07.02.1968
Sameinað þing: 34. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í D-deild Alþingistíðinda. (3147)

198. mál, framkvæmdaáætlun fyrir Norðurland

Björn Pálsson:

Herra forseti. Það var nú allmikið notað í kosningunum s.l. vor, að það ætti að gera mjög viturlega Norðurlandsáætlun og ekki átti að standa á framkvæmdunum. Þetta var eitt af alkosningamálið í mínu kjördæmi. En það er komið dálítið annað hljóð í strokkinn nú. Vélin virðist hafa brætt úr sér, því að nú virðist eiginlega ekkert hafa verið gert síðan frá kosningum, og óákveðið, hvað gert verður.

Ég hef ekki nema gott að segja um núv. fjmrh, og líkar margt vel hjá honum, m.a. það, að mér hefur virzt hann hafa ríka réttlætiskennd, og er það vel, að maður í jafnábyrgðarmikilli stöðu skuli, hafa slíkan kost til að bera. En viðvíkjandi þessari framkvæmd er ég engan veginn ánægður. Það ferðuðust þarna, um hjá okkur þrír menn og kynntust fólkinu og aðstöðu þess. Ég sagði við formann þeirrar nefndar, að mér virtist hann hafa fengið talsvert meiri yfirsýn, meiri reynslu og skilning á kjörum fólksins úti í dreifbýlinu við að kynnast fólkinu og ástæðum þess, og hann játaði, að svo hefði verið. En svo þegar þessir menn eru búnir að kynna sér málið, er málið tekið úr höndum þeirra og falið einhverjum öðrum manni, sem er falinn norður á Akureyri. Það er ekki því að neita, að við t.d. í okkar kjördæmi komum hingað, en ekki til Akureyrar. Þm. eru hér, og ég er ekki að segja að við eigum að hafa forgöngu í atvinnumálum, en þannig er það, að fólkið snýr sér til okkar. Við erum boðaðir á fundi í kaupstöðunum, og það er talað við okkur um að gera eitthvað til umbóta í atvinnumálunum. Það væri ákaflega æskilegt og þægilegt fyrir okkur að geta haft tal af þessum ágæta manni. Hann má vera meira en litlum kostum búinn, þessi eini maður, ef hann hefur vit á öllu. Það virtist þannig samkv. ræðu hæstv. fjmrh. Það á ekkert að tala við þm. um þessa áætlun. Jú, það á náðarsamlegast að sýna hana ríkisstj. Svo á að ræða við sveitarstjórnir. Það er þegar búið að ræða við sveitarstjórnir. Ég hef spurt sveitarstjórnir að því. Svo var ráðgert að endursenda þeim uppkastið, þegar búið er að semja það. Ég hef spurt þær að því, hvort þær hafi fengið þetta s.l. ár. Nei, engin hafði fengið það.

Það má vera meira en lítið vitur maður þarna norður á Akureyri, ef hann hefur vit á öllum hlutum, samgöngumálum, skólamálum og atvinnumálum í öllum greinum, hvort það er heldur frystiiðnaður eða önnur sjávarútvegsmál. Í skólamálum hélt ég, að ríkisstj. hefði sinn oddvita hér fyrir sunnan, og allt hefur verið í athugun hjá þeim, hvort ekki væri hægt að koma einhverju betur fyrir. Margt annað er frekar að hjá okkur en samgöngumálin. Nei, það sem máli skiptir, eru atvinnumálin, og það, sem fólkið óskar eftir og biður um, er aðstoð og einhver skipulagning í atvinnumálunum Það veit enginn betur en hæstv. fjmrh., að þetta þolir enga bið Það verður að taka ákvörðun um það t.d., á hvern hátt á að reka frystihúsin. Það þýðir ekkert að hafa tvö frystihús fjárvana og hráefnislaus á sama stað. Þetta veit enginn betur en fjmrh., því að vitanlega veit ég, að hann hefur gert sér það ljóst. Og þetta þolir enga bið.

Sama er að segja um skólamálin, sem þegar er að mestu leyti búið að taka ákvörðun um. Á þessi blessuð Norðurlandsáætlun hjá þessum huldumanni þarna fyrir norðan, á hún að koma, þegar búið er að taka ákvörðun um þetta allt saman? Vilja þeir ekki færa Seðlabankann norður líka svo að þið séuð ekki alltaf að raga og rekast í Jóhannesi með þetta? Þetta er víst Nordal II. þarna. sem enginn má hafa tal af og enginn sjá, því að enginn má yfirleitt hafa kynni af þessum Nordal. sem við höfum hér í Reykjavík. Þeir gætu þá spjallað þar saman. Nema ríkisstj., það er hún ein, sem má hafa samband við hann, Þetta er einhver leyndur páfi. En það er ákaflega óæskilegt fyrir okkur. Fólkið snýr sér til okkar, gerir kröfur um, að við gerum eitthvað. Svo er einhver maður, sem við megum helzt ekkert við tala. Hann má bara senda ríkisstj. þetta, þegar hann er búinn að vinna úr öllu, og hann á að hafa vit á öllu. Ég er ekkert að gera lítið úr þessum manni. Þetta er vafalaust vel gefinn maður, því að ég veit, að þeir eiga lítið annað í fórum sínum, sjálfstæðismenn, en hitt dreg ég í efa að hann sé alvitur eða hafi vit á öllum hlutum.

Þetta er alvarlegur hlutur. Atvinnumálin þola enga bið. Það verður að taka ákvörðun um þetta. Þetta veit fjmrh. manna bezt. Það verður að taka ákvörðun um, á hvern hátt á að reka frystihúsin, og við verðum að gera út um það á þessu þingi, á hvern hátt á að reka sjávarútveginn á Norðurlandi, hvort á að leyfa togveiðar innan landhelgi eða ekki, hvaða skipastærð er hentugust. Og það verður að útvega fólkinu hentug atvinnutæki, þannig að það geti lifað sómasamlegu lífi.

Það er alveg rétt hjá fjmrh., það er ekki nóg að gera áætlun. Það verður að fylgja henni eftir. Það verður nú fyrst og fremst að vera vit í áætluninni, og svo verða menn að hafa einhverja möguleika til að framkvæma hana. En þó er það ekki aðalatriðið. Þó menn hafi mikil fjárráð, er hægt að haga þeim af þeirri óhagsýni, að fjármunirnir komi ekki að gagni.

Sannleikurinn er sá viðvíkjandi umbótum í sjávarútveginum, að það þarf ekki mikið fjármagn, en það þarf að framkvæma hlutina á skynsamlegan hátt, og það þarf að greiða fyrir lánsútvegun. Það er ekki til neins að reka fyrirtæki hráefnislaus með stórum rekstrarhalla ár eftir ár. Þó ekki sé nema 2-3 millj. kr. fyrirgreiðsla á bát, það getur gert mögulegt að kaupa bátinn. Það vita allir, að það er hægt að fá nóga báta nú. Það vita líka allir, að það kreppir víðar að en á Norðurlandi. Það riða til atvinnufyrirtæki um allt land. Það liggur við, að mjög sterk atvinnufyrirtæki hafi enga möguleika á að koma bátunum á flot eða frystihúsunum í gang. Og það er skraf og ádeilur á frystihúsin, að það sé óverjandi fyrir þau að hafa verið að stöðva í einn mánuð, þegar ekkert veiddist og engu máli skipti, hvort þau voru í gangi eða ekki. Það er aðallega spjall hjá mönnum, sem ekkert virtust vita hvað þeir voru að segja. Það er ekkert þægilegt fyrir forstöðumenn fyrirtækja að geta ekki borgað fólki. Það er ekkert skemmtilegt fyrir menn, sem vilja vera heiðarlegir og standa við orð sín, að geta það alls ekki. Sannleikurinn er sá, að mörg frystihúsin voru svo aðþrengd, að þau gátu ekki starfað án einhverrar fyrirgreiðslu. Þeir kasta því oft steini, sem ekki vita hvað þeir eru að gera í þessum efnum.

Það, sem ég vildi leggja áherzlu á, er þetta: Það verður að taka ákvörðun um vissa hluti, t.d. rekstur frystihúsanna og sjávarútvegsmálin, sem eru höfuðmálin. Það er ekki hægt að bíða eftir einhverjum manni norður á Akureyri, hvenær honum þóknast að senda eitthvað frá sér. Þetta átti vitanlega að vera búið, og þetta átti eðlilega að vera í höndum þeirra manna, sem bezt voru búnir að kynna sér þetta. Ég veit, að Efnahagsstofnunin hafði mikið að gera við að athuga hvort hún ætti að fella gengi eða ekki fella gengi, en út af fyrir sig, úr því að dansað var eftir Bretanum og allt var vitlaust reiknað út hvort sem var, þá hefði tæplega skipt miklu máli, þótt Efnahagsstofnunin hefði einnig gengið frá Norðurlandsáætluninni.