14.02.1968
Sameinað þing: 38. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í D-deild Alþingistíðinda. (3151)

198. mál, framkvæmdaáætlun fyrir Norðurland

Fyrirspyrjandi (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins taka það fram, að ég tel samkv. 31. gr. þingskapa, að ég eigi rétt á að tala tvisvar sinnum enn í fimm mínútur.

Í þessum umr. hefur það borizt nokkuð í tal, um hvað Norðurlandsáætlunin eigi að vera, þ.e.a.s. um hvers konar framkvæmdir. Hæstv. ráðherra sagði, að hún ætti m.a. að fjalla um samgöngumál. Ég er því samþykkur, og á fundinum, sem ég var á með fulltrúum Efnahagsstofnunarinnar og sveitarstjórnum, var mikið rætt um samgöngumál. Á austanverðu Norðurlandi er það ákaflega mikilsvert, að framkvæmdir í samgöngumálum séu teknar föstum tökum. Uppbygging verulegs hluta þjóðvegakerfisins er okkur þar lífsnauðsyn, a.m.k. mikil nauðsyn, t.d. Þingeyjarsýslubrautar, og af Norðurl. e. er komin sú till., sem nú liggur fyrir Alþ., um 10 ára áætlun og lántökur í þessu skyni. Uppbygging hafa, sem eru í smíðum, er álíka nauðsyn og eigi minni í þessum landshluta. Ég er líka þeirrar skoðunar, að Norðurlandsáætlunin eigi að fjalla um skólamál eða réttara sagt fjáröflun til þeirra. Þörfin á skólabyggingum í sýslunum á austanverðu Norðurlandi er svo mikil og svo lítið enn gert til þess að sinna henni, að til vandræða horfir. Ég ræddi lauslega um það mál við fjárlagaumr. í vetur, en þá var því naumast anzað. Mér þótti vænt um, að hæstv. ráðh. viðurkenndi, að þetta tvennt, samgöngumannvirki og skólamannvirki, yrði að vera í áætluninni. En þar þarf að vera margt fleira. Og það er ekki hægt að telja það upp fyrir fram. Menn verða að skilja að í því er einmitt áætlunargerðin fólgin að leggja á ráðin um það að frumkvæði eða að fengnu áliti heimamanna, hvað framkvæma skuli á áætlunartíma og hvernig aflað skuli fjár til þess eða stuðlað að fjáröflun.

Drjúgur hluti Norðurlandsáætlunarinnar verður vitaskuld að vera um þróun atvinnumála og fjárfestingu í því sambandi. Um þennan þátt fannst mér hæstv. ráðh. nokkuð loðmæltur. Mikill munur er á skýrslu og áætlun. Það eru til ósköpin öll af skýrslum, en í áætlun gera menn sér grein fyrir því, hvers þurfi við, hvað sé einkum aðkallandi og framkvæmanlegt og hvort einkaframtakið, einstaklingar eða félög, geti eða muni gera þetta eða sveitarfélög eða hvort ríkisvaldið þurfi þar einnig að leggja hönd á plóginn að meira eða minna leyti. Það er svo sem engin nýlunda hér, að ríkið komi upp atvinnufyrirtækjum, jafnvel þar sem mest er af þeim fyrir, eða semji við einkaaðila um að gera það.

Mikill hluti af ræðu hæstv. ráðh. fór í það um daginn að lýsa því, hvað Efnahagsstofnunin hefði mikið að gera. Hann sagði það eiginlega berum orðum, að hún hefði ekki haft tíma til að sinna Norðurlandsáætluninni. Ég rengi það ekki út af fyrir sig. En mörgum þótti það súrt í brotið, að á þeim tíma, þegar Norðurlandsáætlunin átti að liggja fyrir samkv. fyrirheiti hæstv. ráðh., þurfti, að fara að ráða mann til þess að vinna verkið. Einhverjar skýrslur sagði ráðh. þó enn ófengnar. Það er ágætt, að unnið sé á vegum Efnahagsstofnunarinnar á Akureyri, en ég held, að það ætti að taka til athugunar að snúa þessu við, gefa Fjórðungssambandi Norðlendinga eða Sambandi norðlenzkra sveitarfélaga kost á að gera áætlunina með aðstoð Efnahagsstofnunarinnar. Það mundi e.t.v. vera vænlegra til að hraða þessu máli, því að hver er sjálfum sér næstur, og Efnahagsstofnunin hefur mörgu öðru að sinna, eins og hæstv. ráðh. sagði.