14.02.1968
Sameinað þing: 38. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í D-deild Alþingistíðinda. (3155)

198. mál, framkvæmdaáætlun fyrir Norðurland

Fyrirspyrjandi (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég mun ekki ræða efni þeirra fsp., sem hér eru á dagskránni, heldur eingöngu um þingsköp, eins og hæstv. forseti hefur leyft mér.

Á dagskrá Sþ. á þeim fundi, sem haldinn var næstur á undan þessum, að ég ætla, voru tvær fsp., sem báðar vörðuðu Norðurlandsáætlun. Önnur frá mér og hv. 3. þm. Norðurl. v. og hin frá tveimur öðrum hv. þm., sem báðir eru riðnir við málefni Norðurl. v. Þessar fsp., þótt þær vörðuðu báðar Norðurlandsáætlun, þá voru þær ekki samhljóða, og efni þeirra var ekki það sama, þótt það væri svipað. Þær voru settar á dagskrána á síðasta fundi, ekki saman, heldur var sú fsp., sem fyrr mun hafa verið fram komin, sett framarlega á dagskrá, en sú, sem síðar var fram komin, aftarlega á dagskrá. Þegar hæstv. forseti tók til umr. þá fsp., sem fyrr var á dagskránni, vék hann einnig orðum að síðari fsp.. og ég skildi orð hans á þá leið, að þau lytu að því, að hann mundi ekki taka fyrir önnur mál á milli þessara fsp., heldur þannig, að hann mundi láta ræða þær áður, þannig að önnur mál kæmu ekki inn á milli. Hv. 3. þm. Norðurl. v. gerði þá þegar aths. um það, að þetta, sem hæstv. forseti hafði sagt um umræðuna tæki að sjálfsögðu ekki til ræðutímans, hann væri, eins og gert er ráð fyrir í 31. gr. þingskapa, fyrir hvern þm. tveir ræðutímar, 5 mín. hvor, þannig að þetta kom fram þegar í upphafi.

Þetta er þannig nokkuð glöggt í 31. gr. þingskapanna, að það er gert ráð fyrir því, að hver fsp. sé mál út af fyrir sig, og kveðið á um, hver ræðutími sé heimili um hverja fsp., þ.e.a.s. hjá þm., en um þetta eru enn fremur þau ákvæði í þingsköpunum, eins og hér kom fram, að hæstv. ráðh., sem einnig eru þm., hafa meiri tíma en aðrir ræðumenn, þeir hafa ótakmarkaðan ræðutíma. Það hafa aðrir þm. einnig um önnur mál, nema það sé sérstaklega takmarkað á fundi, en um fsp. gildir þetta ákvæði, að hver þm. geti talað tvisvar sinnum og allt að 5 mín. í hvort sinn, og þannig er það í framkvæmdinni. Nú vil ég leyfa mér að benda hæstv. forseta á, að ef þessi aðferð væri höfð, eins og honum hefur dottið í hug að hafa hana, sennilega að óathuguðu máli, gæti hann eða einhver annar forseti þingsins dregið mjög úr þessum mjög svo takmarkaða ræðu tíma þm. með því að taka fyrir margar fsp. í senn, og hver þm. hefði þá ekki nema tvo ræðutíma 5 mín. hvorn, en hæstv. ráðh. hefðu ótakmarkaðan ræðutíma eins og þeir hafa, og þetta gæti komið mjög undarlega út. Mér hefur satt að segja fundizt nóg um það, hvernig fyrirspurnatímanum er varið í reynd, þannig að þm. tala örstutt fyrir fsp. eða um þær, en hæstv. ráðh. hafa, að því er virðist samkv. þingsköpunum, eða það er a.m.k. túlkað svo, aðstöðu til að flytja heila fyrirlestra. Stundum eru þetta talnafyrirlestrar, stundum blandast kannske inn í þetta áróður, eins og verða vill, þegar menn eru að tala hér á þingi. Alveg ótakmarkaðan ræðutíma hafa þessir menn. Og ég vil beina því til hæstv. forseta, að ég tel það hvorki vera í samræmi við 31. gr. þingskapanna eða eðlilegt, þegar á þetta er lítið, að hann takmarki meir en þegar er orðið ræðutíma þm. í umræðutíma um fyrirspurnir. Þetta vildi ég biðja hæstv. forseta góðfúslega að athuga, og vænti ég, að hann þá á sínum tíma geti í samráði við sögfróða menn og sanngjarna kveðið upp úrskurð í þessu máli.