07.02.1968
Sameinað þing: 34. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í D-deild Alþingistíðinda. (3143)

198. mál, framkvæmdaáætlun fyrir Norðurland

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Um það blandast nú engum hugur, að skipulegar framkvæmdaáætlanir um uppbyggingu í einstökum landshlutum eru hyggilegar og gagnlegar. Hafa margar nágrannaþjóðir okkar horfið að slíku ráði, ekki sízt Norðmenn, sem undanfarin ár hafa verið að framkvæma víðtæka áætlun um framkvæmdir í Norður-Noregi. Hér hjá okkur kemur hugmyndin um landshlutaáætlanir fyrst fram í till., sem við nokkrir þm. Sjálfstfl. og Framsfl. fluttum á Alþingi árið 1952. Í henni var m.a. komizt að orði á þessa leið:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hefja nú þegar undirbúning að heildaráætlun um framkvæmdir í þeim landshlutum, sem við erfiðasta aðstöðu búa sökum erfiðra samgangna og skorts á raforku og atvinnutækjum. Að slíkum undirbúningi loknum skal ríkisstj. leggja fyrir Alþ. tillögur sínar um nauðsynlegar framkvæmdir. Skulu þær stefna að því að skapa, og viðhalda jafnvægi í byggð landsins og tryggja sem mest framleiðsluafköst þjóðarinnar.“

Enda þótt þessi till. væri samþ., verður það að segjast í fullri hreinskilni, að árangur hennar varð ekki nægilega mikill næstu árin. Miklum framkvæmdum var að sjálfsögðu haldið uppi víðs vegar um land á sviði samgöngu-, raforku- og atvinnumála. En oft skorti þar um of heildaryfirsýn og skipulega framkvæmd uppbyggingarinnar.

En á árinu 1965 gerist það síðan, að núv. ríkisstj., í góðri samvinnu við stjórnarþm. á Vestfjörðum, hefur forustu um fyrstu landshlutaáætlun hérlendis. Í framhaldi af þáltill. frá Vestfjarðaþingmönnum., sem samþ. var á Alþ, 1963, er nú gerð 4 ára áætlun um skipulegar framkvæmdir í samgöngumálum Vestfjarða nánar tiltekið um vegagerðir, hafna og flugvallagerðir. Framkvæmdir samkv. þeirri áætlun eru nú komnar vel á veg. Hafnir hafa verið endurbyggðar, nýir vegir lagðir og flugvellir byggðir. Verður haldið áfram að ljúka þessum framkvæmdum á næstu einu til tveimur árum.

En eftir er enn að ljúka gerð Vestfjarðaáætlunar um uppbyggingu og framkvæmdir á sviði atvinnu-, félags- og menningarmála á Vestfjörðum. Fyrir liggur þó rammaáætlun um aðgerðir í þessum málum. Ber mikla nauðsyn til þess að ljúka þessari framkvæmdaáætlun hið allra fyrsta. Hef ég nokkrum sinnum flutt tillögur um það í stjórn Atvinnujöfnunarsjóðs, sem á að hafa forustu um gerð landshlutaáætlana, en mannafli hefur ekki verið fyrir hendi til þess að vinna þetta verk, eins og hæstv. fjmrh. minntist á í svarræðu sinni áðan. Efnahagsstofnunin hefur ekki getað annað því. Er það tvímælalaust skoðun mín, að óhjákvæmilegt sé að fá aukna starfskrafta til þess að sinna þessum mikilvægu viðfangsefnum, sem ekki má vanrækja eða draga á langinn. Hefur þetta að vissu leyti verið gert í sambandi við Norðurlandsáætlun, þar sem sérstökum manni, búsettum á Akureyri, hefur verið falið að vinna að gerð þeirrar áætlunar.

Landshlutaáætlanirnar eiga að verða grundvöllur alhliða uppbyggingar í þeim landshlutum, sem þær ná til. Þegar erfiðleikar, jafnvel atvinnuleysi, steðja að, er ekki hvað sízt nauðsynlegt að hraða þessum framkvæmdaáætlunum. Þéttbýlið er nú að fá sína stóriðju. Það gerir atvinnuskilyrðin þar fjölbreyttari, og afkomuna öruggari, og ber að sjálfsögðu að fagna því. En strjálbýlið þarf ekki síður á atvinnuöryggi og umbótum að halda. Það verður að skapa sem mest samræmi í lífskjörum og aðstöðu fólksins í þéttbýli og strjálbýli, ef við ætlum að nytja auðlindir landsins og halda uppi öflugri framleiðslustarfsemi í öllum landshlutum. Þess vegna er nauðsynlegt að hraða landshlutaáætlunum eftir fremsta megni og tryggja fjármagn til þeirra. eins og hæstv. fjmrh. benti réttilega á áðan. Ég vil því að lokum taka mjög undir þær raddir, sem komið hafa fram frá hv. fyrirspyrjendum í þessu máli, að lögð verði áherzla á að hraða landshlutaáætlun fyrir Norðurland og fyrir aðra þá landshluta þar sem óhjákvæmilegt er, að haldið verði áfram skipulegri uppbyggingu og umbótastarfsemi á komandi árum.