06.12.1967
Sameinað þing: 18. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í D-deild Alþingistíðinda. (3085)

34. mál, skólarannsóknir

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru örfá orð í tilefni af nokkrum atriðum, sem fram komu í aths. þriggja hv. þm.

Ég ætla fyrst að víkja fáeinum orðum að ummælum hv. 3. þm. Vestf., Bjarna Guðbjörnssonar, um það, að þeir, sem staðizt hefðu landspróf, hefðu samt ekki fengið inngöngu í menntaskóla, af því að krafizt væri einkunnarinnar 6, en ekki einkunnarinnar 5. Hér er um misskilning hans að ræða, svo að ég sendi aths. aftur heim til föðurhúsanna. Landsprófið er, eins og ég tók fram í svari mínu við fsp., landsprófið er lögum samkv. inntökupróf í menntaskóla, haldið af og á ábyrgð landsprófsnefndar, sem ræður prófefni, sem ræður prófkröfum, þ.e.a.s. innihaldi prófsins, og einkunnagjöf fyrir prófið og hefur lögum samkv. rétt til þess að ákveða hvað í því skuli felast að standast inntökupróf í menntaskóla. Landsprófsnefndin hefur frá upphafi verið einráð um þetta og frá upphafi ákveðið, að sú einkunn, sem hún telji inntökueinkunn í menntaskóla, sé einkunnin 6. Þess vegna verður ekki annað talið en sá einn hafi staðizt inntökupróf í menntaskóla samkv. ákvörðun landsprófsnefndar, sem hlotið hefur einkunnina 6 á prófinu.

Hv. þm. Vilhjálmur Hjálmarsson og Ingvar Gíslason gerðu tvennt að umtalsefni. Annars vegar skort á húsrými sérstaklega í heimavistarskólum, og hins vegar þá staðreynd, að skólaskylda er ekki framkvæmd samkv. almennum reglum fræðslulaga í öllum skólahéruðum landsins, þ.e.a.s. allmörg skólahéruð hafa undanþágu frá því að framkvæma skólaskylduna.

Það skal sízt standa á mér að viðurkenna, að á Íslandi sé skortur á skólahúsnæði, skortur, sem ég tel mikla þörf á að bæta úr og mun framvegis eins og hingað til leggja megináherzlu á, að bætt verði úr. En í því sambandi vil ég vekja athygli á því, að á undanförnum árum ef ekki áratugum hefur alls staðar í hinum menntaða heimi verið skortur á skólahúsnæði, þ.e.a.s. það er alls staðar meiri eftirspurn eftir skólahúsnæði en hið opinbera treystir sér til að fullnægja algerlega. Það er skortur á skólahúsnæði í langauðugasta landi veraldar, Bandaríkjunum. Það er skortur á skólahúsnæði í Sovétríkjunum, það er skortur á skólahúsnæði á öllum hinum Norðurlöndunum. Þess vegna þurfum við í sjálfu sér ekki að vera hissa á því, að það skuli hafa gerzt hér líka, að stórvaxandi eftirspurn eftir skólahúsnæði skuli hafa farið fram úr getu fjárveitingavaldsins til þess að fullnægja þeirri eftirspurn. En ég vona sannarlega, að það verði ekki langt þangað til hið opinbera telur sér fært að fullnægja þeirri umframeftirspurn, sem núna er, og miða ráðstafanir sínar við það, að til slíkrar umframeftirspurnar eftir menntun þurfi ekki að koma framvegis.

Hitt er aftur á móti alger misskilningur hjá hv. þm., Vilhjálmi Hjálmarssyni, að það geti talizt eðlilegt, að ríkinu sé skylt að sjá öllum, sem þess óska, fyrir húsrými i heimavistarskóla. Ég tel frumskyldu ríkisins vera þá að sjá öllum nemendum á skólaskyldualdri, þar sem fræðsluskylda er í framkvæmd, fyrir fræðslu, fyrir skólavist. Hitt er fráleitt, algerlega fráleitt, að ætlast til þess, að hver einasti nemandi á skólaskyldualdri, sem þess óskar, eigi rétt á vist í heimavistarskóla, og það er rétt, að þeirri eftirspurn hefur ekki verið hægt að fullnægja. Aftur á móti er mér vitanlega hvergi þess konar skortur á skólahúsnæði á fræðsluskyldustiginu, að nemendur fái ekki þá fræðslu, sem ýmist er lögboðin eða sem reglur gilda um í viðkomandi skólahéraði. Það er mér ekki kunnugt um.

Þrengslin, skorturinn á skólahúsnæði, kemur fram í því, að óeðlilega þröngt er um nemendurna og kennarana. Það er tvísett og jafnvel þrísett, stundum jafnvel skólatími styttri heldur en æskilegt væri. En um hitt þekki ég ekki dæmi, að á fræðsluskyldustiginu sé skortur á því skólahúsnæði, sem nauðsynlegt er til þess að halda uppi lögboðinni fræðsluskyldu. Hitt er algerlega óskylt mál, þó að það komi fyrir, eins og ég veit, að kemur fyrir á hverju hausti, að ýmsir unglingar sækja um vist í heimavistarskóla en eiga ekki kost á henni. Þó verð ég að segja það, að þessi mál leysast ótrúlega oft einmitt með hliðstæðum hætti og þm. lýsti, að málið, sem hann nefndi, hefði leystst. Það mál leystist þannig, að annar unglingur, sem átti kost á venjulegum heimangönguskóla í sínu héraði, fór þangað. Þar var hægt að útvega honum húsnæði hjá vandafólki, en unglingurinn, sem í vandræðum var, fékk heimavistarhúsnæðið

Fyrir 2-3 árum lét ég fram fara nákvæma talningu á þessu í tveimur landsfjórðungum. ég held, að það hafi a.m.k. tekið til allmargra skólahéraða í tveimur landsfjórðungum, fylgzt var með hverjum einasta nemanda sem sótt hafði um vist í heimavistarskóla, en verið synjað um hana. Einfaldri samlagningu má ekki beita til þess að meta niðurstöðu synjananna því að fjölmargir unglingar sækja um marga skóla í einu og fá þá e.t.v. synjun úr öllum nema einum, en komast í þennan eina, og þar af leiðandi hefur þessum unglingi ekki verið synjað, en í einfaldri samlagningu mundi koma fram, að 5 unglingum t.d. hafi verið synjað, ef hann hefur sótt um 6 heimavistarskóla. En ég lét fylgjast með því, taka upp feril allra þeirra unglinga sem ekki höfðu fengið vist í heimavistarskólunum. Og það kom í ljós í yfir 90% af dæmunum, að þeir höfðu fengið vist í öðrum skóla. Hinir, sem eftir urðu, voru að því spurðir, hvers vegna þeir hefðu ekki farið í annan skóla hvort þeir hefðu ekki átt kost á því, en þá kom í ljós í næstum öllum tilfellunum, að nemendurnir hættu við fyrirætlun sína um skólavistina gerðu annað, réðu sig í atvinnu, m.ö.o.: þeir höfðu sótt um skólavist snemma á sumri, fengið tilboð um atvinnu eða aðra möguleika þegar leið á sumarið eða haustið, og hætt við fyrirætlun sína um skólagönguna. Niðurstaða þessara athugana varð því sú, að um það var alls ekki að ræða, að menn ættu ekki kost á skólavist, þó að menn hafi ekki átt kost á vist í heimavistarskóla, sem er allt annað.

Varðandi hitt atriðið, sem báðir þm. nefndu, framkvæmd skólaskyldunnar, er það alveg rétt, sem sérstaklega hv. þm. Ingvar Gíslason lagði áherzlu á, að auðvitað hefur átt að stefna að því og á að stefna að því, að ákvæðin um 8 ára skólaskyldu komist alls staðar á landinu í framkvæmd, jafnvel í hinum fámennustu byggðarlögum. En í þessu sambandi verð ég að taka það skýrt fram og leggja á það sérstaka áherzlu, ef hv. þm. kynnu ekki að vita það áður, að í þessum efnum er ekki við menntmrn., ekki við fjmrn. að sakast. Það munu vera um 3 ár síðan menntmrn. samkv. ákvörðun ríkisstj. beindi því til allra skólahéraða í landinu, þar sem ekki er framkvæmd full fræðsluskylda, að taka upp fulla fræðsluskyldu, og í bréfinu var fyrirheit um það, að ríkið mundi að sjálfsögðu standa við lögbundnar skuldbindingar, sem af því mundi leiða að full fræðsluskylda yrði tekin upp í skólahéraðinu. Þetta hefur haft þann árangur — því miður tók ég ekki með tölur um þetta. — að mjög mörg skólahéruð hafa innleitt fræðsluskylduna í kjölfar þessa dreifibréfs frá menntmrn. fyrir 2—3 árum. En nokkur þau smæstu eru eftir enn. Ástæðan til þess, að fræðsluskyldan þar er ekki komin til framkvæmda, er ekki viljaleysi hinna æðstu valdhafa hér í höfuðstaðnum til þess að hrinda fræðsluskyldunni í framkvæmd, heldur getuleysi mjög smárra sveitahreppa til að halda uppi 8 ára skólaskyldu. Ég deili ekki á þá fyrir þetta. Ég hef ekki farið með neinar ásakanir, hvorki á forráðamenn þessara hreppa né íbúa þeirra, þó að þeir hiki við það að taka á sig þær byrðar, sem 8 ára skólahald auðvitað hefur í för með sér, þegar um mjög fámenna bekki og mjög fámenna skóla hlýtur að vera að ræða. En þá vil ég heldur ekki, að það séu hafðar uppi algerlega órökstuddar ásakanir á fræðsluyfirvöld eða fjármálayfirvöld fyrir sunnan fyrir það, að fræðsluskyldan er ekki komin til framkvæmda hvarvetna. Það er ekki skortur á skólahúsnæði, sem hér stendur því fyrst og fremst fyrir þrifum, að 8 ára fræðsluskylda sé tekin upp, heldur beinlínis það, hvað fullkomið skólahald er dýrt í hinum allra fámennustu skólahéruðum.

Eitt af þeim verkefnum, sem þarf að taka alveg sérstaklega á, er einmitt, hvernig leysa á skólavandamál minnstu skólahéraðanna, hvernig leysa á skólavandamál dreifbýlisins. Á því máli var tekið með miklum skilningi, að því er ég tel, og ég held, að allir séu sammála um það, við setningu nýju skólakostnaðarlöggjafarinnar. En það er ekki nóg. Það er líka vandi að reka skóla, halda uppi góðum skóla í litlu skólahéraði í dreifbýli, og þetta er eitt af verkefnunum, sem skólarannsóknirnar ætla einmitt að taka til sérstakrar athugunar á næsta ári og framvegis, og tel ég það mjög vel, að svo skuli gert.

Að síðustu vil ég svo benda á það, varðandi þann almenna skort á skólarými miðað við eftirspurn, sem hér er, eins og alls staðar annars staðar, þar sem maður þekkir til, að þessi skortur, sem enn er því miður á skólahúsnæði á ýmsum sviðum, á ekki rót sína að rekja til þess. að myndarlega hafi ekki verið á þessum málum tekið á undanförnum árum, svo að ég nefni bara síðasta áratuginn. Ef miðað er við raunveruleg verðmæti, jókst framlag ríkisins til skólabygginga á árunum 1956—1959 um 60% í raunverulegum verðmætum reiknað, og er þá umreiknað með vísitölu byggingarkostnaðar. Þá jókst framlag ríkisins til byggingar skóla á árunum 1956—1959 um 50%, á árunum 1959—1962 um 80% og á árunum 1962—1965, ég hef því miður ekki 1966 í þessum tölum — aftur um 65%. Þetta hlýtur að kallast myndarlegt átak, þó að það hafi því miður ekki nægt til þess að fullnægja með þeim hætti, sem ég tel æskilegt, þörfinni fyrir skólahúsnæði á Íslandi.