31.01.1968
Sameinað þing: 32. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í D-deild Alþingistíðinda. (3122)

96. mál, gengishagnaður

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Í framhaldi af þeirri fsp., sem hér hefur verið til umr., vildi ég mega spyrja hæstv. viðskmrh. um, hvort fyrir lægju nokkrar bráðabirgðatölur um þann gengishagnað, sem mundi fást af útfluttum sjávarafurðum í samræmi við lög, sem Alþ. afgreiddi 18. des. s. l.

Þegar þau lög voru afgreidd hér á Alþ., var viðhorfið talsvert öðruvísi en það er nú. Þá var talið, að gengislækkunin mundi tryggja svo afkomu sjávarútvegsins, að hann þyrfti ekki á neinum styrkjum að halda, og þess vegna var það samþ. hér af meiri hl. Alþ., að verulegur hluti eða mestur hluti af gengishagnaði af útflutningi sjávarafurða frá árinu 1967 yrði lagður í sérstakan sjóð, sem síðar rynni svo aftur í fiskveiðasjóð og sérstakan verðjöfnunarsjóð. Enn fremur voru felld niður úr fjárlögum öll framlög til útflutningsuppbóta hvað sjávarútveginn snerti, og einnig voru gefin fyrirheit um mjög verulega tollalækkun. Nú skilst mér, að það blasi við, að það þurfi að borga sjávarútveginum verulegar uppbætur, og þess vegna er ástandið í dag orðið allt annað en þegar lög um ráðstöfun á gengishagnaði sjávarútvegsins voru samþykkt. Maður sér það í blöðum, að ríkisstj. gerir jafnvel ráð fyrir því, og það hefur líka komið fram hér á Alþ., að það verði horfið frá því fyrirheiti, sem gefið var um tollalækkun, vegna þeirra uppbóta sem búið sé að lofa sjávarútveginum. Mér finnst, að þetta hljóti að leiða til þess, að lög um ráðstöfun á gengishagnaði sjávarútvegsins verði tekin til sérstakrar endurskoðunar, og það m.a. athugað, hvort ekki sé rétt að láta nokkurn hluta þessa gengishagnaðar renna til uppbóta þeirra sem búið er að lofa bátaútveginum og frystihúsunum, og það sé miklu hyggilegri leið að gera það en hverfa frá þeirri tollalækkun, sem búið var að lofa því að af tollalækkuninni hlýzt mikill árangur, sem þjóðin hefur vissulega þörf fyrir. Í fyrsta lagi mundi verða nokkur verðlækkun henni samfara, og svo í öðru lagi væri hægt að veita iðnaðinum aðstoð og styrkja hann til að auka atvinnustarfsemina í landinu.

Mér fannst rétt að 1áta þetta sjónarmið koma fram hér, að viðhorfið hafi verið allt annað, þegar lög um gengishagnað á útflutningi sjávarafurða voru hér samþ., og þess vegna eigi að taka lögin til endurskoðunar með tilliti til þess og a.m.k. eigi miklu fremur að gera það en að hverfa frá þeirri tollalækkun, sem búið var að lofa þjóðinni.

Ég skal svo ekki lengja þetta mál meira, en endurtek þá fsp. mína til hæstv. ráðh., hvort fyrir liggi nokkrar bráðabirgðatölur um það hver gengishagnaðurinn verði á útflutningi sjávarafurða samkv. áðurnefndum lögum.