26.01.1968
Sameinað þing: 30. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í D-deild Alþingistíðinda. (3111)

196. mál, lánveitingar úr Byggingasjóði ríkisins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson) :

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja mikið þessar umr., sem þegar eru orðnar alllangar, en kemst þó ekki hjá því að víkja örlítið að örfáum atriðum í umr., sem þegar hafa átt sér stað, frá því að ég talaði hér síðast.

Ég vil í upphafi taka það skýrt fram í sambandi við hálfgerðar aðdróttanir hv. 6. þm. Reykv. um, að ég hafi ekki farið hér með réttar tölur, að þessar tölur eru fengnar hjá skrifstofu húsnæðismálastjórnar og voru fyrir þá lesnar aftur, eftir að vélrituð höfðu verið þau svör, sem ég las áðan hér upp, án þess að nokkrar aths. kæmu frá þeim.

Varðandi það, að ekki hafi verið staðið við hraðann í byggingarframkvæmdunum í Breiðholti, þarf ég heldur ekki að eyða orðum að þar hefur hv. 3. landsk. þm. gert þeim hlutum skil þvert ofan í fullyrðingar annarra ræðumanna um, að ríkisstj. hefði látið standa á fé. Það væru m.ö.o. svik af hendi ríkisstj. Það er eigi að síður staðreynd, að ríkisstj. hefur staðið við allar sínar skuldbindingar í sambandi við þessar framkvæmdir.

Varðandi svikin, sem hv. 4. þm. Austf. talaði um í sambandi við aukna lánsfjárútvegun, vil ég í fyrsta lagi minna á það, að hér var í upphafi ekki um að ræða eiginlega samninga varðandi húsnæðismálin milli verkalýðshreyfingarinnar og ríkisstj. Ég hafði þá ekki tekið við þessu núv. starfi mínu, en ég átti hins vegar þátt í þeim viðræðum, sem um þetta fóru fram, og fyrirkomulagið, sem á þessu var haft, var einhliða yfirlýsing ríkisstj., sem verkalýðshreyfingin hins vegar lýsti yfir, að hún mæti nokkurs og mikils í þeim kjarasamningum, sem hún stóð í. Þannig bar þetta að. Þetta er e.t.v. meira formsatriði, en það er rétt, að þetta komi fram, því að menn tala yfirleitt alltaf um þetta sem samningagerð, og mig minnir meira að segja, að það hafi verið ósk verkalýðshreyfingarinnar sjálfrar, að þessi þáttur yrði á hafður.

Aðalverkefnið í þessum viðræðum var hins vegar það, hvernig tryggja mætti ákveðna lágmarkstölu almennra lána, þó að út í slíkar framkvæmdir yrði langt, eins og nú er orðin staðreynd með Breiðholtsframkvæmdunum. Og það var okkar allra mat í þessum viðræðum, að það yrði að tryggja a.m.k. 750 full lán á ári með ákveðinni stigahækkun eftir vísitölu, sem fylgdi verðlagi, en hún var þá einnig sett í lög að loknu þessu samkomulagi, og það fé, sem þar yrði umfram, yrði hins vegar notað í hinar almennu framkvæmdir. Það var sett sem skilyrði af hálfu þeirra fulltrúa verka lýðshreyfingarinnar, sem utan af landsbyggðinni voru, að þetta yrði ekki einskorðað við Reykjavík, heldur yrði opið fyrir framhaldandi framkvæmdir strax eftir að einhver reynsla væri fengin í Reykjavík. Og þetta var enn fremur sett inn í l.

Það eina í þessum áætlunum öllum, sem gerðar voru á árunum 1964 og 1965, sem hefur brugðizt, er þátttaka lífeyrissjóðanna í hinum almennu lánveitingum. Við gerðum þar ráð fyrir, að lífeyrissjóðirnir tækju að sér ákveðinn dánafjölda á ári með því að mynda sjálfir sitt eigið sameiginlega kerfi. En þeir vildu ekki sætta sig við það og vildu reka áfram starfsemi sína hver í sínu lagi og án þess að bindast neinni sérstakri einni lánastofnun, hvorki húsnæðismálastofnun eða annarri stofnun, jafnvel þótt þeir ættu að mynda hana sjálfir. Þetta er eina atriðið, sem hefur brugðizt í þessum áætlunum. Við aðra hluta hefur verið staðið.

Ég skal hins vegar fúslega taka undir þær frómu óskir, sem fram hafa komið í þessum umræðum, að ég vildi og á þá ósk heitasta í þessum efnum, að hægt væri að ná því marki aftur að eyða þeim biðröðum, sem skapazt hafa á hinum almenna lánamarkaði húsnæðismálastjórnar, og ég þakka það traust, sem hv. 4, þm. Austf. lýsti yfir í minn garð um þá hluti, og ég efast ekki um, að ég fái liðveizlu hans í þeim efnum. En það er auðvitað það æskilegasta ástand, sem getur ríkt í þeim efnum, að hægt sé að fullnægja öllum.

Þó að hv. þm. Ingvar Gíslason kunni því illa, að gerður sé samanburður á milli ára í starfsemi húsnæðismálastofnunarinnar, eins og gert er yfirleitt um alla starfsemi í landinu, verða staðreyndir í þessum efnum að tala. Það er staðreynd, að margir þeirra manna, sem í dag tala hæst um hennar vanda þögðu þunnu hljóði, þegar þessi vandi var miklu meiri. Það er talað um það hér af miklum meðaumkunarhita að óvissan sé það allra versta í þessum efnum. Þetta er alveg hárrétt. Óvissan er það allra versta í þessum efnum. En ég spyr: Hefur þessi óvissa aukizt á síðari starfsárum húsnæðismálastjórnar frá því, sem hún var áður? Vitanlega dettur engum hv. þm. í hug að halda því fram. Úr þessari óvissu hefur dregið. Hún hefur ekki aukizt.

Ég skal að öðru leyti ekki eltast við einstök atriði. Það er óheppilegt að ræða jafnviðamikið mál og hér er um að ræða í fsp.-tíma en til þess gefast e.t.v. tækifæri síðar að ræða það í einstökum atriðum.