26.01.1968
Sameinað þing: 30. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í D-deild Alþingistíðinda. (3099)

196. mál, lánveitingar úr Byggingasjóði ríkisins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson) :

Herra forseti. Ég hef leitazt við að safna þeim upplýsingum, sem nauðsynlegar voru til þess að geta gefið svör við þeim fsp., sem hv. fyrirspyrjandi hefur nú gert grein fyrir. Þar sem fsp. eru í nokkuð mörgum líðum, tel ég rétt að hafa þann hátt á að endurtaka fsp. á undan hverju svari, þannig að hægara verði fyrir hv. alþm. að fylgjast með

Í fyrsta lagi er spurt: Hve margar umsóknir, sem bárust fyrir 15. marz 1967, eru óafgreiddar hjá húsnæðismálastjórn og hversu margar umsóknir hafa borizt síðan? Svar: Óafgreiddar umsóknir, sem bárust fyrir 15. marz 1967, eru samtals 660, þar af 291 fokheld íbúð, en eftir 15. marz 1967 hafa borizt 356 umsóknir, þar af eru 108 fokheldar íbúðir og því lánshæfar. Ég skal taka það fram, að niðurstaða þessa svars er miðuð við ástandið, eins og það var um áramótin síðustu.

Í öðru lagi er spurt: Hvenær má búast við, að þeir, sem eiga óafgreiddar lánsumsóknir, fái húsnæðislánin útborguð; a) þeir, sem sóttu fyrir 15. marz 1967, og b) þeir, sem sótt hafa eftir 15. marz 1967? Svar við a lið: Allar lánshæfar umsóknir verða afgreiddar með fyrri hluta láns á árinu 1968. Undirbúningur er nú hafinn að afgreiðslu lánsloforða til umsókna þessara til útborgunar í septembermánuði n. k. Svar við b–lið: Það er í athugun, að hve miklu leyti verður unnt að afgreiða umsóknir, sem borizt hafa eftir 15. marz 1967, á þessu ári, og verður því ekki fullyrt um afgreiðslu þeirra nú.

Í þriðja lagi er spurt: Hvaða ráðstafanir eru fyrirhugaðar um fjármögnun í I. áfanga byggingaráætlunarinnar í Breiðholti umfram venjuleg lán húsnæðismálastjórnar? Svar: Atvinnuleysistryggingasjóður veitti 30 millj. kr. lán til þessara framkvæmda á árinu 1967, og gert er ráð fyrir sömu lánsfjárhæð frá sjóðnum á þessu ári. Lán til efnalítilla meðlima verkalýðsfélaga samkv, b–lið 7, gr. l. nr. 19 frá 1965 um Húsnæðismálastofnun ríkisins koma einnig hér til greina.

Í fjórða lagi er spurt: Hvert er nú áætlað raunverulegt kostnaðarverð íbúðanna í I. áfanga Breiðholtsframkvæmdanna? Svar: Í Breiðholtshverfinu eru nú í byggingu 6 stór fjölbýlishús með samtals 312 íbúðum. Hér er um að ræða tveggja, þriggja og fjögurra herbergja íbúðir, en íbúðir af sama herbergjafjölda eru auk þess nokkuð misjafnar að stærð. Á s.l. hausti áætlaði framkvæmdanefnd byggingaráætlunarinnar meðalverð hverrar íbúðartegundar sem hér segir: a) Tveggja herbergja íbúð, kostnaðarverð 700 þús. kr. b) Þriggja herbergja íbúð, kostnaðarverð 810 þús. kr. c) Fjögurra herbergja íbúð, kostnaðarverð 940 þús. kr. Þetta verð miðast við, að íbúðunum verði skilað fullfrágengnum að utan og innan, með sjónvarpsloftneti, dyrasíma og vélum í sameiginlegu þvottahúsi. Í þessu verði eru að sjálfsögðu innifalin gatnagerðargjöld, heimtaugargjöld fyrir rafmagn og hitaveitu, enn fremur allur tæknilegur undirbúningskostnaður á vegum framkvæmdanefndarinnar. Í verðinu felst einnig malbikun gangstíga, jöfnun lóðar, verð bílastæða og grasræktun á lóð, en í verðinu er hins vegar ekki innifalinn vaxtakostnaður.

Framangreind kostnaðaráætlun var, eins og áður segir, gerð á s.l. hausti, en síðan hafa átt sér stað verulegar verðbreytingar í þjóðfélaginu, eins og alkunnugt er, þ.e. gengislækkunin í lok nóvembermánaðar og almenn kauphækkun um 3.4% hinn 1. des. s.l. Á þessu stigi málsins getur framkvæmdanefndin ekki séð fyrir áhrif gengislækkunarinnar á þróun kaupgjalds og verðlags á árinu 1968, nema að mjög takmörkuðu leyti. Þó er nú þegar ljóst, að gengisfellingin hefur veruleg áhrif til hækkunar á heildarbyggingarkostnað fjölbýlishúsanna í Breiðholtshverfinu, en það er þó rökstudd von framkvæmdanefndarinnar, að sú hækkun fari ekki fram yfir 12%. Í Breiðholtshverfinu er enn fremur verið að byggja 23 einbýlishús úr timbri, sem eru innflutt frá Danmörku, og er smíði þeirra senn lokið. Hér er um tvær húsagerðir að ræða. Kostnaðarverð minni húsanna, sem eru 101 fermetri, verður rúmar 1200 þús. kr., en stærri húsanna, sem eru 116 fermetrar, hins vegar tæpar 1300 þús. kr. Er þá meðreiknuð verðhækkun vegna gengisfellingarinnar, er nemur sem næst 5% af heildarverði timburhúsanna.

Í fimmta lagi er spurt: Hvað hefur byggingarsjóður lagt mikið fé til framkvæmdaáætlunarinnar til þessa og hversu mikið fé hefur komið annars staðar frá? Svar: Byggingarsjóður ríkisins lagði á árinu 1967 fram 86.379.983,37 kr., en hafði áður lagt fram, þ.e.a.s. fyrir árið 1967 11.286.464,63 kr., eða samtals úr byggingarsjóði frá því að framlög hans hófust til byggingaráætlunarinnar 97.666.448 kr. Borgarsjóður Reykjavíkur lagði á árinu 1967 fram 5.557.934 kr., en hafði fyrir árið 1967 lagt fram 1.676.109,23 kr., eða samtals úr borgarsjóði til byggingaráætlunarinnar 7.434. 043,23 kr. Framlög íbúðarkaupenda á árinu 1967 voru 12.004.750 kr. Atvinnuleysistryggingasjóður lagði fram eins og 3. gr. segir 30 millj. kr., og hafa því fjárframlög samtals til byggingaráætlunarinnar um s.l. áramót verið 147.105.241,23 kr. Eftirstöðvar eru af útgáfu skuldabréfa vegna vörugeymslukaupa, en framkvæmdaáætlunin keypti vörugeymslu fyrir 4.6 millj., og eftirstöðvar af því eru 2 millj. og 80 þús. kr. Fjármunamyndun er því samtals hjá byggingaráætluninni 149.185.241,23 kr. Framlög samtals árið 1967 voru samkv. framansögðu 134.142.667,37 kr. og frá fyrri árum 12.963.573,86 kr., eða samtals 147.105.241,23 kr.

Samkv. upplýsingum frá n. varð kostnaður árið 1967 við skipulag, sem unnið var fyrir Reykjavíkurborg, 3.258.427,85 kr. En skuld vegna sama, þ.e. fyrir Reykjavíkurborg, frá fyrra ári, var 619.116,90 kr., eða samtals 3.877.544,75 sem á að greiðast óskipt af Reykjavíkurborg. Auk þess var ógreitt 30. nóv. 9.701.281,26 kr. af fjárframlagi borgarsjóðsins til annarra framkvæmda en skipting á fjármunamyndun í des. hefur ekki farið fram. Eftir áramótin núna s.l. greiddi borgarsjóður hins vegar 5 millj. kr. upp í skuld sína.

Í sjötta lagi er svo spurt: Hvernig er ráðgert, að fjármagna síðari hluta framkvæmdaáætlunarinnar og hvernig verður þeim framkvæmdum skipað, m.a. varðandi útboð? Svar: Til verulegra framkvæmda í síðari áfanga kemur vart fyrr en árið 1969, enda er nauðsynlegt að haga þeim framkvæmdum eftir þeirri reynslu, sem fæst. þegar I. áfanga er lokið. Raunhæf fjáröflunaráætlun verður ekki gerð fyrr en fyrir liggja ákvarðanir um framhaldið og skiptingu þess í áfanga. Síðari hluti framkvæmdaáætlunarinnar tekur til byggingar u.þ.b. 900 íbúða, sem reistar verða á hinu svonefnda efra svæði í Breiðholtshverfinu. En svæði þetta hefur framkvæmdanefnd byggingaráætlunar þegar látið skipuleggja í samráði við skipulagsyfirvöld Reykjavíkurborgar. Sá hluti svæðisins, sem þessar byggingar verða reistar á, er sérstaklega skipulagður með það fyrir augum að hagnýta sem bezt þær nýju byggingaraðferðir, sem framkvæmdanefndin hefur tekið upp, og er það mikill kostur. Í grundvallaratriðum verða notaðar sömu byggingaraðferðir og beitt er við fjölbýlishúsin 6, sem nú eru í smíðum, en með þeim breytingum og endurbótum, sem aukin reynsla gefur tilefni til. Á efra svæðinu i Breiðholti fyrirhugar framkvæmdanefndin að reisa. 19 fjölbýlishús mismunandi að stærð. Þ.e.a.s., í þessum fjölbýlishúsum verða mismunandi mörg stigahús, en öll stigahúsin verða nákvæmlega eins að gerð Fjölbýlishúsin verða 4 hæðir og án kjallara eða nánar tiltekið 31/2 íbúðarhæð. Í þessum fjölbýlishúsum verða væntanlega um 770 íbúðir af mismunandi stærðum eða allt frá eins herbergis íbúðum og upp í fjögurra herbergja íbúðir. Auk fjölbýlishúsanna fyrirhugar framkvæmdanefndin að reisa á efra svæðinu allt að 150 íbúðir í tveggja hæða raðhúsum. Enn er ekki tímabært að ákveða nánar, hvernig staðið verður að þessum framkvæmdum. En þó má telja sennilegt, að þeim verði skipt niður í þrjá framkvæmdaáfanga og að við hvern áfanga verði einn aðalverktaki og nokkrir undirverktakar, en önnur skipting kæmi þó vissulega til álita. Um útboð á þessum framkvæmdum er einnig of snemmt að fullyrða nokkuð á þessu stigi málsins, en í þeim efnum mun framkvæmdanefndin hafa hugfast það ákvæði reglugerðarinnar um íbúðarbyggingar ríkisins og Reykjavíkurborgar, þar sem segir, að fela skuli framkvæmdirnar viðurkenndum byggingarverktökum á samkeppnisgrundvelli og með sem viðtækustum útboðum, eftir því sem hagkvæmt þykir.

Í sjöunda lagi er spurt: Hefur verið umrætt eða fyrirhugað, að sams konar byggingaráætlanir og Breiðholtsáætlunin verði gerðar í öðrum bæjarfélögum? Svar: Framkvæmdanefndir hafa þegar verið settar á fót í Sauðárkrókskaupstað, Siglufjarðarkaupstað og Akureyrarkaupstað. Skipun slíkrar n. er í undirbúningi í Húsavíkurkaupstað og Selfosskauptúni. Hlutverk þessara n. er að svo stöddu rannsókn og athugun á íbúðarþörfinni og fjáröflunarmöguleikum, svo og nákvæm áætlunargerð um væntanlegar byggingarframkvæmdir. Ósk Kópavogskaupstaðar um hlutdeild í byggingarframkvæmdum ríkisins og Reykjavíkurborgar, sem nú er unnið að, er í athugun.

Í áttunda lagi er spurt: Er áformað að fella burt vísitöluálag á vexti og afborganir húsnæðislána? Svar: Af ýmsum ástæðum hafa viðhorfin til vísitölubundinna lána breytzt, m.a. vegna þess, að verðlagsuppbót er nú ekki lögbundin við kaupgreiðsluvísitölu. Það er nú í athugun, hversu bregðast skuli við þessum nýju viðhorfum, en ákvörðun um þetta efni verður ekki tekin fyrr en þessar athuganir liggja fyrir.

Ég vænti þess, að það, sem ég hér nú hef sagt, fullnægi þeim óskum hv. fyrirspyrjanda, sem að baki fsp. Liggja.