25.10.1967
Sameinað þing: 7. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í D-deild Alþingistíðinda. (3034)

10. mál, breytingar á nýju vísitölunni

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Við 1. umr. um efnahagsráðstafanir hæstv. ríkisstj. skýrði ég frá því, að ég hefði beðið hagstofustjóra að skýra mér frá því, hvernig nýja vísitalan hefði breytzt, en hagstofustjóri hefði neitað mér um þá vitneskju. Síðar í umr. tók hæstv. fjmrh. á sig ábyrgðina af þessari neitun, enda þóttist ég vita það, að hagstofustjóri hefði ekki tekið upp hjá sjálfum sér að neita alþm. um vitneskju um hagfræðilegar staðreyndir. Hæstv. fjmrh. gerði þá grein fyrir neituninni, að ekki hefði verið tímabært að skýra frá breytingum á nýju vísitölunni, þar sem það mál hefði verið í deiglunni. En nýja vísitalan hefur öldungis ekki verið í neinni deiglu nú að undanförnu. Hún er þannig til komin, að með júní-samkomulaginu 1964 var ákveðið að láta búa til nýjan vísitölugrundvöll, sem gæfi skýrari og réttari mynd af neyzlunni en sá, sem nú er í gildi. Síðan var unnið að því að afla gagna til þess að semja þennan vísitölugrundvöll á árinu 1965, og því verki var lokið í ársbyrjun 1966, og þá var þessi nýja vísitala reiknuð út í fyrsta skipti samkv. þessum grundvelli, og það hefur síðan verið gert ársfjórðungslega. Jafnframt var reiknað aftur í tímann, breytingar á verðlagi samkv, þessari nýju vísitölu voru reiknaðar frá því í júní 1964. Ýmsar staðreyndir um þessa útreikninga voru birtar í skýrslu til hagráðs frá Efnahagsstofnuninni, en hún kom út fjölrituð í ágúst í fyrra. Þar var sagt frá, hvernig ýmsir liðir vísitölunnar hefðu breytzt, en heildarútreikningar á vísitölunni sjálfri voru ekki birtir þar. En sem sagt, þessi vísitala hefur ekki verið í neinni deiglu að undanförnu, og það hefði ekki átt að vera neitt launungarmál, hvað útreikningar á henni hafa sýnt. Og ég verð að telja það ákaflega ámælisvert að reyna að fela slíkar staðreyndir fyrir alþm.

Hagskýrslugerð á Íslandi er ekki það fjölskrúðug eða fullkomin, að ástæða sé til að fela það, sem unnið er á því sviði, og aðstaða þm. til þess að kynna sér af eigin raun ýmis vandamál, sem við er að etja, er sannarlega ekki góð heldur. Það væri frekar ástæða fyrir hæstv. ríkisstj. að greiða götu alþm. í slíkum störfum, en reyna að torvelda þeim þau.

Ég bað hæstv. fjmrh. að skýra frá breytingum á vísitölunni þegar við 1. umr. um efnahagsráðstafanirnar. Hæstv. ráðh. tók máli mínu ljúflega, en nefndi þó aðeins eina tölu. Hann sagði, að nýja vísitalan hefði hækkað um 7.1% frá 1. febr. 1966 til 1. maí í ár. En það, sem ég fer fram á, er að sjálfsögðu fullkomin greinargerð um allar breytingar á nýju vísitölunni á því tímabili, sem útreikningar ná yfir, og þar á ég ekki aðeins við heildarvísitöluna, heldur einnig hvernig einstakir liðir hennar hafa breytzt. Ég geri mér að sjálfsögðu ljóst, að það er gagnslítið að lesa slíkar tölur upp úr ræðustóli, og vil beina því til hæstv, ráðh., að hann láti prenta skýrslu um þetta atriði og útbýta henni hér meðal þm. Ég mundi þá telja alveg sjálfsagt, að þar fylgdi með sjálfur grundvöllur vísitölunnar. Eins og ég hef áður vikið að, er það algerlega fráleitt að ætlast til þess, að Alþ. Íslendinga lögfesti nýjan vísitölugrundvöll, án þess að alþm, hafi fengið að sjá hann.