13.12.1967
Neðri deild: 38. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í B-deild Alþingistíðinda. (315)

75. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð. Ég þóttist nú vita, að 2. gr. frv. mundi verða mótmælt af hv. stjórnarandstæðingum. Hingað til hafa þeir sjaldnast verið stuðningsmenn þess, þegar ríkisstj. hefur flutt till. um tekjuöflun, þannig að ég sé ekki ástæðu til að rökræða um það mál. En það voru þó tvö atriði, sem ég vildi minnast á út af ræðu hv. 1. þm. Norðurl. v. Annað var um framkvæmd fasteignamatsins og hvernig það mál stæði. Ég hef nú því miður ekki sundurliðun á því eftir sýslum eða kaupstöðum, hvernig stendur með matið, en ég hef hins vegar nýlega kynnt mér það mál, vegna þess að ég er alveg sammála hv. þm. og vafalaust þm. öðrum um það, að þetta hefur ekki gengið sem skyldi og brýn nauðsyn að þoka því áleiðis. Ég hygg hins vegar, að matinu sé það langt komið, að í mörgum sýslufélögum sé því að verða lokið, eða jafnvel lokið, og í mörgum kaupstaðanna einnig, og ég hef lagt á það höfuðáherzlu við þá, sem fasteignamatinu stjórna, að að því verði stefnt að ljúka matinu á árinu 1968, þannig að það geti tekið gildi þá í árslok, varla verður það nú fyrr.

Varðandi annað atriði, sem hv. þm. minntist á, hinn mismunandi verðlagsgrundvöll, sem yrði undir margföldun fasteignamatsins vegna mismunandi verðmætis fasteigna hér í Reykjavík og á ýmsum öðrum stöðum á landinu, er það rétt, að auðvitað er mikill munur á verðgildi fasteigna að þessu leyti og auðvitað ekki hægt að koma við, ekki fyrr en við hið endanlega fasteignamat, nákvæmri endurskoðun þess vandamáls, en hins vegar vil ég þó upplýsa það, sem hv. þm. vafalaust er kunnugt, að nú þegar er grundvöllur fasteignamatsins, sem gildir í dag, mjög mismunandi í hinum einstöku byggðarlögum, þannig að það er langt frá því, að fasteignir séu metnar á sama verði hvar sem er á landinu, heldur er gerður þar verulegur munur á þeim fasteignum, sem eru hér í Reykjavík og annars staðar í þéttbýli, og svo þeim, sem eru í strjálbýli. Hvort það er eðlilegt hlutfall miðað við nútíma aðstæður er önnur saga, en það er nauðsynlegt hins vegar, að menn geri sér grein fyrir því, að það er ekki svo, að þarna sé aðeins tekið tillit til áætlaðs byggingarkostnaðarverðs, heldur raungildis fasteignanna að töluverðu leyti.