26.01.1968
Sameinað þing: 30. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í D-deild Alþingistíðinda. (3105)

196. mál, lánveitingar úr Byggingasjóði ríkisins

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Þetta verður að vera stutt að sjálfsögðu, en ég get ekki stillt mig um að benda hérna á tvennt. Annað hefur raunar hv. 4, þm. Austf., sem talaði næstur á undan mér, dregið fram, og get ég því verið stuttorður um það, en það er þetta að ég skildi það þannig, og ég hygg, að flestir aðrir hafi skilið það svo, að útvega ætti sérstaklega fjármuni til þess að byggja íbúðirnar í byggingaráætluninni í Breiðholtinu, og það ætti ekki að taka það fé frá almenna íbúðakerfinu. En nú kemur í ljós, að það eru 86 millj., sem búið er að taka frá almenna íbúðakerfinu með þeim afleiðingum, að það kerfi er algjörlega sprungið, hreinlega sprungið, því það kalla ég sprungið kerfi, þegar bollalagt er nú um það, hvernig eigi að svara umsóknum, sem komu fyrir 15. marz 1967, og svörin eru helzt ráðgerð þau, að menn eigi að fá einhverja úrlausn í sept. 1968. Þetta er vitaskuld alveg sprungið kerfi.

Vitanlega voru erfiðleikar miklir 1955, 1956 og 1957 o.s.frv., en maður getur ekki séð, hvað það kemur þessu máli við. Þá var þetta íbúðalánakerfi í algjörri bernsku, var verið að fitja upp á því og þess vegna eðlilegt, að það væri ekki mikils megnugt fyrst í stað En nú er búið að vera að byggja þetta upp um langa hríð, og ég geri ráð fyrir því, að menn hafi verið farnir að vonast eftir því, að þessi mál væru að færast í betra horf. En þá er rokið til og í raun og veru borað gat á kerfið með þessu móti, svo það virðist vera að sökkva.

Ég sé ekki annað en fyrsta atriðið í þessu máli nú sé krafa til hæstv, ríkisstj. um, að hún afli sérstaklega fjár til þess að halda áfram með byggingaráætlunina, eins og samið var um við verkalýðsfélögin, og borgi til baka a.m.k. eitthvað verulegt af því, sem búið er að taka frá íbúðalánakerfinu. Og þannig gæti þetta gengið á eðlilegan hátt.

Síðara atriðið, sem ég ætla að minnast á, er þetta, að það eru talsvert ólíkar ráðagerðir um afgreiðslu núna frá íbúðalánakerfinu, þeim sem voru uppi í fyrra um þetta leyti. Þá var gert ráð fyrir að taka öðruvísi á þessum málum, og voru þá ráðgerðar miklar lánveitingar og allt önnur og miklu greiðari svör en nú eru ráðgerð. Hvers vegna skyldi það hafa verið? Líklega stendur það að einhverju leyti í sambandi við það, að það átti að kjósa s.l. vor, og þá stóð ekki á svörunum. Menn skyldu fá lán, miklu meira en fyrirhugað hafði verið o.s.frv., og allur var tónninn annar. Ég er smeykur um, að það hafi ekki verið gefnar út tilkynningar um það í febrúarmánuði í fyrravetur, að menn yrðu að bíða þangað til í sept. um haustið eða kannske þangað til eftir hálft annað ár eftir því að fá einhverja úrlausn. Þá voru peningar til, þá reyndist mögulegt að útvega peninga í kerfið, og við trúum því, að það sé hægt enn, ef einhver vilji er fyrir hendi og einhver myndarskapur til. Við trúum því, að það sé hægt, eins og það var hægt í fyrra og við ætlumst til, að það sé gert, eins og það var gert þá. Við ætlumst til, að þessi mál séu framkvæmd á sama hátt þegar kosið er og þegar ekki er kosið Við ætlumst til þess af valdhöfunum, að þeir láti það ekki ráða gerðum sínum, hvort það á að ganga til kosninga eftir 2 eða 3 mánuði, heldur vinni þeir að þessum málum heiðarlega og af alvöru. Það þýðir ekkert að segja okkur, að það, sem hægt var að gera í fyrra í þessu tilliti, sé ekki hugsanlegt að gera núna.

Það voru erfiðleikar þá, og það eru erfiðleikar einnig nú, en ekki svo miklir, að ekki sé hægt að ná saman talsverðu fé til íbúðalána.