svörum og þeirra tali, — við þyrftum ekki að óttast, að þetta kæmi fyrir.

Það hefur verið talað um, að þetta hafi nú gerzt á Grænlandi á Thulevellinum, en þar hygg ég, eftir því sem ég veit bezt, að hafi verið um neyðarlendingu að ræða, þar sem maðurinn hafi ætlað að bjarga lífi sínu með því að lenda. En sem sagt, þetta atriði rannsóknarinnar tel ég, að ekki þurfi að ræða vegna þeirra yfirlýsinga, sem gefnar hafa verið, og tel ekki ástæðu til að tengja það, þó að hv. flm. till. hafi hér talað um, að Bandaríkjamenn hafi ekki haldið sín loforð um flug yfir Grænlandi. Nú veit ég í fyrsta lagi ekki, hvað um hefur samizt á milli danskra yfirvalda eða grænlenzkra og bandarískra um þetta atriði, en ég ætla þó, að þessi lending, sem var á Thulevellinum, hafi verið neyðarlending, sem maðurinn gerði til þess að bjarga lífi sínu, sem þó ekki tókst.

Annað atriðið, um sjónvarpið frá Keflavíkurflugvelli. Ég lýsti því í gær líka, að það hefur verið framkvæmd breyting á útsendingunni, sem ætti að gera það mögulegt, að aðeins 5% á Reykjavíkursvæðinu gætu notið þessa sjónvarps og þó illa.

Þriðja atriðið er um að rannsaka, hvaða áhrif dvöl Bandaríkjahers í landinu hefur á íslenzkt þjóðlíf. Það held ég, að verði ákaflega vandasöm rannsókn, og þyrfti margar nefndir og langa rannsókn til þess, að það yrði að fullu upplýst, hvaðan áhrifin koma, sem talið er, að verki nú á ungdóminn á Íslandi, hvort það er frá kvikmyndum, sem sýndar hafa verið, hvort það er frá hermannasjónvarpinu eða hvort það er beinlínis frá íslenzka sjónvarpinu. Ég hef orðið þess var, að myndir í íslenzka sjónvarpinu eru alls ekki ólíkar því, sem Keflavíkursjónvarpið hafði flutt áður.

Þá hefur nokkuð verið minnzt á það og af næstsíðasta ræðumanni alveg sérstaklega, að herstöðvarnar gætu ekki veitt þjóðinni nokkra vörn á ófriðartímum. Ég vildi nú fara um það nokkrum orðum frekar. Það hefur nú farið svo, síðan síðustu styrjöld lauk og varnarsamtökum NATO-sambandsins var komið á laggirnar, að friður, fullkominn friður, hefur haldizt í Evrópu og enginn hefur seilzt til yfirráða á landsvæðum annarra. Hverjum er þetta að þakka? Ég tel það alveg vafalaust, að þetta ástand sé fyrst og fremst að þakka tilveru NATO. Það er valdið, sem menn fara eftir í þessu efni, eins og mörgum öðrum. Ef við trúum því, að það séu fyrir hendi varnarskilyrði nægileg, ráðast þeir ekki inn í það land. Við getum minnzt á hlutleysi nokkurra landa í s.l. stríði, heimsstríði. Hvernig fór fyrir Hollandi og Belgíu, Danmörku og Noregi, vegna þess að þeirra varnarmáttur var lítill? Hvernig fór fyrir Svíþjóð, hvernig fór fyrir Sviss, af því að þeirra varnarmáttur var mikill? Það, sem árásarseggir á borð við nazistana í heimsstyrjöldinni óttast og óttast eitt, er það, að þeir geti ekki sigrazt á þeim mönnum, sem þeir vilja eiga í höggi við eða leggja út í baráttu við.

Valdajafnvægið í Evrópu, sem komizt hefur á með tilvist NATO, er áreiðanlega sterkasta aðgerðin til varðveizlu friðarins í Evrópu. NATO-samtökin sækjast ekki eftir yfirráðum hjá einum eða neinum. Þau eru einungis til þess sett, að varnarmáttur þessara þjóða, sem hafa gengið í þessi samtök, verði það sterkur, að það sjái enginn sér fært eða vilji ráðast á þau.

Annars held ég, að það liggi nú alveg ljóst fyrir, að það er ekki ástæða til þess að setja niður þá n., sem hér er lagt til, að gert verði, til þess að rannsaka þau atriði, sem hér eru nefnd. Umr. hafa allar eða mest af þeim verið um allt aðra hluti, styrjöldina í Víetnam, hættulega stefnu Bandaríkjastjórnar og ýmislegt þess háttar. Ég er tilbúinn, eins og ég sagði áðan, til þess að ræða þau atriði, þegar það á við, en vil ekki blanda þeim inn í það, sem hér er flutt, þ.e.a.s. um þessa till. um rannsóknarnefndina samkv. 39. gr. stjórnarskrárinnar.

Hv 4, landsk. þm. taldi, að ég hefði tekið of djúpt í árinni með því að segja, að hann væri óvinveittur Bandaríkjunum eða Bandaríkjastjórn. Ég endurtek það nú, að ég tel, að hans málflutningur, bæði hér og annars staðar, sýni ekki mikla vináttu við þessa þjóð a.m.k. ekki við ráðamenn þessarar þjóðar. Hann sagði, að annaðhvort væri um að ræða fullkominn undirlægjuhátt hjá mér og þeim, sem svipaðar skoðanir hafa, eða þá gagnrýni, sem hann vildi nú kalla heilbrigða gagnrýni, sem hann vildi láta koma fram og hefur verið að flytja bæði hér og annars staðar. Ég held, að það sýni ekki mikla vináttu við Bandaríkjaþjóðina að flytja sín mál á þann veg, sem hann hefur gert.

1. þm. Norðurl. e. sagði, að menn skiptust í tvennt, tvo andstæða hópa, annar teldi allt gott, sem Bandaríkin gerðu, og hinn teldi allt illt, sem þau hefðust að. Ég tel, að það sé mikið rétt í þessu. Það er stór hópur þjóðarinnar, sem hefur skipzt í þessa tvo andstæðu hópa annars vegar að þykja álit gott sem kemur úr einni átt, og hinn, sem þykir allt illt, sem kemur þaðan. Þetta er hættulegast að mínu viti. Ég tel, að menn eigi að leggja dóm á aðgerðir Bandaríkjamanna eins og annarra eftir þeim verkum, sem eftir þá liggja, og ekki að hafa fyrir fram tekna afstöðu gegn þjóðinni í öllu, sem hún gerir.

Ég tel sem sagt ekki ástæðu til að fara ýtarlegar út í umr. um Víetnam-styrjöldina, um heildarutanríkisstefnu Bandaríkjanna, heldur tel ég rétt, að við höldum okkur hér við þá 5 punkta, sem lagt er til, að rannsakaðir verði og ég hef rætt um og gefið mínar skýringar á, en ekki verði teknar upp almennar umr. um Bandaríkin og þeirra stefnu í utanríkismálum.

Ég skal ekki draga úr því, að umr. um Víetnam-málið og um stefnumál Bandaríkjanna verði teknar upp hér sérstaklega, þegar það er til umræðu, en ég álít, að það sé ekki rétt að blanda því inn í þessa umr. hér. Ég skal svo endurtaka það, að ég hef ekki á móti því, að till. verði vísað til n., en ég er jafnákveðinn í því fyrir mitt leyti að greiða atkvæði gegn henni, þegar hún kemur, a.m.k. í þessu formi, sem hún er hér.