01.11.1967
Sameinað þing: 8. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í D-deild Alþingistíðinda. (3048)

193. mál, dreifing sjónvarps

Fyrirspyrjandi (Ingvar Gíslason) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 5. þm. Norðurl. e. að bera fram fsp. til hæstv. ríkisstj. um dreifingu sjónvarps, en þessi fsp. er í tveimur liðum: í fyrsta lagi, hvað líði dreifingu sjónvarps til Akureyrar og Eyjafjarðarsvæðis, og í öðru lagi, hvenær ráðgert sé, að sjónvarpið hafi náð til allra landshluta.

Eins og menn vita hóf íslenzka sjónvarpið starfsemi sína um mánaðamótin sept.—okt. 1966 og náði í fyrstu til Reykjavíkur og næsta nágrennis, en hefur síðan verið dreift um mikinn hluta Suðurlands allt austur í Skaftafellssýslu og vestur til Breiðafjarðarbyggða, að því er mér skilst. Má segja, að dreifingin hafi að vissu leyti verið hröð og ekkert nema gott um það að segja, enda hefur tæpast skort fjármagn til framkvæmdanna, þar sem tekjur af aðflutningsgjöldum á sjónvarpstækjum hafa orðið miklar og jafnvel meiri heldur en við var búizt. Þrátt fyrir það að um margt hafi dreifing sjónvarpsins gengið greiðlega, eru viss atriði, sem ég a.m.k. er ekki fyllilega ásáttur með í þessu sambandi.

Upphaflega var gert ráð fyrir því, að sjónvarpinu yrði dreift um landið á 5—7 árum. þ.e. á árabilinu 1966—1970 eða 1966—1972. Í báðum þessum upphaflegu áætlunum útvarpsráðs var gert ráð fyrir því, að aðaldreifistöðin á Norðurlandi, Vaðlaheiðarstöðin, yrði byggð 1967 eða 1968, þannig að Akureyringar og nærsveitarmenn fengju notið sjónvarps 1967 og þá í allra síðasta lagi 1968. Þessar upphaflegu áætlanir, 5 eða 7 ára áætlanir, hafa reynzt allt of „konservatívar“ og á eftir tímanum og geymast því aðeins sem minnisvarði um mikla varfærni útvarpsráðs, og skal ég ekkert um þetta segja að öðru leyti. Reynslan hefur sýnt, að unnt er að koma sjónvarpinu í alla landshluta á mun skemmri tíma en 5—7 árum, og við það verður nú að standa. En það, sem mér finnst undarlegt, er það, að þrátt fyrir nýja og skemmri áætlun um sjónvarpsdreifinguna er ekki sýnt, að sjónvarpið verði komið til Norðurlands, t.d. Akureyrar, fljótar en gert var ráð fyrir meðan útvarpsráð hélt sig við miklu varfærnari áætlun. Það bólar ekki á því, mér vitanlega, að sjónvarpið nái norður til Akureyrarsvæðisins á þessu ári og það má raunar hending heita, ef það verður komið á næsta ári, þó að það sé hins vegar ekki alveg örvænt. En ég vænti, að hæstv. ráðh. veiti svör við því.

Nú má auðvitað ekki skilja mig svo, að ég telji, að Akureyringar eigi endilega að fá sjónvarp á undan öllum öðrum. Það er ekki það, sem ég á við. Ég held, að það hefði verið skynsamlegt hins vegar, skynsamleg ráðstöfun, að hraða uppbyggingu sjónvarpsstöðvar fyrir þetta landssvæði, bæði vegna þess, að sú stöð er hornsteinn allrar dreifingar um miðbik og austurhluta Norðurlands og Austurlands raunar líka, og einnig vegna þess, að þessi stöð nær til mesta þéttbýlissvæðis utan Faxaflóasvæðisins eða svæðis, sem telur kannske 14—15 þús. manns. Nú kann ég ekki að áætla, hversu sjónvarpsnotendur yrðu margir á þessu svæði, en mér þykir líklegt, að þeir muni skipta þúsundum, varla undir 2 þús., mjög fljótlega.

Þó að við fyrirspyrjendur höfum fyrst og fremst leyft okkur að spyrjast fyrir um dreifingu sjónvarpsins til Akureyrar og Eyjafjarðarsvæðisins, m.a. af þeim ástæðum, sem ég hef stuttlega minnzt á, viljum við ekki síður fá því svarað, ef unnt er, hvenær áætlað sé að ljúka dreifingu sjónvarps til allra landshluta, og það er einmitt um það, sem annar hluti fsp. okkar fjallar.