31.01.1968
Sameinað þing: 32. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í D-deild Alþingistíðinda. (3120)

96. mál, gengishagnaður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þegar gengi íslenzkrar krónu var breytt í nóv. s.l. og gengi alls erlends gjaldeyris hækkaði í kjölfar þess eða um leið, þurfti að sjálfsögðu að endurmeta nettógjaldeyriseign bankakerfisins erlendis. Þetta var gert, og hækkaði verðmæti gjaldeyrissjóðsins erlendis í íslenzkum krónur reiknað um 236.5 millj. kr. Þegar gengi íslenzku krónunnar var breytt næst þar á undan eða 1961, átti þjóðin einnig nokkurn gjaldeyrisvarasjóð og þó ekki nema lítinn hluta þess, sem hún átti í nóv. s.l., en þá hækkaði gengi þess sjóðs, þá hækkaði krónutala þess sjóðs um 6.5 millj. kr. Þegar gengisbreytingin 1960 var gerð, skuldaði landið, skulduðu Íslendingar, skuldaði bankakerfið hins vegar erlendis verulega upphæð. Við það endurmat skuldanna, sem þá fór fram, versnaði þess vegna staðan gagnvart útlöndum um 190.4 millj. kr. Skuldin hækkaði í íslenzkum kr. um 190.4 millj. kr. Allar þessar breytingar á krónutölu erlendra eigna og erlendra skulda hafa verið færðar á einn reikning í Seðlabankanum. Hækkun erlendu skuldanna 1960 um 190.4 millj. kr. hefur síðan smám saman verið lækkuð á undanförnum árum, þannig að í nóv. s.l. voru eftirstöðvar þessarar tölu 33 millj. kr. Þegar tekið er síðan tillit til varasjóðsins 1961 og hækkunarinnar nú í nóv. s.l., verður nettóstaðan á þessum gengisbreytingarreikningi í Seðlabankanum sléttar 220 millj. kr.

Í þessu sambandi er rétt að vekja sérstaka athygli á því, að í raun og veru er villandi að tala um gengishagnað hjá bankakerfinu í sambandi við gengisbreytinguna. Gjaldeyrisbankarnir eru opinber fyrirtæki, þeir eru ríkiseign, og þjóðarbúskapurinn í heild hagnast ekki neitt á þeirri stundu, er gengi íslenzkrar krónu er breytt gagnvart erlendum gjaldeyri. Staða Íslands gagnvart umheiminum batnar ekki neitt. Fyrir erlenda gjaldeyrinn getur þjóðin ekki keypt fleiri kíló af matvöru en áður, ekki fleiri metra af vefnaðarvöru, ekki meiri hráefni, ekki fleiri skip. Það er bókhaldsatriði innanlands, hversu margar krónur við teljum í hverjum dollar eða hverju sterlingspundi. Þótt við aukum krónutöluna í hverjum dollar og hverju sterlingspundi, eykur það ekki kaupmátt okkar í útlöndum, því að þar greiðum við með dollurum og pundum t.d., en ekki með krónum. Hitt er svo annað mál, að breyting á krónutölunni í hverjum dollara og pundi, þ.e.a.s. gengisbreyting, getur haft hagstæð áhrif á þjóðarframleiðsluna, þegar frá líður, og þannig bætt stöðu þjóðarinnar framvegis. Það tekur tíma, og það er auðvitað tilgangur hverrar gengisbreytingar. Í því er fólginn raunverulegur hagnaður af henni, ef hún heppnast. En á þeirri stundu, sem hún er framkvæmd, myndast enginn hagnaður, þótt þjóðin eigi erlendan gjaldeyri, og ekki verður heldur neitt tap hjá þjóðarheildinni, þótt hún skuldi í erlendum gjaldeyri, þegar gengisbreytingin fer fram. Raunveruleg byrði skuldarinnar er óbreytt. Einstaklingur tapar hins vegar að sjálfsögðu, ef hann skuldar erlendis, þegar gengi erlends gjaldeyris hækkar, eins og einstaklingur græðir undir sömu kringumstæðum, ef hann á erlendan gjaldeyri. Hér verður að greina skýrt og ljóst milli áhrifa gengisbreytingar á hag einstaklinga annars vegar og þjóðarbúsins hins vegar. Þar eð gjaldeyrisbankarnir hér á landi eru allir ríkiseign, er hagur þeirra að þessu leyti hagur þjóðarbúsins. Hjá einkabanka væri hins vegar hægt með réttu að tala um hagnað eða tap í sambandi við erlendar inneignir eða skuldir, þegar gengisbreyting verður.

Rétt er enn fremur að vekja sérstaka athygli á því, að í nóv. breyttist ekki aðeins gengi íslenzkrar krónu gagnvart erlendum gjaldeyri, heldur breyttist einnig sterlingspundið og nokkrar aðrar gjaldeyristegundir gagnvart öðrum gjaldeyri, sem notaður er í heimsverzluninni. Kaupmáttur sterlingspunds og fleiri gjaldeyristegunda í heimsviðskiptum minnkaði þess vegna skyndilega. Mjög erfitt er að meta nákvæmlega, hver þessi kaupmáttarrýrnun sterlingspundsins og þeirra mynta sem því fylgdu, er raunverulega. Það er komið undir áhrifum breyttrar samkeppnisaðstöðu í heimsviðskiptunum á verðlag i heiminum. En það er auðvitað óumdeilt, að gildi pundsins og þeirra mynta, sem því fylgdu, hefur minnkað. Allar þjóðir, sem áttu sterlingspund, urðu því fyrir nokkru tjóni við gengislækkun pundsins. Um það bil helmingur gjaldeyriseignar Íslendinga var og er í pundum. Af þeim sökum hafa Íslendingar orðið fyrir tapi, gengistapi, ekki vegna gengislækkunar krónunnar, heldur vegna gengislækkunar pundsins. Á móti því tapi kemur hins vegar það, að Seðlabankinn hefur fengið mun hærri vexti af pundaeign sinni en dollaraeign sinni, svo að erfitt er að dæma um, hvort hagkvæmara hefði verið að eiga allan gjaldeyrisvarasjóðinn í t.d. dollurum. Fyrir fram hlaut slíkt að sjálfsögðu að teljast mjög ólíkt.

Með þessum orðum vona ég, herra forseti, að ég hafi svarað efnisatriðum fsp.