01.11.1967
Sameinað þing: 8. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 535 í D-deild Alþingistíðinda. (3051)

193. mál, dreifing sjónvarps

Fyrirspyrjandi (Ingvar Gíslason) :

Herra forseti Ég vil þakka hæstv. ráðh. svör hans. Þau voru skýr og glögg, og ég vænti þess, að það verði ekki meiri tafir á dreifingu sjónvarpsins heldur en fram kom í orðum hans.

Varðandi það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði hér og þóttist hafa eftir mér, þá held ég, að ég hafi ekki hagað orðum mínum nákvæmlega eins og hann tók upp eftir mér, en það er rétt, að ég var kannske ekki svo stórtækur fyrir hönd Akureyringa, að ég teldi, að þeir ættu endilega að fá sjónvarp á undan öllum öðrum. En ég tek undir það með honum, og þess vegna var fsp. einmitt borin fram, að ég álít, að það hefði átt að hraða uppbyggingu sjónvarpskerfisins þannig, að Akureyringar og Eyfirðingar og þeir, sem á því svæði búa, nytu sjónvarpsins sem allra fyrst, m.a. vegna þess, að það er fjárhagsatriði fyrir sjónvarpið, að svo verði. Ég tel mjög líklegt, að í Akureyrarbæ, þar sem eru yfir 2000 heimili, verði a.m.k. 1000 sjónvarpsnotendur. Mér kæmi það ekki á óvart, og ég hygg, að í öðrum byggðum þar í grenndinni yrði hlutfallið engu lakara, og það er alveg áreiðanlegt, að menn bíða í ofvæni eftir því, að sjónvarpið komi á þetta svæði, vegna þess að menn lifa í þeirri trú, að það hefði verið mögulegt að hraða því meira en gert hefur verið.

Það kemur nú í ljós í ræðu hæstv. menntmrh., að það er ekki enn búið að ganga endanlega frá tækjakaupunum vegna Skálafellsstöðvarinnar, og það undrar mig nokkuð. Ég hélt satt að segja, að það væri löngu búið að ganga frá þeim kaupum, og það væri þá gaman að spyrja í því sambandi, hversu langur afgreiðslufrestur sé á slíkum tækjum, og ef ekki verður búið að panta þessi tæki fyrr en um áramót, hvort það séu líkur til þess, að hægt verði að ráðast í þær byggingar á næsta, sumri, sem fyrirhugað er. Okkur er öllum kunnugt um það, sem höfum fylgzt með þessu, að það eru viss tæknileg vandkvæði talin á því, að sjónvarpsgeislinn nái alla leið héðan sunnan af Skálafelli og alla leið norður að Björgum í Hörgárdal og síðan upp á Vaðlaheiði. en manni skilst, að „teoretiskt“ séð sé nokkuð öruggt, að það muni takast. En reynslan á eftir að skera úr því, hvort svo verður. En hvað skeður svo, ef reynslan á eftir að sýna, að þetta heppnist ekki? Er sjónvarpið þá við því búið að gera nýjar áætlanir um það, hvernig við verður brugðizt?

En sem sagt, ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans. Þau voru glögg og greinileg, og ég efast ekki um, að það muni margir fylgjast með því, sem hann hafði um það að segja.