21.02.1968
Sameinað þing: 40. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 656 í D-deild Alþingistíðinda. (3160)

198. mál, framkvæmdaáætlun fyrir Norðurland

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Það hafa nú þegar orðið miklar umr. um þær fsp., sem hér liggja fyrir, og ég sé út af fyrir sig ástæðu til að fagna því. Þó eru nokkrir þættir þessa máls, sem ég tel enn rétt að víkja að og leggja nokkra áherzlu á. Í fyrsta lagi vil ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir þær upplýsingar, sem fram hafa komið í svarræðum hans, og þá einkum þær, sem telja má að feli í sér nokkur nýmæli varðandi gerð Norðurlandsáætlunar. Þar vil ég sérstaklega minna á þau ummæli hæstv. ráðh., sem hnigu að því, að nú væri ætlunin að fella inn í þessa áætlunargerð ýmis verkefni, sem bíða á sviði opinberra framkvæmda, eins og t.d. í skólamálum, samgöngumálum og heilbrigðismálum, svo að nokkuð sé nefnt. Í þessum efnum eru vissulega mörg þýðingarmikil verkefni framundan, sem úrlausnar bíða norðanlands, og ég get ekki tekið undir þau ummæli, sem féllu hjá einum hv. þm. hér fyrir hálfum mánuði, þar sem hann lýsti efasemdum sínum um það, hvort rétt væri að fella þessa þætti inn í Norðurlandsáætlun.

Tæplega þarf að eyða orðum að gildi slíkra framkvæmda. Menntun æskunnar miðar að því að leggja gull í lófa framtíðarinnar, og greiðum samgöngum má líkja við lífæðar alls athafna- og menningarlífs í landinu. Þeir, sem hafa séð þau stórvirki, sem unnin hafa verið í samgöngumálum Vestfjarða eftir Vestfjarðaáætlun, geta sannfærzt um gildi slíkra landshlutaáætlana, og ég legg áherzlu á að ég tel ávinning að því, að Norðurlandsáætlun spanni yfir hina ýmsu þætti í stærri framkvæmdum Norðurlands. Hitt er svo annað mál, að allir eru sammála um, að verkefnin séu brýnust á sviði atvinnulífsins. Sú skilgreining, sem hæstv. fjmrh. lýsti, á hlutverki Norðurlandsáætlunar á því sviði er ekki í mínum augum nein nýjung. Ég hef alltaf litið svo á að hlutverk hennar á því sviði væri að mynda ákveðinn ramma, sem markaði æskilega þróun í uppbyggingu atvinnulífsins í þessum landshluta„ og útvegun fjármagns til þess að styðja að framgangi þeirrar þróunar.

Það er alkunna, að atvinnuástand á Norðurl. v. hefur um langt árabil verið lakara en annars staðar á landinu, og ég ætla, að nokkuð liggi í augum uppi, hvað þar hefur mestu um valdið, og fer ég ekki langt út í það, en það blasir við, að á þessu árabili hefur sjávarafli þorrið, ýmist alveg eða að verulegu leyti, á miðunum fyrir Norðurl. v. Nægir þar að minna á, að síld hefur ekki veiðzt í nálægt 20 ár svo að nokkru nemi á Húnaflóasvæðinu.

Í byrjun er það þýðingarmikið að efla og treysta þau atvinnufyrirtæki, sem þegar eru starfandi, og nýta þau mannvirki, sem fyrir hendi eru. Í því efni er það e.t.v. nauðsynlegast að auka hráefnisöflun síldar- og fiskiðjufyrirtækjanna, og ef framhald verður á aflaleysi því, sem ég lýsti hér áðan og ríkt hefur á miðunum fyrir Norðurl. v. um árabil, er tæpast um aðrar leiðir að velja en flutning á þessu hráefni af fjarlægum miðum.

Það er vissulega rétt, að áætlanagerð án fjármagns þjónar litlum tilgangi. En Atvinnujöfnunarsjóður, sem stofnaður var með l. frá 1965, ef ég man rétt, hefur að bjóða verulegt fjármagn og hefur auk þess víðtækar lánsheimildir, sem ætla verður, að notaðar séu, ef ráðizt er í stórverkefni á vegum þessarar áætlunar. Ef fjármagn er fyrir hendi, séð er fyrir nægilegu fjármagni, óttast ég ekki það, að forustan heima fyrir bregðist. Hún mun verða til staðar og nýta þá möguleika, sem skapast með gerð þessarar áætlunar og fjármagnsöfluninni.

Ég vil að lokum leggja á það áherzlu, að þangað til þessi áætlun tekur gildi myndist ekki neitt tómarúm í því að vinna að því, að áfram verði tryggður rekstur þeirra fyrirtækja, sem halda gangandi atvinnulífinu í þessum landshluta og styðja hverja skynsamlega viðleitni þar til úrbóta. Vegna þess einnig að borið hefur nokkuð á óánægju vegna þess dráttar, sem orðið hefur á gerð Norðurlandsáætlunar, vil ég þó láta það í ljós, að ég tel, að mestu varði, að vel sé til hennar vandað. En þó má ekki draga, að þeim framkvæmdum sé hraðað, og ég vil ætla og treysti því, að svo verði, þar sem til þessa starfs hefur nú valizt sérstakur starfsmaður. Og ég vil um leið láta sérstaka ánægju mína í ljós með það, að þessi starfsmaður er gerkunnugur vandamálum atvinnulífsins í sjávarplássum og þorpum á Norðurlandi, og ætla, að hann muni reynast þar nýtur starfsmaður, og einnig því, að hinn sé staðsettur á Norðurlandi, á því svæði, sem markar hans starfssvið. Því vil ég einnig fagna.