01.11.1967
Sameinað þing: 8. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 531 í D-deild Alþingistíðinda. (3045)

25. mál, verndun hrygningarsvæða

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. sjútvmrh. fyrir mjög greinargott svar við fsp. minni, en tími til umr. er hér ekki, þar sem hann er mjög takmarkaður, en í álitinu, sem hann las hér og fiskifræðingar höfðu látið honum í té, kemur fram það sama, sem kom fram í umsögn þeirra á sínum tíma að enn væri sæmilega séð fyrir viðgangi þorskstofnsins og að lokun hrygningarsvæða væri mjög vafasöm aðgerð.

Eins og ég sagði, er ekki tími til umr. um þetta, en mjög margt er hægt um þetta að segja, sem stangast á við þá reynslu, sem þeir menn, sem lengst hafa stundað fiskveiðar á vetrarvertíð, telja sig hafa fengið.