01.11.1967
Sameinað þing: 8. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 530 í D-deild Alþingistíðinda. (3044)

25. mál, verndun hrygningarsvæða

Félmrh. (Eggert G. Þorsteínsson) :

Herra forseti. Í sambandi við fsp. þessa, sem er endurtekin nú, að ég hygg vegna þess, að ekki vannst tími til þess að ræða hana á síðasta þingi, hef ég óskað eftir því við Hafrannsóknastofnunina að hún léti í té svör við þessu, sem yrðu þá uppistaða í mínum svörum hér, og fer hér á eftir álit Hafrannsóknastofnunarinnar um fsp.:

„Á Alþ. 1962 var samþ. þáltill. um ofangreint málefni Ekki er þó hér um neina nýjung að ræða, því að segja má, að rannsóknir á hrygningu íslenzkra nytjafiska hafi fyrst verið framkvæmdar í byrjun þessarar aldar af hinum fræga danska fiskifræðingi, dr. Johannes Smith, og fékkst þá þegar gott yfirlit um hrygningu þorskfiskanna hér við land. Á árunum 1948—1950 voru aftur gerðar mjög yfirgripsmiklar athuganir á þessu, en vegna fjarveru og síðar andláts dr. Hermanns Einarssonar, sem stóð fyrir rannsóknunum, hefur lítið verið birt opinberlega um árangurinn enn þá, þótt búið sé að vinna úr mestum hluta gagnanna.

Svo sem kunnugt er, hafa þorskfiskarnir og flestar aðrar tegundir nytjafisks hér við land sviflæg egg. Hrygningin fer fram yfir botninum, og eggin fer þá strax að reka með straumnum. Síldin hefur aftur á móti botnlæg egg og límir þau við botninn, þar sem hentug skilyrði eru fyrir hendi.

Árið 1959 var framkvæmd leit að gotstöðvum vorgotssíldarinnar, og árið 1964 og 1965 var aftur gerð leit að gotstöðvum sumargotssíldar með allgóðum árangri. Tilgangur þessara rannsókna var fyrst og fremst að athuga útbreiðslu hrygningarsvæðanna og að því er snertir tegundir með sviflægum eggjum einnig að freista þess að meta sveiflur og styrkleika einstakra árganga.

Varðandi síðara atriðið sýnir reynslan, að kerfisbundnar athuganir á þessu sviði eru ákaflega tímafrekar og kosta meiri mannafla en stofnunin hefur til þessa ráðið yfir. Íslenzku síldarstofnarnir tveir hrygna í heita sjónum aðallega á svæðinu frá Vestra-Horni að Reykjanesi. Eru þekkt nokkur svæði í námunda við Vestmannaeyjar. Vitað er, að ýsan leitar mjög í síldaregg, en ekki er enn vitað, hvort það muni geta haft áhrif á viðkomu stofnsins hverju sinni, né heldur hvort dragnótaveiðar á þessum svæðum mundu geta gert einhvern usla. Er æskilegt, að frekari athuganir verði gerðar um þessi atriði.

Að því er snertir þorskstofninn, benda athuganir okkar til þess, að sterkur hrygningarstofn hafi oft skapað sterkan árgang. Þetta er þó ekki einhlítt, og koma til greina ýmsar ytri orsakir, sem enginn mannlegur máttur ræður við, svo sem fæðuskortur, óhagstæðir straumar og veðurfar, sem getur strádrepið eggin og seiðin fyrstu vikurnar í lífi þeirra. Áhrif veiðanna á hinn kynþroska hluta íslenzka þorskstofnsins eru nú vel þekkt, og má segja, að á hverju ári hverfi úr stofninum um 70%, og er hlutur veiðanna 56%, en 14% fara forgörðum á annan hátt. Mestur hluti af ársveiðinni á kynþroska þorski fer fram í sambandi við hrygningu hans á tímabilinu janúar—maí. Af þeim tölum, sem hér hafa verið nefndar, má því draga þá ályktun, að rúmlega helmingur þess fjölda fiska sem kemur til hrygninga, veiðist, en hitt sleppi. Þrátt fyrir hina miklu sókn virðist þó enn þá sæmilega séð fyrir viðhaldi stofnsins.

Hafrannsóknastofnunin telur lokun ákveðinna hrygningarsvæða til verndar þorskstofninum mjög vafasama. Það er vitað, að fiskur breytir göngum sínum innan heildarhrygningarsvæðisins frá einu ári til annars. Ekki vitum við heldur nákvæmlega, hvað veldur þessu né getum heldur sagt fyrir um það. Þegar hins vegar ástand stofnsins er orðið slíkt, að nauðsynlegt er að draga úr sókninni, telur stofnunin, að raunveruleg skömmtun á aflamagni á vetrarvertíð sé það eina, sem til greina kemur. Ákveðinn verði hámarksafli fyrir allt hrygningarsvæðið og veiðum hætt, þegar því marki er náð. Þar sem um 70% ársafla okkar fæst á vetrarvertíð, telur stofnunin, að mjög veigamikil rök verði að vera fyrir hendi til þess að réttlæta svo afdrifaríkar aðgerðir.

Á fundi Norður-Atlantshafsnefndarinnar, North-East Atlantic Fisheries Commission, sem haldinn var í París í maí s.l., lögðu Íslendingar fram till. um lokun ákveðinna svæða út af Norðausturlandi fyrir öllum togveiðum. Svæði það, sem hér er um að ræða, afmarkast af 16° v. l. og 65° 30' n. br., þ.e. frá Melrakkasléttu og austur og suður að Glettinganesi, og skulu togveiðar bannaðar á því svæði á tímabilinu júlí—des. um 10 ára skeið. Samtímis skal Alþjóðahafrannsóknaráðinu falið að hafa yfirumsjón með rannsóknum til þess að ganga úr skugga um áhrif friðunarinnar á íslenzku fiskstofnana. Till. þessi hlaut furðu góðar viðtökur þeirra þjóða sem hér eiga hlut að máli, og var ákveðið að skipa nefnd til þess að kanna hana nánar. Í þessari n. skulu eiga sæti sérfræðingar og embættismenn frá Íslandi, Noregi, Þýzkalandi, Bretlandi og Sovétríkjunum, og verður fyrsti fundur hennar í Reykjavík í byrjun næsta árs. Er vonað, að n. ljúki störfum fyrir næsta aðalfund Norðaustur-Atlantshafsnefndarinnar, sem haldinn verður í Reykjavík í maí n.k.

Það er skoðun sérfræðinga, jafnt íslenzkra sem erlendra að þorskstofninn við Ísland þoli ekki aukið álag frá því, sem nú er, og að minni sókn muni jafnvel geta aukið heildarveiðina. Það er einnig skoðun íslenzkra sérfræðinga, að við eigum að byrja með því að takmarka sóknina í ungfiskinn, en vitað er, að erlendir togarar stunda miklar smáfiskveiðar á því svæði, sem við hyggjumst loka.“

Ég vænti þess, að þetta svar Hafrannsókna stofnunarinnar dugi sem svar við fsp. hv. fyrirspyrjanda.