06.12.1967
Sameinað þing: 18. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í D-deild Alþingistíðinda. (3083)

34. mál, skólarannsóknir

Bjarni Guðbjörnsson:

Herra forseti. Það var aðeins eitt atriði í hinni annars fróðlegu ræðu hæstv. menntmrh., sem kom mér til þess að fara hér í ræðustólinn.

Ég held, að ég hafi heyrt það rétt, að hann hafi sagt, að engum, sem hafi staðizt landspróf, hafi verið meinað inngöngu í menntaskóla. Í sambandi við þetta atriði er um grundvallarmisskilning að ræða, svo að ég noti orð hæstv. menntmrh. Ég hefði skilið það svo, og ég veit, að það eru margir aðrir, sem líta þannig á, að sá unglingur, sem lýkur landsprófsþrautinni og fær fyrir það einkunnina 5, stenzt landsprófið. En mér er ekki kunnugt um, að neinn fái inngöngu í menntaskóla með lægri einkunn en 6. Sú einkunn er að vísu tilbúin. Það er landsprófsnefnd, sem ákveður þessa einkunn 6 og kallar hana framhaldseinkunn. Hún getur breytt henni frá ári til árs. Hún getur ákveðið, að framhaldseinkunnin í ár sé 6, hún getur ákveðið á næsta ári, að hún sé 5.50. En ég veit, að það eru margir, sem eru í dálitlum vafa um þetta og skilja það ekki rétt og telja, að enginn nái landsprófi, nema hann hljóti 6 og þar yfir. Og þann skilning fékk ég út úr ræðu ráðh., að hann teldi það vera þannig. Með öðru móti fæ ég ekki skilið, að enginn, sem hefur staðizt landspróf, hafi ekki fengið inngöngu í menntaskóla, því að það eru fjölmargir, mjög margir á bilinu frá 5—6, sem enga skólavist hafa fengið í menntaskóla af þeirri einföldu ástæðu, að þeir höfðu ekki nógu háa einkunn.