07.02.1968
Sameinað þing: 34. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í D-deild Alþingistíðinda. (3146)

198. mál, framkvæmdaáætlun fyrir Norðurland

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða við þetta tækifæri að lýsa furðu minni yfir heim seinagangi, sem verið hefur á gerð framkvæmdaáætlunar fyrir Norðurland. Þetta er víst fjórða árið í röð, sem rætt er á Alþ. um áætlanagerð og rannsókn á atvinnuástandi norðanlands. Og þetta er fjórða árið í röð, sem spurt er hér á Alþ., hvenær ríkisstj. byggist gera einhverjar varanlegar ráðstafanir til úrbóta. En eins og kunnugt er, hefur sums staðar norðanlands og einkum á vestanverðu Norðurlandi verið neyðarástand ríkjandi í atvinnumálum árum saman, þótt næg atvinna væri annars staðar á landinu og hvað þá núna þegar annars staðar kreppir að. Vissulega eru þeir ófáir sendimennirnir, sem gerðir hafa verið út héðan að sunnan til þess að rannsaka atvinnuástand og byggðaþróun á Norðurlandi. Og þær eru líka ófáar skýrslurnar, sem skrifaðar hafa verið um málið og sendar hafa verið út um hvippinn og hvappinn. En gallinn er sá, að ráðagerður um atvinnubætur norðanlands hafa aldrei sloppið út úr völundarhúsi skriffinnskunnar. Hæstv. ráðh. sagði, að Norðurlandsáætlun yrði tilbúin á þessu ári, og á seinasta ári sagði hæstv. ráðh. Eggert G. Þorsteinsson, að áætlunin yrði tilbúin á því ári o.s.frv. Þetta kann að vera rétt, en reynslan verður að skera úr því.

Einu sinni heyrði ég hæstv. iðnmrh., Jóhann Hafstein, sem ýmislegt gáfulegt segir, eins og þingheimur veit, ég heyrði hann kvarta yfir því hér í þinginu, að við stjórnarandstöðuþm. værum að spyrja og spyrja um atvinnubætur norðanlands og vektum þannig tálvonir, eins og hann kallaði það: tálvonir. Vissulega hafa verið vaktar vonir með miklum umr. á Alþ. Við stjórnarandstöðuþm. höfum vakið vonir Norðlendinga með réttlátum kröfum um tafarlausar aðgerðir. En hver er það, sem hefur vakið tálvonir? Hverjir eru það sem standa hér upp ár eftir ár og lofa öllu fögru án þess að nokkuð gerist?

Að undanförnu hefur mikið verið talað um atvinnuhorfur í Reykjavík og hér suðvestanlands í vetur, og það er sannarlega ekki ástæða til þess að draga úr því, að hér er að skapast mjög alvarlegt ástand. En ég verð að segja, að miðað við reynsluna af Norðurlandi er ég ekki sérlega bjartsýnn fyrir hönd þeirra manna hér sunnanlands, sem ganga atvinnulausir. Stundum hafa allt að því jafnmargir verið atvinnulausir á Norðurlandi vestra og nú eru atvinnulausir í allri Reykjavík, og þó er það kjördæmi eitt út af fyrir sig 8 sinnum mannfærra en höfuðborgin. En þrátt fyrir slíkt ástand bólar ekki á neinum verulegum aðgerðum af hálfu ríkisstj. árum saman.

Hér er auðvitað ekki tími til almennra umr. um þetta mál. En ég vil sem sagt aðeins leggja áherzlu á óánægju mína og margra annarra með aðgerðarleysi þeirra sem bera ábyrgð á svokallaðri Norðurlandsáætlun. Kannske er vonlaust að ætlast til þess, að stofnanir hér suður í Reykjavík geri nokkurn tíma stórátök í atvinnumálum annarra landshluta, og kannske er von um, að meiri skriður komist á málið, þar sem nú er afráðið, að einn starfsmaður verði staðsettur á Norðurlandi, og vissulega ber að fagna því. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, að slíkar landshlutaáætlanir komi ekki að miklu gagni fyrr en sköpuð hefur verið aðstaða í hverjum landsfjórðungi til þess að heimamenn geti haft forustu og frumkvæði um slíka áætlanagerð. Fjórðungsþing og fjórðungsskrifstofur eiga að hafa forustuna í hverjum landsfjórðungi, en sennilega þurfa þessir aðilar að njóta einhvers stuðnings ríkisvaldsins meðan verið er að koma slíkum héraðsstjórnum á fót. Hitt er annað mál, sem auðvitað er ekki tími og tækifæri til að ræða hér frekar, að það er hætt við, að ekki verði gerð mikil stórátök í atvinnumálum Norðlendinga frekar en annarra landshluta meðan núverandi stjórnarstefna er eins og hún er, því að fyrst og fremst er það röng stjórnarstefna og ekkert annað, sem á sök á atvinnuástandinu norðanlands, eins og margoft hefur áður verið rakið og hér verður ekki endurtekið.