31.01.1968
Sameinað þing: 32. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 610 í D-deild Alþingistíðinda. (3121)

96. mál, gengishagnaður

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Jósefsson) :

Herra

forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir þær upplýsingar, sem hann hefur hér gefið um þennan gengishagnað, sem bankakerfið hefur haft í sambandi við gengislækkunina sem gerð var á íslenzkri krónu 24. nóv. s.l. Ég ætla ekki að fara að ræða hér um neina fræðilega útskýringu á því, hvað sé gengishagnaður og hvað ekki gengishagnaður, en það, sem um er að ræða, er það, að vegna gengisbreytingarinnar hefur bankakerfið út af fyrir sig og þá fyrst og fremst Seðlabankinn hagnazt í íslenzkum krónum talið um 236.5 millj. kr. við þessa breytingu, 236.5 millj. kr., sem auðvitað gefur sinn kaupmátt hér gagnvart innlendum hlutum, eins og t.d. innlendu vinnuafli, á allt annan hátt en áður var. En það voru aðeins þessar staðreyndir, sem ég vildi fá fram. Hitt var svo nokkuð sérstakt atriði, sem að vísu var í l. hér frá Alþ. varðandi ráðstöfun á þessum peningum, hvernig sá mismunur, sem verið hefur í sérstöku bókhaldi frá fyrri gengislækkunum 1960 og 1961, er settur inn á þennan reikning. Það er í rauninni allt annað mál, en þetta er sá mismunur, sem fram kemur í ísl. kr. talið við gengisbreytinguna, 236,5 millj.

Ég þakka svo hæstv. ráðh. fyrir þessi svör.