07.02.1968
Sameinað þing: 34. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í D-deild Alþingistíðinda. (3145)

198. mál, framkvæmdaáætlun fyrir Norðurland

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það er ánægjulegt að heyra þann byr, sem byggðastefnan hefur fengið og hefur um þessar mundir, og vonandi, að árangur verði mikill í því efni. Ég vil styðja það, að Norðurlandsáætlun sé hraðað og atvinnumál sett mjög á odd í því sambandi, og ég hygg, að okkur sé öllum ljóst, að á því er hin mesta þörf.

En ég vildi gjarnan leggja hér örfá orð í belg til þess að minna á Austurland sérstaklega í þessu tilliti og þá einkum, vegna þess, að það hefur komið fram hér í þessum umr., sem mér var ekki nógu vel ljóst áður. a.m.k. ekki til fullrar hlítar, að þessi byggðaáætlunarmál, þau mikilsverðu efni, heyri undir fjmrh,. hann sé forstöðumaður þeirra í hæstv. ríkisstj. Og einmitt af því, að hann tekur þátt í þessum umr. og fylgist með þeim, vildi ég nota þetta tækifæri til þess að minnast á Austurland og Austfjarðaáætlun. Menn mega ekki gleyma Austurlandi í þessu tilliti, þó að þar hafi verið nóg atvinna nú í nokkur missiri, en breyting til bóta í því efni stafar af því, að síldin hefur verið nær Austurlandi en öðrum landshlutum nú um sinn.

Á hinn bóginn er uppbygging á Austurlandi samt sem áður mjög í molum og á þann hátt, að þjóðartjón er að. Það er ekkert samræmi t.d. í þeirri þjónustustarfsemi, sem hægt er að inna af höndum á Austurlandi, og þeirri miklu starfrækslu við síldveiðar, sem þangað hefur færzt. Og samgöngukerfi Austurlands er ekki á nokkurn hátt megnugt að veita þá aðstöðu, sem þarf, miðað við þær stórfelldu athafnir, sem nú eiga sér stað í þessum landshluta. Að þessu er hið mesta þjóðartjón, eins og nú er komið málum, og mætti einnig í því sambandi minna á raforkumálin, sem eru snar þáttur í þessu, og raunar nálega alla aðra þætti, því að það er algert ósamræmi orðið á milli þessara þjónustuþátta annars vegar og þess framleiðslustarfs, sem þarna verður að eiga sér stað fyrir þjóðarbúið í heild, ef vel á að fara. Þess vegna þolir það enga bið að gera skynsamlega áætlun um uppbyggingu á Austurlandi, og það er ekki aðeins málefni Austfirðinga heldur engu að síður málefni þess mikla hluta þjóðarinnar, sem á orðið alveg afkomu sína undir því, hvernig til tekst með starfrækslu í þessum landshluta.

Við höfum snúið okkur til Efnahagsstofnunarinnar, þm. Austurlands, og erum allir sammála um stefnuna í þessu máli. Við höfum farið fram á það, að byrjað væri að vinna að Austfjarðaáætlun, og höfum við lagt alveg sérstaka áherzlu á suma þessa liði, sem ég nefndi áðan, og svo auðvitað á það að finna leiðir til þess, að Austurland verði ekki algerlega háð síldveiðunum og það komi til greina einnig aukning annarra líða í framleiðslunni, jafnframt því sem síldveiðin eflist, svo sem hún hefur gert um sinn. Hér er um stórfelld og brýn verkefni að ræða, og ég legg áherzlu á, að þau eru ekki sízt í samgöngumálum, raforkumálum og hvers konar þjónustustarfi, ekki aðeins fyrir Austfirðinga sjálfa, heldur fyrir þjóðarheildina. Okkur hefur verið vel tekið í Efnahagsstofnuninni, en engin ákvörðun hefur enn fengizt um framkvæmd þessa verks, gerð Austfjarðaáætlunar. Það mun vera byrjað að undirbúa á vegum stofnunarinnar nokkuð einstaka líði, og lýsum við ánægju okkar yfir því, svo langt sem það nær. En við bendum á og höfum bent stofnuninni á, og ég vil benda hæstv. ráðh. á og hv. Alb. og nota þetta tækifæri til þess, að þá má ekki setja þessi mál aftur fyrir.

Ég vil á engan hátt draga úr nauðsyn þess, að Norðurlandsáætlun sé hraðað og að það sitji fyrir nálega öllu öðru atvinnumálaþátturinn í því sambandi, vegna þess hvernig þar er ástatt. Ég vil á allan hátt taka undir það. En hitt vil ég segja, að það má ekki gleyma öðrum mjög þýðingarmiklum þáttum í þessu og láta þá bíða þar til í óefni er komið.

Í því sambandi vil ég sérstaklega minnast á það, sem hæstv. ráðh. kom inn á, og það er Efnahagsstofnunin og styrkur hennar til þess að anna því mikla hlutverki, sem henni er ætlað, þar sem henni er ekki eingöngu ætlað að fjalla almennt um efnahagsmálin, heldur einnig að sjá um þessar byggðaáætlanir, sem eiga að vera grundvöllur undir fjárfestingarstarfseminni framvegis úti um landið. Ég vil benda á, að þessa stofnun verður þá að efla. Það verður að efla þessa stofnun, eins og hér hefur komið fram hjá ýmsum þm. M.a. hygg ég, að það hafi komið fram hjá hv. 1. þm. Vestf. og hv. 3. þm. Norðurl. v. mjög greinilega að það þarf að efla þessa stofnun, því að annars getur illa farið. Það getur illa farið, ef ekki verður undinn bráður bugur að því að efla þessa stofnun að góðum mannafla, svo að hægt verði að vinna að öllum þessum þýðingarmiklu málum svo að segja í senn. Það er ekki hægt að láta þessa stóru þætti, sem ég hef gert að umtalsefni, bíða þangað til öllu öðru er lokið. Það verður að vinna að mörgu í senn, en ég endurtek það enn og aftur, að ég skil, að atvinnumálaþáttur Norðurlandsáætlunar verður að hafa forgang. En hitt verður að koma líka, áður en það er of seint.