18.12.1967
Neðri deild: 46. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í B-deild Alþingistíðinda. (303)

77. mál, ráðstafanir á gengishagnaði af útfluttum sjávarafurðum

Frsm. 2. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð í tilefni af því, sem hæstv. sjútvmrh. sagði hér. Hann sagði, að meginatriðin í minni ræðu hefðu verið þau að gera kröfur um það, að allir gætu fengið allt og þetta væri í samræmi við kröfur okkar stjórnarandstæðinga hér fyrr á þingi. Ég verð að lýsa undrun minni yfir því, hvernig hæstv. ráðh. hefur skilið mín orð. Ég var hér að tala fyrir till. um það, hvernig við vildum ráðstafa tiltekinni upphæð á nokkuð annan veg en ríkisstj. hafði hugsað sér að ráðstafa sömu upphæð. Hér var ekkert um það að ræða að ætla að deila út einhverri óendanlegri upphæð, heldur aðeins mismunandi skoðanir okkar í minni hl. og hinna, sem styðja ríkisstj., á því, hvernig ætti að skipta sömu upphæð. Það hefði því auðvitað verið nokkur ástæða fyrir ráðh. til þess að koma hér fram með einhver rök fyrir því, að hans skipting væri réttari á upphæðinni heldur en halda því fram, að það hafi verið meginatriðið í minni ræðu að heimta allt handa öllum. Slíkt er vitanlega alveg út í hött.

Það er álíka mikið út í hött eins og að tala um það í sífellu, að það fé, sem rennur í fiskveiðasjóð, renni um leið til sjávarútvegsins. Það væri jafnvel nákvæmlega sama eins og að halda því fram, að það væri rétt að afla tekna, leggja t.d. skatta á þjóðina og setja þá upphæð í Landsbankann og segja: Af því að Landsbankinn fær þessa upphæð og hann er viðskiptabanki sjávarútvegsins, er þetta líka gert fyrir sjávarútveginn. Auðvitað er það, þó að Landsbankinn græði einhverja fjármuni, ekki bara gert fyrir sjávarútveginn. Slíkt er vitanlega mjög ónákvæmlega sagt frá hlutunum. Fiskveiðasjóður er í þessu tilfelli ekkert annað en peningastofnun, sem á sín skipti við sjávarútveginn, veitir lán út á ákveðnar eignir og heimtar sína vexti og sínar afborganir, og spurningin er um það, hvort sú starfsgrein, sem hann á skipti við, getur með eðlilegum hætti staðið við sínar skuldbindingar við sjóðinn.

Þá vék hæstv. ráðh. að því, að nú hefði komið hér fram í þessum umr. alveg ný viðurkenning frá stjórnarandstöðunni á vandamálum sjávarútvegsins. Ég verð að segja það, að mér finnast þessar fullyrðingar hæstv. ráðh. alveg furðulegar, og þær hljóta að stafa af því, að hann hefur lítið verið hér við þær umr., sem fram hafa farið að undanförnu um þessi mál. Ég hef ekki dregið á það neina dul í mínum ræðum, að mér er það ljóst, að sjávarútvegurinn hefur orðið fyrir miklu áfalli á þessu ári vegna verðlækkana á útflutningsvörum og það fer auðvitað heldur ekkert á milli mála, að hann hefur líka orðið fyrir miklu áfalli vegna minni afla, sem stafar af einstaklega óhagstæðu tíðarfari. Það hefur aldrei verið nein deila á milli manna um þessi atriði.

Hins vegar hefur staðið deila um það, að við í stjórnarandstöðunni höfum einnig bent á það, að stefna ríkisstj. í efnahagsmálum á undanförnum árum hafi einnig haft óheillavænleg áhrif fyrir atvinnuvegi landsins og erfiðleikar sjávarútvegsins stafi einnig af þessari óheppilegu stefnu.

Og svo kemur þessi þokuhnoðri, sem er svo erfitt að grípa í, þetta, að þegar á það er bent, að t.d. síldveiðisjómenn hafi sannanlega tapað í kaupi á árinu 300–350 millj. kr. og ekki er reynt að hrekja það, að svo sé, þá segja menn bara: Þjóðin tapar, öll þjóðin verður að bera þetta. Ja, ætlar hæstv. ráðh. að taka eitthvað á sig af þessum 350 millj., sem sjómenn hafa farið varhluta af á þessu ári? Þeir bera það einir. Ég veit ekki til þess að neinn aðili hér í þessu landi ætli að leggjast undir þennan bagga með sjómönnunum. Þeir bera þennan bagga einir. Það er það, sem menn eiga að viðurkenna og játa, en ekki að gripa til einhverra óræðra hluta og tala um, þjóðin er að tapa, þjóðin er að tapa. Það er líka rétt, að útvegsmennirnir, sem stundað hafa veiðarnar og fengið nú miklu minni afla, sem hefur verið borgaður með lægra verði, hafa líka orðið fyrir töpum. Og því er það, sem við segjum hér, að það er réttmætt að láta þessa aðila, sem hafa orðið fyrir þessum áföllum, hafa það fé, sem hér er verið að skipta upp og sem raunverulega tilheyrir þeim og engum öðrum.

Það er ekki hægt að komast fram hjá þessu atriði á þennan hátt að klifa í sífellu á þessu, að þjóðin beri þetta öll og öll þjóðin eigi að taka þetta á sig o.s.frv. Málið er afar skýrt. Ákveðnir aðilar verða að bera þennan bagga og spurningin er aðeins um það, hvort menn vilja leyfa þessum aðilum að fá nokkrar bætur upp í þessi miklu áföll af því fé, sem þeir eiga, eða hvort þeir vilja taka þetta frá þeim og ráðstafa því til tiltölulega mjög öflugra sjóða, sem eiga í rauninni ekkert tilkall til þessa fjár, ekkert.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar, af því að ég veit, að þingfundartíminn er mjög naumur.