21.03.1968
Neðri deild: 79. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í D-deild Alþingistíðinda. (3018)

134. mál, nefnd til að rannsaka ýmis atriði herstöðvamálsins

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfáar aths. út af ræðu þeirra hv. 6. þm. Reykv. og hv. 4. þm. Austf. Mér fannst svona hálft um hálft, að hv. 6. þm. Reykv. væri að stilla mér upp við hliðina á hæstv. utanrrh. um afstöðu til þessa máls. Það getur verið, að hann hafi ekki meint það, en ég held, að ég sætti mig illa við, að það verði skilið svo a.m.k. Afstaða mín til þessa máls er allt önnur. Ég lýsti yfir vantrú minni á því, að sú rannsókn, sem hér er lagt til, að fari fram, bæri árangur. Og hv. 6. þm. Reykv. túlkaði það svo, að ég byggi það á því, að það yrðu stjórnarsinnar í meiri hl. í þeirri n. Ég væri þá líklega trúaðri á árangurinn, ef það væru hernámsandstæðingar, sem skipuðu hana.

Nei, ég er ekkert trúaðri á árangurinn frekar fyrir það. Ég álit hvort tveggja fjarri lagi, þ.e.a.s., ég álít það ekki skynsamlegt, að kosin sé pólitísk n. af þeim pólitísku aðilum, sem harðast deila um þetta mál. Það er það, sem ég hef fyrst og fremst á móti n., og ég hef enga trú á því, að þetta beri neinn árangur. Ef hægt væri að finna einhvern hlutlausan aðila til að skipa slíka rannsóknarnefnd, er það annað mál. Ég veit að vísu ekki, hver það ætti að vera. Það væri hægt að hugsa sér Hæstarétt t.d., sem skipaði slíka rannsóknarnefnd, og þó veit ég ekkert, hvort það er fullnægjandi. En að pólitísk n., kosin af þessum stríðandi aðilum, ætti að rannsaka slíkt mál sem þetta því hef ég ekki trú á. Ég get náttúrlega ekki annað sagt, en hvað ég trúi á og hvað ég trúi ekki á.

Hv þm. hefur mikla trú á þessari aðferð og hann um það. En það, sem ég lagði megináherzluna á í minni ræðu í gær, var það, að ég hefði kosið, að þetta mál væri flutt í öðru formi, þ.e.a.s. að ekki væri sjálfu hersetumálinu blandað inn í önnur atriði, sem hér eru í þessari till. Þannig væri verið að dreifa athyglinni frá því, sem okkur ríður mest á að ræða og koma í betri höfn en enn er orðið. Báðir þessir hv. ræðumenn, sem hér voru að tala áðan, vildu samt telja þetta aðalkjarna málsins, að rannsókn færi fram á þessum 5 atriðum, sem nefnd eru í þessari till. En sum af þeim a.m.k. snerta ekki beint hersetuna í landinu. Fyrsta atriðið er um, að rannsakað verði, hvernig Íslendingar geti tryggt það, að bandarískar flugvélar búnar kjarnorkuvopnum fljúgi ekki inn í íslenzka lofthelgi. Ég vil nú segja það, að það þyrfti náttúrlega að tryggja þetta, hvort sem hér væri her eða ekki her, svo að þetta er ekki sjálft herstöðvamálið. Ég vil líka benda á, þó að ég lái mönnum ekki að nefna þarna bandarískar flugvélar, að þá þurfum við náttúrlega að tryggja það, hvort sem þessar flugvélar væru bandarískar eða frá einhverri annarri þjóð, því að ekki geta kjarnorkuhlaðnar flugvélar verið skaðlausar frá einhverri annarri þjóð.

Þá er í 2. lið þessarar till. lagt til, að rannsakað verði, hvers vegna ekki var staðið við loforð um takmörkun hermannasjónvarpsins. Úr því sem nú er komið, hef ég ekki sérstakan áhuga á því, að þetta verði rannsakað. Þegar við erum nú lausir við það svona nokkurn veginn, finnst mér annað meira aðkallandi en að fara að rannsaka þetta.

Þá eru ummæli Guðmundar Í. Guðmundssonar hér á Alþ., að það sé rannsakað, hvernig standi á því, að hann hafi ekki farið þar með rétt mál. Það skal ég ekkert segja um, en ekki er það bundið endilega því, hvort við höfum erlendan her í landinu eða ekki, að þetta verði rannsakað.

Í þessari till, eru ýmis atriði, sem dreifa málinu, rugla það, spilla fyrir því, að úr því verði að snúa sér að kjarnanum. Það er þetta, sem ég hef út á till. að setja. Ég veit, að 3. og 4. liður þessarar till. snerta nokkurn veginn beint sjálfa hersetuna í landinu.

Ég lagði aðaláherzluna á það, að þetta mál þyrfti að vera flutt í því formi hér á hv. Alþ., að úr því yrði að snúa sér að aðalmálinu, því, hvort þjóðin á að hafa áframhaldandi hersetu í landinu eða ekki. Og ég endurtek það. Þetta tel ég aðalatriðið. Rannsóknin, sem ætlazt er til, að fari fram, sker alls ekki úr um þetta. Hún gæti kannske leitt í ljós, að við hefðum haft mikið tjón af hersetunni og mundi sjálfsagt gera það En þar með er ekki sagt, að út úr því kæmu beinar till. um það, hvort hér skyldi vera her eða ekki her.

4. atriðið í till. er um það, hvort nokkur vörn sé í herstöðinni á ófriðartímum, hvort hún mundi ekki fremur kalla háska yfir þjóðina. Ég er alveg sammála flm. um þetta, að hún leiði háska yfir þjóðina og það sé engin vörn í henni. En ég vil helzt dæma um það sjálfur fyrir mig og vil helzt ekki þurfa að vera að hlíta neinum leiðbeiningum, allra sízt erlendra sérfræðinga í hernaðarmálum, um það, hvort við eigum að hafa hérna her. Þó að okkar möguleikar séu takmarkaðir til að dæma um þetta eigum við að dæma um þetta sjálfir og meira að segja hver og einn einasti maður fyrir sig.

Ég legg aðaláherzluna á það, að sjálfan kjarna þessa máls, um hersetuna í landinu, eigi að flytja umbúðalaust og án þess að blanda öðrum málum þar inn í, og ég geri kröfu til þess, að slíkar umr. fari fram ekki aðeins hér á Alþ. heldur frammi fyrir sjálfri þjóðinni, svo að hún geti heyrt öll rök með því, að her sé hér áfram, og móti því, að herinn sé áfram. Þess vegna er ég óánægður með till. í þessu formi sem hún er. Hins vegar sagði ég í ræðu minni í gær, að það væri full ástæða til þess að rannsaka sumt af þessu, sem í till. felst. Það væri bara annað meira. aðkallandi, og á það legg ég áherzlu. Hv. þm. hafa nú báðir, að ég held, fallizt á þessa skoðun mína og eru jafnvel reiðubúnir til þess að breyta till. Og nú vil ég spyrja þá: Eru þeir ekki reiðubúnir til þess að breyta till. í þetta horf? Ég hef skilið hæstv. utanrrh. svo, að hann hafi ekkert á móti því, að þetta mál, herstöðvamálið, sé tekið til umr. og þá eitt út af fyrir sig hér á hv. Alþ. Ég vænti þess, að þessir hv. flm. segi til, hvort þeir vilja nú breyta þessari till. í það horf, sleppa þessari rannsókn, sleppa þeim atriðum úr till., sem ekki snerta beint hersetu í landinu, og taka málið upp á þennan hátt. Á það legg ég höfuðáherzluna. Ég hef reyndar skilið ræður þeirra núna í dag þannig, að þeir séu ekki fjarri þessu, þó að þeir töluðu ekki nógu skýrt að mínum dómi.