26.01.1968
Sameinað þing: 30. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í D-deild Alþingistíðinda. (3107)

196. mál, lánveitingar úr Byggingasjóði ríkisins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það er nú ekki tími til mikilla umr, hér um þetta enda verður það að bíða. Mér sýnist, að það, sem formaður framkvæmdanefndar byggingaráætlunar, sá sem var nú að tala á undan mér sagði um þetta mál, staðfesti fyllilega það, sem ég sagði. Hann verður auðvitað að viðurkenna það, þó að hann segði það í ákveðnu formi, að samið hefði verið um byggingu á 1250 íbúðum á 5 árum og það yrði ekki staðið við það. Sannleikurinn var sá, að það var samið um að byggja 250 íbúðir á ári í næstu 5 ár, en ekki bara 1250 íbúðir á 5 árum, og það eru þegar liðin fullkomlega 2 árin og ekki flutt inn í neina íbúð. Menn hafa sennilega gert sér grein fyrir því, þegar þeir sömdu þetta að það mundi bæði þurfa að teikna húsin, sem ætti að byggja — en það átti reyndar að gera á miklu ódýrari hátt en hjá öðrum og gera annað af því, sem þessi hv. þm. minntist hér á. En sem sagt, þegar svona stendur á, er vitanlega alveg ómögulegt, að sá ráðh., sem hefur með þessi mál að gera, og líka reyndar formaður þeirrar framkvæmdanefndar, sem stendur að þessu, komi hér upp og segi, að við allt hafi verið staðið, því að það er auðvitað ekkert um það að villast, að það hefur ekki verið staðið við þetta. Og það, sem verst er, er það, eins og hér hefur verið upplýst, að ekki hefur verið útvegað fjármagn til þess að standa undir þessum framkvæmdum. Og það er í rauninni mjög alvarlegt, þegar formaður þessarar byggingaráætlunar talar um það, að það hafi ekki staðið á ríkisstj. í einu né neinu, þegar hann veit það, að hún hefur ekki enn þá útvegað neitt fjármagn til þess að standa að þessum framkvæmdum. Vitanlega hefur þetta allt saman eflaust gengið seinna vegna þess, að það hefur skort fjármagn. Og þeir, sem starfa að þessum málum, hafa ábyggilega gert sér grein fyrir því, að það er verið að taka hér fjármagn frá öðrum framkvæmdum, sem var búið að áætla áður í þessar framkvæmdir, taka frá þeim, sem búa við lakari lánakjör, og færa yfir til hinna, af því að það stendur á því, að ríkisstj. standi við sitt samkomulag. Það er mergurinn m álsins. Þeir, sem búa við þau lánakjör, geta mest fengið 30% lán af byggingarkostnaði. Þeir fá sín lán ekki afgreidd, af því að það er tekið fé út úr hinu almenna veðlánakerfi til þess að standa undir framkvæmdum, sem á að veita 80% lán út á og sem ríkið hafði samið sérstaklega um byggingu á.

Ég vildi fyrir mitt leyti vekja athygli á þessu, og þetta sýnist mér, að hafi komið hér svo skýrt fram, að það verði ekki undan vikizt. Ég vil vænta þess, að hæstv. félmrh. reyni að leggja sig fram um það að kippa þessu í liðinn eins og hægt er. Það er útilokað, að við það verði unað áfram, að það verði tekið fé á þann hátt, sem gert hefur verið, úr hinu almenna veðlánakerfi til þess að standa undir þessum þörfu og ágætu framkvæmdum, sem nú fara fram í Breiðholti. Það væri að mismuna mönnum á landinu alveg herfilega, og það er líka brot á samkomulagi, sem gert var við verkalýðsfélögin á miðju ári 1965. Það mun ekki fást einn einasti maður, sem stóð að því samkomulagi, til þess að halda því fram, að gert hafi verið ráð fyrir því, að í sambandi við þær byggingar ætti að taka fé úr hinu almenna veðlánakerfi frá öðrum, sem það hafi verið ætlað, og það verði fært á þennan hátt til. Það er a.m.k. rétt þá, að það komi fram, ef það er meining ríkisstj. að standa þannig að málunum, að hún viðurkenni þá, að þetta sé hennar meining. En ég á erfitt með að trúa því, að ríkisstj. haldi því fram, því að þá ætlar hún að fara að túlka hér allt annan skilning á þessu samkomulagi en þeir hafa gert, sem að samkomulaginu stóðu. Ég sem sagt endurtek svo þá áskorun mína til ráðh., að hann reyni að leggja sig fram um það að kippa þessu í liðinn, útvega fjármagn til Breiðholtsframkvæmdanna, svo að hægt verði að standa við þau loforð, sem þar voru gefin, og til þess að hið almenna veðlánakerfi geti þá haldið þeim tekjustofnum, sem því voru ætlaðir, og þeir fengið lán úr því kerfi, sem þar áttu að fá lán.