07.02.1968
Sameinað þing: 34. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í D-deild Alþingistíðinda. (3142)

198. mál, framkvæmdaáætlun fyrir Norðurland

Fyrirspyrjandi (Eyjólfur K. Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir svör þau, sem hann hefur gefið við fsp. minni og hv. 4, þm. Norðurl. v. Ég fagna því mjög, að skriður skuli vera kominn á gerð Norðurlandsáætlunarinnar, og einkum er það mikið fagnaðarefni, að ágætur maður hefur fengizt til að veita forustu þeirri, skrifstofu, sem að þessum málum vinnur norðanlands. Og þá er ekki síður ástæða til að fagna því, að þessi skrifstofa hefur verið staðsett á Akureyri, því að allt of mikil tilhneiging hefur verið til þess að staðsetja allar nýjar stofnanir í Reykjavik og jafnvel bryddað á því, að menn vildu flytja suður stofnanir, sem frá upphafi hafa verið staðsettar úti á landi, þótt ljóst sé, að einmitt slíkar ákvarðanir mundu mjög til þess fallnar að örva fólksflutninga suður á bóginn og skapa bæði þeim sveitarfélögum, sem við þessu fólki eiga að taka, og eins hinum, sem skilin eru eftir fámennari en ella hefði verið og fjárvana, margvísleg vandamál og áreiðanlega, þegar til lengdar lætur, verða þjóðarheildinni mun dýrari en sú byggðastefna, sem nú nýtur vaxandi stuðnings.

Ég vil líka fagna því, að yfirstjórn framkvæmdaáætlunar Norðurl. skuli vera í höndum hæstv. fjmrh., því að um það eru allir sammála hvað sem þeir kunna að telja sér henta að segja af pólitískum ástæðum, að enginn maður hefur meiri áhuga á því en einmitt hæstv. núv. fjmrh., að Norðurlandsáætlunin nái tilætluðum árangri. Og vissulega þarf sá árangur að verða mikill. Kemur þar að sjálfsögðu fyrst og fremst til öflug uppbygging á sviði sjávarútvegs og fullvinnslu sjávarafurða auk þess sem fiskileit þarf að efla fyrir Norðurlandi. Síldarflutninga þarf og að auka, ekki einungis til bræðslu, heldur einnig til söltunar, og ástæða er til að ætla, að rækjulest geti borið mikinn árangur. Síldarsöltun mun nú á komandi sumrum verða meiri um borð í veiðiskipum en hingað til hefur verið, og þá síld á að flytja á Norðurlandshafnir til geymslu og frekari vinnslu.

Ýmsir kaupstaðir og kauptún norðanlands eru mjög vel fallin til margháttaðs iðnaðar. Þar er gott og stöðugt vinnuafl, sem nýta þarf betur en hingað til hefur verið gert. Það eru uppi margar hugmyndir um iðnað, svo sem sútunarverksmiðju, auknar skipasmíðar auk margháttaðs smærri iðnaðar, og síðast en ekki sízt er sjálfsagt að rannsaka mjög gaumgæfilega, hvort ekki gæti reynzt unnt að staðsetja einhver stóriðjufyrirtæki úti á landi, en stóriðja er eitt meginviðfangsefni framtíðarinnar á atvinnusviðinu, hvað sem líður sjónarmiðum afturhaldsmanna. Í kjölfar byggingar sjóefnaverksmiðju og olíuhreinsunarstöðvar munu koma margháttuð tækifæri til efnaiðnaðar og frekari hagnýtingar vatns- og hitaorku. Þau tækifæri á að nota til að koma upp öflugum iðnaði sem víðast úti um land. Og á sama hátt verður álið frá álbræðslunni í Straumsvík undirstaða mikilvægs iðnaðar úr þessum þýðingarmikla málmi.

Það er sannfæring mín, að það átak, sem nú verður gert til atvinnuuppbyggingar á Norðurlandi, muni ekki tákna aukin útgjöld fyrir þjóðarheildina heldur þvert á móti stuðla að mikilli auðæfasköpun, er fram líða stundir, og vissulega væri ástæða til verulegrar erlendrar lántöku til þess að hrinda þessu mikilvæga verkefni í framkvæmd, eins og hæstv. fjmrh. vék raunar að í sinni ræðu. En þótt Norðlendingar hafi af eðlilegum ástæðum mestan áhuga á framgangi Norðurlandsáætlunarinnar, er síður en svo, að það sé neitt einkahagsmunamál þeirra hún er hagsmunamál allrar íslenzku þjóðarinnar.