08.11.1967
Sameinað þing: 10. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í D-deild Alþingistíðinda. (3058)

194. mál, framkvæmd stefnuyfirlýsingar

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Þegar hæstv. forsrh. flutti stefnuyfirlýsingu ríkisstj. í þingbyrjun, ræddi hann aðeins ýtarlega um eitt atriði, þær efnahagsráðstafanir, sem nærtækastar væru taldar. Um önnur atriði í stefnuyfirlýsingunni lét hann sér nægja að lesa orðalagið skýringalaust, og eru þar því mörg atriði, sem fróðlegt væri að fá nánari vitneskju um. Þar á meðal er ein setning um svokallaðar varnir landsins, sem ég hef beðið hæstv. forsrh. að greina nánar frá.

Liðin eru meira en 16 ár síðan bandarískur her steig hér á land öðru sinni. Þeir þrír flokkar, sem stóðu að hernáminu, lýstu þá yfir því, að þeir héldu engu að síður fast við þær yfirlýsingar, sem gefnar voru, þegar Ísland gerðist aðili að Atlantshafsbandalaginu, þess efnis, að hér á landi skyldi ekki dveljast erlendur her á friðartíma. Hernámið 1951 var rökstutt með því, að ný heimsstyrjöld væri yfirvofandi, og var einkum vitnað til Kóreustríðsins í því sambandi. Málsvarar þessara þriggja flokka lýstu allir yfir því, að hernámið væri ill nauðsyn og yrði því aflétt eins fljótt og aðstæður leyfðu.

Síðan þessir atburðir gerðust, hafa orðið miklar breytingar á heimsmálum, en samt situr herinn sem fastast. Kóreustyrjöldin er orðin að fjarlægum, sögulegum atburði í vitund manna. Andrúmsloft kalda stríðsins, sem mótaði öll viðhorf 1951, hefur smátt og smátt verið að þoka fyrir raunsærra mati. Stórveldin tvö, sem talin voru pólar andstæðustu viðhorfa fyrir 16 árum, hafa tekið upp friðsamlag samskipti á æ fleiri sviðum. Alþjóðlegur liðsafnaður þessara stórvelda hefur sundrazt að mjög verulegu leyti. Til að mynda hefur Frakkland slitið allri hernaðarsamvinnu við Atlantshafsbandalagið og fjarlægt allar bandarískar herstöðvar. Og flest ríki þess bandalags á meginlandi Evrópu hafa tekið upp mun sjálfstæðari utanríkisstefnu en áður var.

Stórfelldar breytingar hafa orðið á hernaðartækni á þessu tímabili og þar með á hugmyndum manna um gildi svokallaðra varna og herstöðva. Bandaríska herstjórnin hefur einnig margsinnis breytt skipulagi herstöðva sinna hérlendis að eigin frumkvæði. Landherinn, sem var hér í upphafi, hefur verið kallaður heim, sömuleiðis flugherinn, sem vegna breytinga á flugtækni hefur ekkert að gera við millilendingarstöðvar hér á landi. Þessar gerbreytingar á alþjóðamálum, stjórnmálum og hernaðartækni virðast ekki hafa haft nein áhrif á viðhorf íslenzkra valdamanna enn sem komið er. Enn er ekki léð máls á því að aflétta hinni illu nauðsyn, hátíðleg fyrirheit um, að aldrei skuli vera erlendur her eða herstöðvar á Íslandi á friðartímum eru enn marklaus orð. Sé vakið máls á hernáminu, verða viðbrögð stjórnarvaldanna yfirleitt gaddfreðnar staðhæfingar úr frystikistu kalda stríðsins. Jafnframt er oft beitt þeirri röksemd, að það sé mál Atlantshafsbandalagsins sjálfs, hvort erlendur her dveljist hér á landi, herhöfðingjar þess og sérfræðingar viti bezt, hvenær hersetu sé þörf og hvenær ekki. Íslendinga skorti sérþekkingu og dómgreind til að leggja sjálfstætt mat á það mál. Oft er það dæmi tekið, að keðja sé ekki sterkari en veikasti hlekkur hennar og því verðum við að sætta okkur við hlekk hernámsins í þágu keðjunnar. Af þessum ástæðum hefur það orðið mönnum sívaxandi umhugsunarefni, hvort það séu í raun og veru viðhorf stjórnarvaldanna að hérlendis skuli dveljast erlendur her um ófyrirsjáanlega framtíð eða jafnlengi og útlendum valdamönnum þóknast að nota land okkar á þann hátt. Þær áhyggjur sækja ekki aðeins að hernámsandstæðingum, heldur og að fólki, sem féllst á sínum tíma á hernámið í trausti þess, að það væri í raun og veru ill nauðsyn og yrði aflétt eins fljótt og kostur væri á. En framtíðarstefnan skyldi vera sú, að Íslendingar búi einir og frjálsir í landi sínu. Af þessum ástæðum finnst mér setningin um hernámið í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. dálítið forvitnileg. En hún hljóðar svo:

„Efnt verði til sérfræðilegrar könnunar af Íslands hálfu á því, hvernig vörnum landsins verði til frambúðar bezt háttað.“

Þarna virðist horfið frá þeirri afstöðu, að erlendir herfræðingar geti sagt okkur fyrir verkum til frambúðar, og í staðinn boðað, að við eigum sjálfir að efna til sérfræðilegrar könnunar og nota síðan niðurstöður hennar til þess að marka framtíðarstefnu. Af þessum ástæðum spyr ég hæstv. forsrh., hvernig fyrirhugað sé, að þessari sérfræðilegu könnun af hálfu Íslendinga verði háttað, hverjir eiga að framkvæma hana. að hvaða atriðum hún muni beinast og hvernig hæstv. ríkisstj. hugsar sér, að síðan verði unnið að því að marka framtíðarstefnuna. Vænti ég, að svör hæstv. ráðh. stuðli að því, að Alþ, geti síðar tekið upp málefnalegar umr. um þetta mikilvægs viðfangsefni.