07.02.1968
Sameinað þing: 34. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 620 í D-deild Alþingistíðinda. (3132)

109. mál, bandaríska sjónvarpið

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Kjarninn í þessari fsp. var sá að slá því föstu, að mér skilst, að Bandaríkjamenn hefðu vanefnt sínar skuldbindingar í sambandi við sjónvarpið á Keflavikurvelli. Ég vil nú ekki kalla það, sem gerzt hefur í málinu, vanefnd, vegna þess að það hefur þegar verið byrjað, eins og lofað var, að takmarka útsendingarnar og niðurstaðan af þeirri könnun, sem hér hefur verið framkvæmd af útvarpsvirkjum og fagmönnum á þessu sviði, sýnir, að meira en 90% af þeim stöðum, sem mældir voru, sýna það, að þeir geta með engum hætti notið þessa sjónvarps og aðeins innan við 10% geta notfært sér það og þó ekki til fulls. Ég tel þess vegna að málið hafi fengið þá afgreiðslu, sem maður getur vænzt, og þegar því hefur líka verið heitið, að tilraunum verði haldið áfram með að takmarka útsendingarnar, þangað til enginn á Reykjavíkursvæðinu er fær um að njóta þeirra.

Út í efnisatriði, sem hér hefur verið rætt um, vegna varnarliðsins almennt, skal ég ekki fara heldur einungis halda mig við þessa fsp.