01.11.1967
Sameinað þing: 8. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í D-deild Alþingistíðinda. (3043)

25. mál, verndun hrygningarsvæða

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Gíslason) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram á þskj. 25 eftirfarandi fsp. til hæstv. sjútvmrh.:

„Hvað líður framkvæmd þál., sem samþ. var á Alþ. 11. apríl 1962, um verndun hrygningarsvæða við strendur landsins?“

Alllangt er síðan mál það, sem fsp. fjallar um, var rætt hér á Alþ. og því ástæða til að rifja það upp í mjög stórum dráttum. Þáltill. sú, sem ég flutti hér á sínum tíma, hljóðaði svo, með leyfi forseta:

„Alþ ályktar að skora á ríkisstj, að fela Fiskifélagi Íslands og fiskideild atvinnudeildar Háskóla Íslands að gera till. um tímabundna friðun ákveðinna hrygningarsvæða við strendur landsins.“

Till. fylgdi stutt grg., sem ég einnig vil leyfa mér að lesa upp, þar sem hún skýrir tilgang sjálfrar till. En grg. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Allir munu viðurkenna, að með útfærslu grunnlínanna og útfærslu fiskveiðitakmarkanna í 12 mílur, hafi bátaflota landsmanna verið skapað stærra athafnasvæði en áður var og öruggara, þar sem erlendum fiskiskipum er nú bægt frá öllum veiðum á þessu svæði. Verður þetta að teljast góð og raunhæf þróun fyrir alla sem þennan atvinnuveg stunda, og tryggir vonandi undirstöðu þessarar atvinnugreinar. Það ber þó að hafa í huga í þessu sambandi, að á undanförnum árum hefur bátafloti landsmanna aukizt mjög. Hefur hann aukizt bæði að tölu og stærð, auk þess sem afkastageta hans hefur margfaldazt á við það, sem áður var, vegna aukinnar tækni við veiðarnar og tilkomu nýrra og aflasælli veiðarfæra en áður þekktust. Með hliðsjón af þessu tel ég, að gæta verði þess, að hinum fengsælu fiskimiðum við strendur landsins verði ekki eytt með ofveiði og rányrkju.

Við Suður- og Suðvesturland, á svæðinu frá Vestmannaeyjum að Reykjanesi, munu vera hin stærstu hrygningarsvæði, sem vitað er um við strendur landsins. Allstór hluti af bátaflota landsmanna stundar veiðar að vetri til á þessu svæði og einmitt á þeim tíma, er hrygning aðalfiskstofns okkar, þorskstofnsins, fer fram. Þegar er farið að gæta nokkurs uggs um það hjá þeim sjómönnum, sem veiðar stunda á þessu svæði, að minnkandi afli bátaflotans á vetrarvertíð á þessum slóðum kunni að eiga rót sína að rekja til ofveiði á þeim hrygningarsvæðum, sem þar eru. Vil ég í þessu sambandi skírskota til ályktunar, sem skipstjóra- og stýrimannafélagið. Verðandi í Vestmannaeyjum samþykkti á fundi sínum árið 1957 og send var sjútvmrn., þar sem bent var á nauðsyn þess að friða vissan tíma árs ákveðin hrygningarsvæði á tilgreindum stöðum. Tel ég því tímabært, að fiskifræðingum okkar í samráði við þá aðila, sem aflað hafa sér í áratugi haldgóðrar reynslu í þessu sambandi, verði falin athugun á, hvort ekki sé nauðsynlegra aðgerða þörf í þessu sambandi, og ef svo reynist, að gera till. til eðlilegra úrbóta.“

Þetta var sú stutta grg., sem till. fylgdi. Till. þessari var á sínum tíma vísað til allshn., sem afgreiddi málið með nál., dags. 3. apríl 1962, og lagði n. til, að tillgr. yrði samþ. þannig orðuð:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að gera hið fyrsta nauðsynlegar ráðstafanir til að framkvæmdar verði rannsóknir á hrygningarsvæðum nytjafiska við landið.“

N. hafði leitað umsagnar Fiskifélags Íslands og fiskideildar atvinnudeildar Háskólans um málið, og voru þær prentaðar í nál. sem fskj. Niðurstaða í umsögn Fiskifélagsins hljóðaði þannig, með leyfi forseta:

„Fiskiþingið ályktar, að rannsaka þurfi betur en orðið er nauðsyn þess að friða hrygningarstöðvar þorsksins umhverfis landið og felur því fiskimálastjóra að halda þessu máli vakandi við fiskifræðinga og hlutast til um, að löggjöf verði sett um málið, ef ráðlegt þykir.“

Niðurstaða í umsögn fiskideildar atvinnudeildar Háskólans hljóðaði þannig, með leyfi forseta. Ég skal aðeins taka eitt mjög stutt atriði út úr því, sem ég tel, að þurfi að koma fram, en að öðru leyti ekki misnota tímann. En þessi grein, sem ég vildi taka út úr umsögn fiskideildar atvinnudeildar Háskólans, er aðeins tvær línur og hljóðar þannig:

„Það virðist því vera allvel séð fyrir viðgangi stofnsins í venjulegu ári og tæplega ástæða til þess að minnka sóknina af þeim sökum.“

Verður að telja, að niðurstaða allshn. og umsögn Fiskiþings séu jákvæðar, en umsögn fiskideildar atvinnudeildar Háskólans síður, þar sem hún telur, að allvel sé séð fyrir viðgangi þorskstofnsins í venjulegu ári og tæplega ástæða til að minnka sóknina af þeim sökum, eins og þar segir.

Það, sem fyrir mér vakir með fsp., er að fá fram, hvort álit fiskifræðinga okkar sé enn í dag óbreytt hvað þetta atriði snertir eða hvort nokkrar aðrar skýringar séu fyrir hendi á þeirri staðreynd, sem við blasir, að afli hefur farið minnkandi á hvern bát á Suður- og Suðvesturlandi á undanförnum vetrarvertíðum, þrátt fyrir stóraukna tækni við veiðarnar.