08.11.1967
Sameinað þing: 10. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í D-deild Alþingistíðinda. (3062)

194. mál, framkvæmd stefnuyfirlýsingar

Forsrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Ég svaraði þeirri fsp., sem fram var borin, eftir því sem efni hennar gaf ástæðu til. Hitt var ekki ætlun mín og sjálfsagt ekki fyrirspyrjanda að hér ættu að þessu sinni að efjast almennar umr. um varnarmálefni landsins eða utanríkisstefnu. Í því er of ójafn leikur með ræðutíma í fyrirspurnaformi, og mun ekki standa á mér við annað tækifæri að ræða það mál, eftir því sem efni standa til.

Það hefur legið alveg ljóst fyrir bæði í stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar og var ítrekað í þeim fáu orðum, sem ég mælti, að ætlunin er, að sú sérfræðilega athugun, sem nú fari fram, sé gerð af Íslendingum og undir þeirra stjórn. Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að afla sér einnig fræðslu erlendis frá, og fram hjá því verður auðvitað ekki komizt. Ég virði mjög mikils þá djúpu sérfræði, sem lýsti sér í ræðum þeirra tveggja hv. þm., sem hér töluðu, og þeir þurfa sízt af öllu að óttast, að ekki verði tillit tekið til þeirra skoðana og þeirra gagna, sem þeir leggja fram, svo veigamikil sem þau vafalaust munu reynast.

En ég vildi aðeins leiðrétta misskilning hjá hv. fyrirspyrjanda sérstaklega um tvö atriði. Annars vegar er það auðvitað ekki rétt, að Frakkar hafi slitið hernaðarsamvinnu við Atlantshafsbandalagið. Þeir hafa sagt sig úr tilteknum stofnunum innan Atlantshafsbandalagsins, þar sem herir eru undir sameiginlegri stjórn. En enn þá eru þeir innan Atlantshafsbandalagsins og halda uppi innan þess margvíslegri samvinnu einmitt um hernaðarmálefni. Það er nauðsynlegt, að menn rugli þessu tvennu ekki saman. Þó að Frakkar hafi skapað sér að ýmsu leyti sérstöðu, þá er það annað mál. En yfirlýsingar valdamanna Frakka og nýlegar skoðanakannanir benda til þess, að bæði stjórnvöld og franskur almenningur hyggist halda áfram að vera innan Atlantshafsbandalagsins og taka þátt í störfum þess einnig eftir árið 1969. Um þetta sker reynslan auðvitað úr, og þarf ekki að fara fleiri orðum um það.

Þá er það einnig misskilningur, þegar hv. fyrirspyrjandi sagði, að því er ég hygg, að þessi svokallaða sérfræðinganefnd, sem sett var á stofn með samkomulagi vinstri stjórnarinnar við bandarísk yfirvöld á sínum tíma hafi starfað frá þeim tíma og fram á þennan dag. Þeir leiðrétti mig, sem betur vita, en ég hygg, að sú sérfræðinganefnd hafi aldrei komið saman, hvorki á dögum vinstri stjórnarinnar og enn þá síður síðan. Vinstri stjórnin sat frá því í nóv. 1956 og fram í des. 1958, að því er ég hygg, án þess að þessi nefnd, sérfræðinganefndin, héldi nokkurn fund. Það er allt annað mál, að hæði á undan og eftir, allt frá upphafi, hefur starfað svokölluð varnarmálanefnd, — hún hefur e.t.v. breytt um nafn á þessum tíma ég man það nú ekki, svo að ég segi alveg eins og er. Þar fyrir utan hefur verið unnið að málunum á skrifstofu, sem fyrst var bara hluti af utanrrn., en síðan var sett upp sérstök skrifstofa til þess að annast þessi mál. Í varnarmálanefnd hafa ætíð verið nokkrir menn, sérstakir trúnaðarmenn þeirra flokka sem að ríkisstj. hafa staðið hverju sinni og um þessi mál hafa hirt að fjalla. Og það er einmitt visað til þess m.a. í þeim fáu orðum, sem ég sagði, að allmargir hefðu kynnzt ýmsum þáttum varnarmála við störf í utanrrn, á undanförnum árum. Með þessum orðum á ég ekki einungis við þá, sem beinlínis hafa unnið skrifstofustörf í utanrrn. og deild þess, varnarmáladeildinni, heldur einnig þá, sem hafa verið kallaðir til að vinna í því, sem nú er nefnt varnarmálanefnd. Það er rétt, sem hv. þm. sagði, að þessir menn — og þar hafa oft orðið ýmis mannaskipti — munu fyrir skömmu hafa verið staddir vestan hafs.

Hitt skulum við svo játa alveg öfgalaust, að verulega fræðilega þekkingu á þessum efnum höfum við Íslendingar ekki. Hér er enginn maður, sem hefur gert að sínu ævistarfi að leggja stund á það, sem kallað er hernaðarfræði. Það má fara um það ýmsum orðum, hvort þetta séu þörf fræði eða ekki. Okkur eru þau ekki sérstaklega geðfelld, en til þess að meta röksemdir í þeim efnum, er ákaflega gott að hafa yfir slíkri innlendri fræðiþekkingu að ráða og ég tel varðandi framtíðina, að það væri æskilegt, að Íslendingar öðluðust og fengju menn, sem réðu yfir þvílíkri þekkingu, þó einungis fræðilega séð.

Það er sem sagt af öllum viðurkennt, að varnir eru höfuðskilyrði þess, að friður geti haldizt. Það þarf ekki annað heldur en vísa til eins helzta sérfræðirits um þessi efni hér á landi, Þjóðviljans, í morgun. Þar er skýrt frá því, að aðalþáttur hátíðahaldanna miklu í Moskvu í gær hafi verið hersýning. Þetta stendur sem aðalfregnin frá þessari miklu friðarhátíð, sem þar var haldin. Og ég veit, að allra sízt munu þeir tveir hv. þm., sem hér töluðu, efast um það, að þessum mönnum, sem fyrir þeirri hátíð stóðu, var sérstaklega friður í huga og þeir vildu sýna sinn friðarhug með þessari miklu hersýningu og sýna, hversu land þeirra væri vel varið.

Allt er þetta okkur ógeðfellt, en fram hjá þessu komumst við ekki. Ég tel, að það væri mjög vel takandi til athugunar, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að fá álit formanns utanrmn. Bandaríkjanna um varnir Íslands. Ég vil hins vegar segja að fyrir fram vil ég ekki skuldbinda mig til þess að fara eftir hans skoðun á þeim efnum, og ég er hræddur um, að svo kynni nú að fara einnig með hv. þm., að þar kynni eitthvað að blandast í, sem hann væri nú ekki alveg jafnsammála þeim ágæta manni, eins og hann er í deilu þess manns við forseta Bandaríkjanna um Víetnam-stríðið, sem er allt annað mál.

Hér er sem sagt um mikið og margþætt vandamál að ræða sem er mjög eðlilegt, að verði tekið til umr. í þinginu einmitt einhvern tíma í vetur, og vona ég, að færi gefist til þess. En ég sé ekki ástæðu á þessu stigi til annars en svara þeirri fsp., sem að mér var beint, eins og hún var orðuð, og við henni var mitt svar eins fullnægjandi og unnt er.