21.03.1968
Neðri deild: 79. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í D-deild Alþingistíðinda. (3019)

134. mál, nefnd til að rannsaka ýmis atriði herstöðvamálsins

Utanrrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Ég hef látið í ljós við fyrri umr. þessa máls, að ég teldi óheppilegt að blanda saman þessum till., sem hér liggja fyrir á þskj. 282, og almennum umr. um stefnu Bandaríkjanna í Víetnam og um ýmislegt annað, sem hér hefur borið á góma og ég lét í ljós einnig við það tækifæri, að ég vildi halda mig við það fyrst og fremst að ræða þessar till. eins og þær liggja fyrir. Nú heyri ég, að hv. 1. þm. Vestf. er að nokkru leyti á sömu skoðun, en hann vill ræða það sérstaklega hvort hér eigi að vera herstöðvar eða ekki, og það er allt annað mál heldur en það, sem liggur fyrir hér í þessari till.

Ég skal þó aðeins fara nokkrum orðum um það, sem hér hefur komið fram nú. Það er ekki mikið, en ég skal ekki fara að endurtaka, hv. 6. þm. Reykv. til angurs, afstöðu mína til till. Ég hef gert það einu sinni og að hans mati tvisvar, svo að ég geri ráð fyrir, að hann vilji ekki hafa neitt með þær að gera í þriðja sinn. Ég skal þá sleppa þeim líka en minnast aðeins á nokkur atriði, sem hafa komið fram hér í umr.

Það er þá fyrst, að hjá hv. 4. þm. Austf. kom það fram, að ég væri á móti því, að till. færi í n. Ég hef þvert á móti sagt, að ég væri þess fýsandi, að hún færi í n. Ég orðaði það ekki nákvæmlega eins og hv. 6. þm. Reykv. sagði áðan, en ég sagði orðrétt, eins og hér segir í handriti þingskrifaranna: „Ég skal ekki draga úr því, að þessi umr. um þau mál, Víetnam-málið og stefnumál Bandaríkjanna, verði tekin hér sérstaklega þegar það er til umr., en ég álít, að það sé ekki rétt að blanda því inn í þessa umr. hér.“ En ég skal svo líka endurtaka það, að ég hef ekki verið á móti því, að till. verði vísað til n., eins og ég hafði þá áður tekið fram, svo að það er engin ástæða til þess að óttast það, að þetta mál fái ekki þinglega meðferð En það er ýmislegt, sem athuga þarf eigi að síður.

Það hefur nú mikið verið rætt, hvert gildi þessara herstöðva sé. Og ég leyfði mér að halda því fram, að þessi stöð í Keflavík eða við Keflavíkurflugvöll hafi gildi. En til þess að skera alveg úr um það lýsti forsrh. því yfir hér í haust, þegar þingið var sett, að ríkisstj. mundi beita sér fyrir því að fá kunnáttumenn til að skera úr því.

Í utanrmn. nú á síðasta fundi kom einmitt þetta atriði til umr., og ég taldi þar, að það mætti gera þessa athugun með tvennu móti: Annaðhvort mætti hugsa sér að fá erlendan sérfræðing frá hlutlausu landi til þess að gefa þessa umsögn eða við réðumst í það, að einhver Íslendingur fengi þá herfræðilegu menntun, sem til þess þarf, að þessi athugun færi fram, og hann gæti vegna sinnar kunnáttu og þekkingar þá sagt álit sitt um það, hvaða gildi þessi stöð hefur. Í n. hölluðust menn að því, fyrst og fremst af því að það væri fljótvirkara að fá hingað sérfræðing frá hlutlausu landi til þess að gera þessa athugun. Hitt mundi taka nokkuð langan tíma, að fá mann sérmenntaðan í þessu skyni, og ég geri ráð fyrir því, að hv. þm. taki það gilt, þegar forsrh. hefur lýst þessu yfir, að það muni verða gert. En í n. hölluðust menn að þessu, að það væri fljótvirkara og betra, að við fengjum hingað menn frá hlutlausu landi til þess að gefa þessa skýrslu eða gefa þetta álit, en hitt væri of seinvirkt.

Þá hefur nokkuð verið rætt um það, hvort herinn ætti að vera hér til frambúðar og hvaða mörk ætti að setja við dvöl hans hér. Það er ekki óeðlilegt, þó að þessi skoðun komi fram, ég skal viðurkenna það En ég tók það fram í minni fyrri ræðu um þetta, að þó að herinn væri ekki hér og landið væri hlutlaust og vopnlaust, væri ekki í þessari afstöðu fólgin nein sú trygging, sem gæti gert okkur kleift að vera nokkurn veginn öruggir með okkar hlutleysi. Hlutleysi hefur ekki reynzt nægjanlegt í ýmsum löndum til þess að komast hjá innrás. Það vitum við bæði frá Noregi, Danmörku, Hollandi, Belgíu og fleiri löndum, sem ekki vildu blanda sér í síðustu heimsstyrjöld, að hlutleysisyfirlýsing þeirra dugði ekki og jafnvel ekki sá herafli, sem þeir höfðu með höndum. heldur voru þeir herteknir og ekki virt þeirra hlutleysisyfirlýsing.

Það var líka sagt hér, að aðrar þjóðir vildu komast hjá hersetu frá öðrum þjóðum. Það viljum við raunar líka. Það er ekki um það að ræða. En á meðan ástandið í heiminum er eins og það er í dag, þar sem búast má við kannske á hveri stundu, að til stórátaka komi, álít ég okkar öryggi miklu betur borgið með því að hafa einhvern herafla í landinu en engan. Við horfðum upp á það á s.l. sumri, að stórátök fóru fram fyrir botni Miðjarðarhafs, sem hæglega hefðu getað breiðzt út. Enn í dag er barizt heiftarlega í Víetnam, eins og kunnugt er, og menn eru ekki óhræddir um, að þessi átök geti breiðzt út, ef þeim verður haldið áfram miklu lengur. Þess vegna tel ég, að á meðan nokkur trygging er að okkar mati fyrir því, að okkur sé betur borgið með þessum herstöðvum en ekki, eigum við að halda þeim. Hins vegar er ég alveg sammála því, að ef mat manna á hættunni er þannig, að hún sé ekki yfirvofandi, eigum við að losa okkur við herstöðvarnar.

Þá kom líka fram hjá hv. 4. þm. Austf. spurningin um það, hvort við eigum að vera áfram í NATO. Eins og kunnugt er, er heimilt að losa sig úr samtökunum þegar 20 ár eru liðin frá því að í stofnun þessa félagsskapar var ráðizt, en það var 1949. Það var nokkuð rætt um það í fyrra, þegar Frakkar losuðu sinn herafla undan sameiginlegri stjórn NATO, að þá mundu fleiri þjóðir sennilega gera slíkt hið sama eða e.t.v. ganga úr þessum félagsskap. Ég held, að ég megi fullyrða það, að engin af þeim 14 þjóðum, sem þarna voru þá eftir með venjulega þátttöku, muni gera slíkt, þ.e.a.s. að undanskildum Frökkunum, sem þó eru meðlimir og vilja áfram vera meðlimir eftir þeirra eigin yfirlýsingu, þó að þeir vilji ekki setja sinn eigin her undir þessa sameiginlegu stjórn. En ég má segja það, að allir þessir 14, sem eftir eru með fullri þátttöku, lýstu því mjög greinilega yfir, að þeir mundu a.m.k. fyrst um sinn ekki segja sig úr samtökunum. Það er enginn vafi á því, að tilvist NATO hefur orðið til þess, að friður hefur haldizt í Evrópu og ekki hefur komið þar til stærri átaka. Bara það, að þessi samtök eru til, gerir það að verkum, að það er meira öryggi í álfunni en áður.

Hv. 6. þm. Reykv. vildi ekki gera mikið úr þeirri yfirlýsingu, sem ég fékk hjá yfirmanni varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli og sendiherra Bandaríkjanna hér. Hann vildi slá því föstu, að mér skilst, að það hafi verið svikið, sem Dönum hafi verið lofað, þ.e.a.s. að fara ekki með þessar sprengjur yfir Grænland. En eins og ég tók fram áður, var þarna kannski um að ræða sérstök áhrif, sem flugmaðurinn var undir, af því að hann þurfti að nauðlenda. Átti hann frekar að fara í sjóinn og fyrirfara sér með það sama, eða átti hann að freista lendingar? Ég tel það ósköp mannlegt, að maðurinn hafi gert það síðara. En það þurfa engan veginn að vera fólgin í því nein svik af hálfu Bandaríkjastjórnar, vegna þess að þetta er skyndiákvörðun mannsins að reyna að koma sér úr lífsháska.

Ég skal ekki fara út í það að ræða miklu meira till. sjálfar, sem hér liggja fyrir. Ég hef lýst minni afstöðu til þeirra. Ég tel till. og þá rannsókn, sem þar er farið fram á í fimm tilteknum atriðum, óþarfa, vegna þess að það liggi fyrir upplýsingar um sum þeirra og um sumt sé ekki unnt að afla þessara upplýsinga. Ég veit ekki t.d., hvernig við ætlum að fara að hafa eftirlit með því, að engar amerískar sprengjuflugvélar fljúgi hér með kjarnorkuvopn, hvernig við ættum að fara að því, ef við tortryggjum Bandaríkjamennina. Ef við trúum því, að þeir haldi sín loforð, er yfirlýsing frá þeim náttúrlega fullgild, og ég efast ekkert um það, að hún sé það. En hvernig hægt er að tryggja það, það sé ég ekki, á meðan herinn er hér staddur og hefur hér sína bækistöð.

Svo er hér slegið föstum hlut, sem ekki virðist hafa neitt sannleiksgildi, og það er fimmta atriðið í till., þar sem segir: „Hvaða upplýsinga er unnt að afla um þær áætlanir, sem vitað er, að NATO hefur gert um hugsanlega íhlutun bandalagsins í innanríkismál þátttökuríkjanna?“ Fulltrúi Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu hefur skýrt frá því, að þetta mál hafi alls ekki komið til umr. í bandalaginu, og þar er enginn fundur haldinn, nema einhver sé með frá okkar landi, þannig að þeir hlytu að hafa vitað, ef einhverjar svona till. væru á ferðinni. En mér finnst, að í þessu máli og málflutningi þeirra, sem fyrir till. hafa talað, gæti þess, að þeir vilji annars vegar tortryggja þær yfirlýsingar, sem Bandaríkjastjórn hefur gefið í þessu sambandi, og í öðru lagi að búa til sakir, sem eru ekki byggðar á neinum raunveruleika.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð. En ég get vel fallizt á, eins og ég hef raunar lýst áður, að till. fari til n., og kannske verður hún þar umorðuð, eins og hv. 1. þm. Vestf. var að leggja til, og þá er að taka afstöðu til þess, þegar þar að kemur.