07.02.1968
Sameinað þing: 34. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í D-deild Alþingistíðinda. (3130)

109. mál, bandaríska sjónvarpið

Jónas Árnason:

Herra forseti. Þegar sjónvarpsmálið kom til umr. hér á Alþ. 1962, þá var því m.a. haldið fram, að sendikraftur bandaríska sjónvarpsins á Keflavíkurflugvelli væri svo lítill, að tæknilega séð gæti hann ekki minni verið og það væri ógjörningur að takmarka hann við herstöðina eina. Þeir, sem einkum héldu þessu fram, voru þáv. hæstv. utanrrh., Guðmundur Í. Guðmundsson, og formaður hins íslenzka útvarpsráðs, hv. 5. þm. Vesturl.

Síðan hefur sannazt, að fullyrðingar þessar voru næsta hæpnar, svo að ekki sé meira sagt. Í flokksmálgagni þessara tveggja manna sem ég var að nefna, var til að mynda lýst yfir þeirri skoðun nú fyrir stuttu, eins og hv. 6. þm. Reykv. vék að hér áðan, að ef bandaríska herstjórnin á Keflavíkurflugvelli drægi það lengur að standa að fullu við fyrirheit sitt um takmarkanir á sjónvarpssendingum, yrði að ganga hreint til verks og fyrirskipa henni að taka upp svokallað lokað dreifingarkerfi, en það er að því leyti líkt símakerfi, að sendingar fara ekki um loftið, heldur eftir þráðum frá viðkomandi sjónvarpsstöðvum og til þeirra húsa, sem eiga að njóta útsendingar þeirra. Þetta lokaða dreifingarkerfi hefði auðvitað verið hægt að nota frá upphafi, þó að sá aðilinn, sem nú bendir á það sem heppilegustu lausn á þessum málum, virtist ekki hafa hugmynd um það eða léti svo sem hann hefði ekki hugmynd um það, þegar mál þessi voru til umr. hérna 1962.

Ýmsir mætir menn úr öllum stjórnmálaflokkum hafa látið sjónvarpsmálið til sín taka, hafa fordæmt hneykslanlega framkomu íslenzkra ráðamanna í þessu máli og krafizt þess, að þeir yrðu látnir svara til saka fyrir blekkingar þær, sem þeir leyfðu sér að beita í tilraunum til þess að afsaka hneykslið, og væri sannarlega ekki vanþörf á slíku. En ég vil nota þetta tækifæri til að benda á það, að blekkingar í sambandi við hernámsmálin eru engin ný bóla. Sú saga hefst með Keflavíkursamningnum 1946. Mér gefst ekki tími til að rekja hana nákvæmlega allar þær blekkingar, sem t.d. var beitt í sambandi við Keflavíkursamninginn. En árið 1949, þegar Íslendingar sögðu skilið við hlutleysisstefnu sína og gengu í hernaðarbandalag, var því hátíðlega lýst yfir af hálfu stjórnarvalda, að hér yrði aldrei her á friðartímum. Það reyndist helber blekking. Aðeins tveim árum síðar eða árið 1951 fengu Bandaríkin leyfi til þess að hreiðra um sig á ný með herafla á Keflavíkurflugvelli. Stjórnarvöldin lýstu því yfir, að þetta hefði verið gert vegna bráðrar hættu á árás af hálfu Rússa svo bráðrar meira að segja, að þjóðin fékk ekkert að vita um samning stjórnarvaldanna við Bandaríkjamenn fyrr en herinn var kominn, þ.e.a.s. að morgni 7. maí 1951. Og stjórnarvöldin lýstu því yfir, að þessari leynd hefði verið haldið af öryggisástæðum, því að ella hefðu Rússar e.t.v. rokið til og hernumið okkur á undan Bandaríkjamönnum. Allt þetta var að sjálfsögðu líka helber blekking. En Bandaríkjamenn höfðu á ný náð fótfestu á Keflavíkurflugvelli, og þessi staður þar syðra breytti æ meira um svip. Ísland hvarf úr svipmóti hans, en í staðinn reis þarna upp fjölmennt bandarískt byggðarlag.

Stjórnarvöldin fullyrtu, að þessu mundi engin hætta fylgja fyrir þjóðlegar erfðir okkar og menningarlegt sjálfstæði. Það reyndist líka helber blekking: Það leið ekki á löngu þangað til herliðið á Keflavíkurflugvelli var farið að starfrækja útvarpsstöð og braut þar með, eins og hv. 6. þm. Reykv. benti hér á áðan, þvert gegn ákvæðum íslenzkra laga um einkarétt ríkisins á slíkri starfrækslu. Og stjórnarvöldin létu sér það vel líka, eða a.m.k. afskiptalaust, að þessi bandaríska útvarpsstöð haslaði sér völl meðal æskulýðsins hér á þéttbýlissvæðinu við Faxaflóa og keppti við íslenzka útvarpið um hylli hans með léttmeti ýmiss konar og öðrum hégóma.

Og svo kom sem sé sjónvarpsmálið til sögunnar. Ég hef ekki tíma til þess að rekja blekkingarnar, sem beitt var í sambandi við það, nánar heldur en ég hef þegar gert. En ég vildi sem sé aðeins nota þetta tækifæri til að benda á það, að þó að ýmsir menn tali nú um nauðsyn þess, að sú saga sé rakin, og menn látnir svara til saka fyrir þær blekkingar, sem þeir hafa beitt í sambandi við þetta mál og vissulega er ekki vanþörf á, þá eru ýmis fleiri mál í sambandi við hernámið, sem sannarlega þarfnast rannsóknar, og kominn tími til þess að þjóðin fái að vita sannleikann um þær blekkingar, sem beitt hefur verið í sambandi við þau.

Mér dettur ekki í hug, að íslenzk stjórnarvöld hafi alltaf gert sér grein fyrir því, að þau voru að beita þjóðina blekkingum í sambandi við þessi mál. Ég er sannfærður um það, að þau höfðu oft verið blekkt sjálf. T.d. er ég viss um það, að margir þeirra manna, sem tóku á sig ábyrgðina á því, að við sögðum skilið við hlutleysisstefnu okkar og gengum í hernaðarbandalag 1949, já, og ábyrgðina á hernáminu aftur 1951, margir þessara manna voru sjálfir blekktir af einhverjum leynilegum boðskap frá þeim volduga aðila, sem þarna var fyrst og fremst að fá framgengt hagsmunum sínum.

Það er sem sé ekki tími til að ræða þetta nánar að sinni. Ég verð að láta það bíða betra tækifæris, sem væntanlega gefst, áður en langt um líður.