21.02.1968
Sameinað þing: 40. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 669 í D-deild Alþingistíðinda. (3175)

202. mál, húsaleigugreiðslur ríkisstofnana

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Fsp., sem hér er um að ræða, hljóðar þannig: „Hvaða ríkisstofnanir og ríkisskrifstofur eru í leiguhúsnæði? Hvað borgar hver einstök þeirra fyrir leiguna, og hverjum er hún greidd?“

Þó að fsp. virðist í fljótu bragði vera nokkuð ljós, er hún nú samt engu að síður dálítið óljós, vegna þess að það er ekki auðvelt að átta sig á því, hvort átt er við leiguhúsnæði, sem er eign annarra en ríkis og ríkisstofnana, eða hvort er átt við þær leigur, sem bókhaldslega eru greiddar, vegna þess að það eru margar stofnanir, sem leigja í húsnæði, sem ríkið á eða einstakar aðrar ríkisstofnanir. Þar sem það í rauninni gefur ekki rétta mynd nema taka þetta allt með, hef ég valið þann kostinn að svara þessu miðað við það, að taka allar leigugreiðslur ríkisstofnana og einnig þær, sem inntar eru af höndum til ríkisfyrirtækja. Hins vegar er þar ekki um að ræða neinar leigugreiðslur hjá stofnunum, sem búa í eigin húsnæði, við skulum segja stjórnarráðið, sem hefur sitt eigið húsnæði, póstur og sími, að svo miklu leyti sem hann hefur eigið húsnæði, skálar og aðrar slíkar stofnanir, sem eru í eigin húsnæði, heldur aðeins leigugreiðslur, þar sem um greiðslu er að ræða til annarrar ríkisstofnunar eða til einhvers annars aðila, þótt opinber sé, sem á húsnæði það, er viðkomandi stofnun hefur til afnota.

Hér er um mikið mál að ræða og í sannleika sagt hefði verið næsta erfitt að svara þessari fsp. án mikilla rannsókna vegna þess að þessar upplýsingar eru ekki til á einum stað, ef ekki hefði viljað svo vel til, að fjárlaga- og hagsýslustofnunin hefur einmitt verið að afla upplýsinga um þetta atriði eins og margt annað, sem verið er að reyna að safna saman heildarupplýsingum um og er talið eðlilegt, að sé til hjá þeirri stofnun, og hefur af þeirri ástæðu reynzt tiltölulega auðvelt að afla þessara upplýsinga til svars þessari fsp., enda þótt ég taki það fram, að það er ekki öruggt, að hér sé um algerlega tæmandi svör að ræða, því að það er ekki hægt að fullyrða, að upplýsingar hafi borizt um allar stofnanir, sem kunna að vera í leiguhúsnæði að einhverju leyti.

Ef litið er á rn. sem slík, skiptast þessar leigugreiðslur fyrirtækja, er undir þau heyra, sem hér segir:

Á vegum forsrn. og menntmrn. eru greiddar leigur, sem nema 5 millj. 40 þus., ég sleppi hundruðum kr. á vegum utanrrn. 1 millj. 524 þús., atvmrn. 1 millj. 12 þús., dóms- og kirkjumrn. 5 millj. 413 þús., félmrn. 563 þús., fjmrn. sjálfs 7 millj. 777 þús. og deilda þess, Hagstofu Íslands 71 þús. og ríkisendurskoðunar 771 þús., samgm.- og iðnmrn. 3 millj. 37 þús., pósts og síma 2 millj. 735 þús. og loks viðskmrn. 536 þús. Þetta eru samtals 28 millj. 488 þús. En af þessu munu um 9.5 millj. kr. vera leigugreiðslur fyrir húsnæði, sem er eign ríkis eða ríkisstofnana, m.a. í Borgartúni 7, þar sem margar ríkisstofnanir eru nú til húsa, en er rekið sem sjálfstæð stofnun og leiga fyrir það húsnæði miðuð við að standa undir stofnkostnaði, sem að verulegu leyti er í skuld. En eins og ég áður gat um, er hér ekki meðtalin nein húsaleiga fyrir húsnæði þeirra stofnana ríkisins, sem eiga sitt húsnæði sjálfar.

Það er nokkuð mikið mál að svara fsp. í einstökum atriðum að öðru leyti, en ég held, að það sé þó ekki mjög mikill lestur, og ég vil ekki skjóta mér undan að svara því, og mun ég þá svara því, hvaða stofnanir er um að ræða, og skýra frá húsaleigugreiðslunni og leigusala. Vitanlega verð ég að taka það fram, að húsaleigugreiðslan sem slík gefur ekki mikla hugmynd, nema menn viti, hver er stærð húsnæðisins, og ég get því látið fylgja hér með einnig upplýsingar um það.

Það er í fyrsta lagi: Háskóli Íslands leigir 70 fermetra hjá Kristínu Pálsdóttur í Tjarnargötu 44 og greiðir 39.480 kr. Sami aðili leigir 240 fermetra í Tjarnargötu 26 hjá Tjarnargötu 26 s/f fyrir 244.800 kr. Menntaskólinn við Lækjargötu í Reykjavík leigir í Laufásvegi 7, Þrúðvangi, eigandi Framkvæmdasjóður Íslands, 5 kennslustofur, og ársleiga er 132 þús., húsnæði til leikfimikennslu í íþróttahúsi Jóns Þorsteinssonar 110 þús. kr., íþróttahúsi Háskólans 12.800 kr. og Íþróttahöllinni 25.600 kr. Tækniskóli Íslands, sem nú hefur þó eignazt sitt eigið húsnæði, en þetta eru upplýsingar frá s.l. ári, 377 fermetra í sjómannaskólahúsinu fyrir 162 þús. kr. Vélskólinn í Reykjavík 2500 fermetra í sjómannaskólahúsinu fyrir 355 þús. kr. Upptökuheimilið í Kópavogi 143 fermetra í Kópavogshæli fyrir 68.600 kr. Fræðslumálastjóraembættið, íþróttafulltrúi ríkisins og bókafulltrúi ríkisins 331 fermetra fyrir 254 þús. í Borgartúni 7, sem er eign ríkissjóðs. Fræðslumyndasafn ríkisins 126 fermetra í Borgartúni 7 fyrir 96.200 kr. Fjármálaeftirlitsmaður skóla á Skólavörðustíg 12 130 fermetra hjá Friðrik Þorsteinssyni fyrir 81 þús. Ríkisútgáfa námsbóka 227 fermetra hjá Guðrúnu Helgadóttur, Tómasi Jónssyni og Ásgeiri Ólafssyni fyrir 95.340 kr. Landsbókasafnið 16 fermetra fyrir 11 þús. hjá Valgerði Björnsdóttur, Hverfisgötu 12. Landsbókasafnið 60 fermetra fyrir 23 þús. kr. hjá Sölufélagi garðyrkjumanna. Þjóðleikhúsið 380 fermetra fyrir 300 þús. kr. í Lindarbæ. Eigendur hans eru Verkamannafélagið Dagsbrún og Sjómannafélag Reykjavíkur. Barnaverndarráð Íslands leigir 20 fermetra fyrir 24 þús. kr. hjá Sveinbirni Jónssyni. Myndlista- og handíðaskóli Íslands 1120 fermetra fyrir 779 þús. kr. hjá Baug s/f í Skipholti 1. Iðnfræðsluráð 100 fermetra fyrir 114 þús. kr. hjá Brunabótafélagi Íslands. Menningarsjóður 243.2 fermetra fyrir 138 þús. kr. hjá Hinu íslenzka prentarafélagi. Sami aðili 110 fermetra fyrir 42 þús. kr. hjá Hjálmtý Péturssyni. Sami aðili 29 fermetra fyrir 10 þús. kr. hjá Jóni Halldórssyni. Sami aðili 18 fermetra fyrir 6 þús. kr. hjá Ólafi Jónssyni. Sami aðili 44 fermetra fyrir 24 þús. kr. hjá Önnu Helgadóttur. Ríkisútvarpið leigir 1783 fermetra fyrir 1 millj. 378 þús. kr. hjá Rannsóknastofnun sjávarútvegsins. Sami aðili leigir 52 fermetra fyrir 66 þús. kr. hjá Vilmundi Jónssyni. Sami aðili leigir 200 fermetra fyrir 180 þús. kr. hjá Hannesi Gíslasyni. Kennaraskóli Íslands, þ.e. skóli Ísaks Jónssonar, leiguhúsnæði vegna æfingakennslu 92 þús. kr., húsnæði fyrir leikfimikennslu í íþróttahúsi Jóns Þorsteinssonar 123 þús. kr. Gagnfræðaskóli Austurbæjar, leiguhúsnæði fyrir íþróttakennslu, 48 þús. kr. Varnamáladeild utanrrn. leigir 185 fermetra fyrir 237 þús. kr. hjá Kristjáni Siggeirssyni. Ráðningarskrifstofa Keflavíkurflugvallar leigir 23 fermetra fyrir 20.700 kr. í flugstöðvarbyggingunni á Keflavíkurflugvelli. Lögreglustjóraembættið á Keflavíkurflugvelli leigir 96 fermetra fyrir 60 þús. kr. í flugstöðvarbyggingunni á Keflavíkurflugvelli. Lögreglustjóraembættið á Keflavíkurflugvelli leigir enn fremur 521 fermetra fyrir 453 þús. kr. í flugstöðvarbyggingunni á Keflavíkurflugvelli. Sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn leigir 190 fermetra fyrir 105 þús. kr. Sendiráð Íslands í Osló 75 fermetra fyrir 48 þús. kr. Sendiráð Íslands í Stokkhólmi 100 fermetra fyrir 106 þús. kr. Fríhöfnin á Keflavíkurflugvelli 371 fermetra fyrir 319 þús. í flugstöðvarbyggingunni. Flugmálastjórnin á Keflavíkurflugvelli 63 fermetra fyrir 84 þús. í flugstöðvarbyggingunni. Sölunefnd varnarliðseigna 82 fermetra fyrir 90 þús. kr. hjá Stefáni Thorarensen.

Skógrækt ríkisins leigir 180 fermetra fyrir 96 þús. kr. hjá landgræðslusjóði, Landnám ríkisins leigir 81 fermetra fyrir 70 þús. kr. í Búnaðarbanka Íslands. Sauðfjárveikivarnir leigja 57 fermetra fyrir 71 þús. kr. í Bændahöllinni. Veiðimálastofnunin leigir 180 fermetra fyrir 151 þús. kr. hjá Sesselju Sigurðardóttur, Tjarnargötu 10. Hafrannsóknastofnunin á Grandagarði leigir 242 fermetra fyrir 110 þús. kr. hjá Reykjavíkurhöfn. Fiskimálasjóður í Tjarnargötu leigir 83 fermetra fyrir 79 þús. kr. hjá Steindórsprenti. Verðlagsráð sjávarútvegsins leigir 77 fermetra fyrir 74 þús. kr. hjá Steindórsprenti. Löggildingarstofa mælitækja og vogaráhalda leigir 265 fermetra fyrir 174 þús. hjá Karli J. Karlssyni. Vélasjóður leigir 50 fermetra fyrir 60 þús. kr. í Bændahöllinni. Síldarmat ríkisins leigir 64 fermetra fyrir 60 þús. kr. í Bændahöllinni. Síldarmat ríkisins leigir 64 fermetra fyrir 39 þús. kr. hjá Knúti Jónssyni á Siglufirði. Atvmrn., jarðeignadeild, leigir 56 fermetra fyrir 30.700 kr. hjá Skattstofu Reykjavíkur. Sandgræðslustjóri leigir 55 fermetra fyrir 5 þús. kr. Atvmrn. leigir 61.6 fermetra fyrir 48 þús. kr. hjá Silla & Valda.

Embætti saksóknara leigir 265 fermetra fyrir 291 þús. kr. hjá Gunnlaugi Briem. Borgardómaraembættið í Reykjavík leigir 862 fermetra fyrir 1 millj. 14 þús. kr. hjá Hallveigarstöðum. Borgarfógetaskrifstofan leigir 380 fermetra fyrir 237 þús. kr. hjá Friðrik Þorsteinssyni. Sakadómari í Reykjavík leigir 1087 fermetra fyrir 972 þús. kr. í Borgartúni 7. Sýslumannsembættið í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu leigir 77 fermetra fyrir 60 þús. kr. hjá Braga Jóhannessyni. Bæjarfógetaembættið á Akureyri og sýslumannsembættið í Eyjafjarðarsýslu leigir 441 fermetra fyrir 195 þús. kr. hjá Útvegsbanka Íslands. Skrifstofa sýslumannsins í Suður-Múlasýslu leigir 95 fermetra fyrir 66 þús. kr. hjá Valtý Guðmundssyni. Bæjarfógeta- og sýsluskrifstofurnar í Hafnarfirði leigja 700 fermetra fyrir 840 þús. kr. hjá Oliver Steini. Framkvæmdanefnd hægri umferðar leigir 330 fermetra fyrir 456 þús. kr. hjá SÍS og 84 fermetra fyrir 56 þús. kr. hjá Valgarði Briem. Bifreiðaeftirlit ríkisins leigir 174 fermetra fyrir 181 þús. kr. í Borgartúni 7. Skrifstofa almannavarna leigir 90 fermetra fyrir 56 þús. kr. hjá Friðrik Þorsteinssyni. Mjólkureftirlitið leigir 40 fermetra fyrir 38 þús. kr. hjá Fálkanum. Sérleyfasjóður leigir 70 fermetra fyrir 72 þús. kr. hjá Guðnýju Ámundadóttur. Áfengisvarnaráð ríkisins leigir 73 fermetra fyrir 60 þús. kr. hjá Magnúsi Benjamínssyni. Bæjarfógetaembættið í Vestmannaeyjum leigir 176 fermetra fyrir 176 þús. kr. hjá Sparisjóði Vestmannaeyja. Bæjarfógetaembættið í Kópavogi leigir 332 fermetra fyrir 215 þús. kr. hjá Sparisjóði Kópavogs. Húsameistari ríkisins leigir 371 fermetra fyrir 302 þús. kr. í Borgartúni 7. Biskupsskrifstofan leigir 185 fermetra fyrir 136 þús. kr. á Klapparstíg 27.

Húsnæðismálastofnun ríkisins leigir 350 fermetra fyrir 448 þús. kr. hjá Landsbanka Íslands. Skipulag bæja leigir 137 fermetra fyrir 115 þús. kr. í Borgartúni 7.

Embætti ríkisskattstjóra leigir 587 fermetra fyrir 528 þús. kr. hjá Sölufélagi garðyrkjumanna. Skattstofan í Reykjavík leigir 859 fermetra fyrir 690 þús. kr. í Alþýðuhúsinu h/f og hjá Halldóri H. Jónssyni. Skattstofa Vesturlandsumdæmis leigir 140 fermetra fyrir 84 þús. kr. hjá Trésmiðjunni Akri. Skattstofa Vestfjarðaumdæmis leigir 67 fermetra fyrir 34 þús. kr. hjá Jóni Á. Jóhannssyni. Skattstofa Norðurlandsumdæmis vestra á Siglufirði leigir 70 fermetra fyrir 38 þús. kr. hjá Verzlun Guðrúnar Rögnvalds. Skattstofa Norðurlandsumdæmis eystra leigir 185 fermetra fyrir 105 þús. kr. í Landsbanka Íslands. Skattstofa Austurlandsumdæmis leigir 65 fermetra fyrir 120 þús. kr. hjá Halldóri Ármannssyni. Skattstofa Suðurlandsumdæmis leigir 72 fermetra fyrir 66.300 kr. hjá Kaupfélaginu Þór. Skattstofan í Vestmannaeyjum leigir 130 fermetra fyrir 72 þús. kr. hjá Jóhanni Friðfinnssyni. Skattstofa Reykjanesumdæmis leigir 361 fermetra fyrir 347 þús. kr. hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar. Fasteignamatið á Klapparstíg leigir fyrir 149 þús. kr. hjá Silla & Valda. Tollstjórinn í Reykjavík leigir 440 fermetra á 485 þús. kr. hjá ríkissjóði. Tollstjórinn í Reykjavík, tollgæzlan, leigir 1408 fermetra fyrir 944 þús. kr. hjá Reykjavíkurhöfn. Tollgæzluskrifstofan á Ísafirði leigir 20 fermetra fyrir 12 þús. kr. hjá Ólafi Þórðarsyni. Tollgæzlan á Akureyri leigir 45 fermetra fyrir 42 þús. kr. hjá Skipaafgreiðslu Jakobs Karlssonar: Tollgæzlan í Vestmannaeyjum leigir 52 fermetra fyrir 14.892 kr. hjá Vinnslustöðinni og Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins. Yfirfasteignamatsnefnd á Lindargötu 360 fermetra fyrir 305 þús. kr. hjá Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins. Tollgæzlan á Norðfirði 20 fermetra fyrir 14 þús. kr. hjá Jóhanni Magnússyni. Fjárlaga- og hagsýslustofnunin 267 fermetra fyrir 256 þús. kr. hjá Kristjáni Siggeirssyni. Lyfjaverzlun ríkisins 2000 fermetra fyrir 862 þús. kr. hjá Rúgbrauðsgerðinni h/f Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins, lyfjaverzlun, 2598 fermetra fyrir 1 millj. 715 þús. kr. í Borgartúni 7. Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins, útsala á Snorrabraut, 120 fermetra fyrir 180 þús. kr. hjá Hringbraut 56 h/f. Áfengis og tóbaksverzlun ríkisins í Ármúla 543 fermetra fyrir 221 þús. kr. hjá Emil Hjartarsyni Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins á Lágafelli 60 þús. kr. hjá Búnaðarsambandi Kjalarnesþings. Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins á Laugarásvegi, 204 þús. kr. hjá Hans G. Andersen. Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins í Keflavík, 162 þús. kr. hjá Höskuldi Þórðarsyni. Áfengis- og tóbaksverzlun ríkissins í Aðalstræti 22, Ísafirði, 60 þús. hjá Brunabótafélagi Íslands.

Vegagerð ríkisins 575 fermetra fyrir 459 þús. kr., Borgartún 7. Vegagerð ríkisins á Ísafirði 15 fermetra fyrir 15.600 kr. hjá Ásgeiri Sölvasyni. Vegagerð ríkisins á Sauðárkróki 30 fermetra fyrir 25 þús. kr. hjá Búnaðarsambandi Skagfirðinga. Vegagerð ríkisins á Akureyri 85 fermetra fyrir 60 þús. kr. hjá Grími Valdimarssyni. Vegagerð ríkisins, Eyrarvegi 8, Selfossi, 12 þús. kr. hjá Selfosshreppi. Ferðamálaráð, Skólavörðustíg 12, 15 fermetra fyrir 24 þús. kr. hjá Friðrik Þorsteinssyni. Veðurstofa Íslands 475 fermetra fyrir 338 hús. kr. í sjómannaskólahúsinu. Sami 120 fermetra fyrir 130 þús. kr. hjá flugmálastjórn. Veðurstofa Íslands leigir enn fremur 33 fermetra fyrir 18 þús. kr. hjá Braga Þorsteinssyni. Stýrimannaskólinn 1645 fermetra fyrir 252 þús. kr. sjómannaskólahúsinu. Landmælingar Íslands 390 fermetra fyrir 318 þús. kr. hjá Jóhanni Friðrikssyni, Landmælingar Íslands á Flókagötu 39, 30 fermetra fyrir 9 þús. kr. hjá A. Rósenberg. Skipaskoðunar- og skipaskráningarstofa ríkisins í Hamarshúsi 272 fermetra fyrir 179 þús. kr. hjá Hamri h/f Gisti- og veitingastaðaeftirlit, Skálavörðustig 12, 14 fermetra fyrir 22.800 kr. hjá Friðrik Þorsteinssyni. Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins 420 fermetra fyrir 250 þús. kr. hjá Björgvin Frederiksen. Öryggiseftirlit ríkisins 90 fermetra fyrir 78 þús. kr. hjá SÍBS. Skipaútgerð ríkisins 1783 fermetra fyrir 755 þús. kr. hjá Reykjavíkurhöfn. Ferðaskrifstofa ríkisins 81 fermetra fyrir 88 þús. kr. hjá Hinu íslenzka steinolíuhlutafélagi. Verðlagsstjóri 279 fermetra fyrir 223 þús. kr. í Borgartúni 7. Innkaupastofnun ríkisins 343 fermetra fyrir 312 þús. kr. í Borgartúni 7. Hagstofa Íslands 91 fermetra fyrir 71 þús. kr. hjá Verkamannafélaginu Dagsbrún og Sjómannafálagi Reykjavíkur. Ríkisendurskoðunin, Laugavegi 105, 110 fermetra fyrir 105.600 kr. hjá Laugavegi 105 h/f og 743 fermetra fyrir 666 þús. kr. hjá Brunabótafélagi Íslands.

Póstútibúið á Laugavegi 176 123 fermetra fyrir 146 þús. kr. hjá Blossa h/f. Póstur og sími á Akureyri 128 fermetra fyrir 54 þús. kr. hjá Friðfinni Árnasyni. Sjálfvirk símstöð í Hvammi í Höfnum 8 fermetra fyrir 6.400 kr. hjá Jens Sæmundssyni. Sjálfvirk símstöð á Laugarvatni 10 fermetra fyrir 9.600 kr. hjá Helga Geirssyni. Sjálfvirk símstöð í Þykkvabæ 12 fermetra á 16 þús. kr. hjá Magnúsi Sigurlássyni. Póstur og sími, Austurstræti 12, 300 fermetrar á 216 þús. kr. hjá Listasafni ríkisins Póstur og sími, skrifstofa, Klapparstíg 26, 307 fermetra fyrir 320 þús. kr. hjá Silla & Valda. Póstur og sími, Ármúla 6, 686 fermetra fyrir 567 þús. kr. hjá Jörva h/f. Póstur og sími, Keflavíkurflugvelli, 40 fermetra fyrir 20 þús. kr. í flugstöðvarbyggingunni. Póstur og sími, sérleyfissjóður, 118 fermetra fyrir 91 þús. kr. í Umferðarmiðstöðinni. Póstur og sími, birgðageymsla í Hátúni, 296 fermetra fyrir 193 þús. kr. hjá Fíladelfíusöfnuðinum. Póstur og sími, blaðadeild, 262 fermetra fyrir 204 þús. kr. í Umferðarmiðstöðinni. Útibú póststofunnar, Langholtsvegi 82, 306 fermetra fyrir 133 þús. kr. hjá Skónum h/f. Húsnæði, sem Póstur og sími hefur á leigu utan Reykjavíkur, er samtals 1111 fermetrar fyrir 755 þús. kr., sem er að sjálfsögðu leigt hjá mörgum aðilum.

Orkustofnun, Rafmagnseftirlitið, Laugavegi 116, leigir 1900 fermetra fyrir 1 millj. 404 þús. kr. hjá Agli Vilhjálmssyni. Sama stofnun 380 fermetra fyrir 192 þús. kr. hjá Verkstjórafélagi Reykjavíkur. Sementsverksmiðja ríkisins leigir 269 fermetra fyrir 223 þús. kr. í Þórshamri h/f.

Ég þykist vita, að hv. þm. hafi nú kannske ekki orðið miklu nær fyrir þennan upplestur allan saman. En þannig var um þetta efni spurt. Það kann vel að vera út af fyrir sig, að það væri eðlilegt, eins og hefur verið talað um hér áður, að hafa fsp. í því formi, að þær væru skriflegar og væru þá lögð fram skrifleg svör við þeim. Ég er ekki að segja, að það hefði ekki mátt í þessu sambandi, en hins vegar er ekki sérstaklega gert ráð fyrir því, að það sé útbýtt skriflegum svörum. Kjarni málsins er ekki heldur það, hvað hver einstök stofnun leigir í sambandi við þessi mál, heldur heildarvandamálið, sem ég geri líka ráð fyrir að hafi vakað fyrir hv. þm. Það er auðvitað mjög erfitt að gera sér grein fyrir því, hvort hér er um eðlilega eða óeðlilega leigumála að ræða, og skiptir auðvitað ekki meginmáli, hjá hverjum er leigt, ef leigt er á annað borð og húsnæðið hentar. En það er hins vegar mikið mál, sem er eðlilegt að menn gefi gaum, að hér er um að ræða geysimiklar fjárhæðir, jafnvel nálægt 20 millj. á ári, sem greitt er af ríkinu til ýmiss konar aðila utan ríkiskerfisins. Það má auðvitað segja, að það sé nánast fyrirkomulagsatriði, þegar ríkisstofnun leigir hjá annarri ríkisstofnun. Þá er það aðeins spurning um það, að bókhaldslega sé rétt gengið frá reikningum hvorrar stofnunar um sig. Vitanlega skiptir það ekki ríkið höfuðmáli, ef hægt er að koma því þannig fyrir.

Stærsta átakið, sem hefur verið gert á síðustu árum til þess að reyna að komast nær því marki, að ríkið eignaðist húsnæði yfir stofnanir sínar, voru kaupin á Borgartúni 7. Þar hefur tekizt að koma fyrir, eins og menn hafa heyrt á þessari lesningu minni, mörgum stofnunum og ég hygg, að það sé nokkurn veginn ljóst, að þetta hefur reynzt hagkvæm ráðstöfun. Það er reiknað með því, að þetta hús verði rekið eins og sjálfstæð stofnun og að leigugreiðslur verði við það miðaðar, að hún geti undir sér risið, og það sýnist ekki vera svo, að stofnanirnar þurfi með þeim hætti að borga neina óeðlilega húsaleigu. Hvort með þessu verður hægt að draga verulega úr húsaleigugreiðslunum, skal ég ekki um segja, ég tel það hæpið fyrstu árin, vegna þess að það hefur orðið að kaupa þetta húsnæði, og þó að ég telji, að það hafi tekizt að kaupa það með mjög bærilegum kjörum, er það engu síður þungur baggi til að byrja með.

Þegar menn meta það, hvort æskilegt sé, að ríkið eigi húsnæðið eða ekki, og horfa á þessar 20 millj. kr. greiðslur út af fyrir sig, má auðvitað ekki horfa eingöngu á þessa hlið málsins, vegna þess að það verður einnig að skoða, hvað það muni kosta að koma upp húsnæði fyrir allar þessar stofnanir. Það er ljóst, að margt er með þeim hætti, að þess er ekki kostur að gera það nema á mörgum stöðum. Ég mundi telja, að það væri tvímælalaust hagkvæmt, að svo miklu leyti sem hægt er, að koma stofnununum fyrir í einu húsi og þá að reyna að koma við sameiginlega, eftir því sem hægt er, bæði vélritun og ýmsu öðru, sem hugsanlegt væri að væri sameiginlegt fyrir stofnanirnar. En að svo miklu leyti sem stofnanirnar þurfa að vera á víð og dreif, og það gefur a.m.k. auga leið um allar stofnanir, sem þurfa að vera utan Reykjavíkur, er það ekki endilega víst, að það sé heppilegt fyrir ríkið að kaupa húsnæði fyrir slíka stofnun, heldur gæti í mörgum tilfellum verið eins hentugt að leigja. Þess vegna má ekki draga algerlega þá ályktun af því, að með því að leigja séu menn að henda peningum í sjóinn, það þarf að skoðast allt miklu betur. Ég álít hins vegar, að það sé rétt stefna að hverfa meira í þá átt, eftir því sem mögulegt er og ef það tekst með hagkvæmum hætti, að eignast hús fyrir ríkisstofnanir, og ég hygg, að vafalaust sé ekki ágreiningur hjá hv. þm. um það. Hins vegar hefur reyndin orðið sú, eins og við líka allir vitum, að það hefur jafnan verið þannig við afgreiðslu fjárlaga, að menn hafa þurft að horfa í mörg horn og sjaldnast fengizt skilningur fyrir því, að það væri hægt að leggja til hliðar verulegar fjárhæðir til þess að koma upp byggingum yfir ríkisstofnanir Það er ekki árum saman, heldur áratugum saman búið að tala um að koma upp þinghúsi, koma upp stjórnarráðshúsi. Hins vegar hafa menn ekki treyst sér til þess að leggja neitt fé að ráði til þessara stofnana, og það hefur ákaflega mikið viljað brenna við, þegar um það hefur verið rætt að byggja yfir stofnanir ríkisins, að það hefur verið það fyrsta, sem hefur verið skorið niður, ef ekki hefur verið hægt að sinna þeim óskum, sem fram hafa komið í sambandi við fjárlög, sem raunar hefur aldrei verið hægt að sinna. En þetta er nauðsynlegt að hafa í huga. Hins vegar sýnir þessi listi annað. Hann sýnir, að það ber brýna nauðsyn til þess að hafa heildaryfirsýn yfir leigumála ríkisins og með hvaða kjörum ríkið leigir annars vegar og hins vegar að ekki sé leigt óhæfilega stórt húsnæði. Þess vegna hefur verið ákveðið, að enga leigumála megi gera af hálfu ríkisstofnana, nema það sé fyrst borið undir fjárlaga- og hagsýslustofnun fjmrn., sem á að fylgjast með því, að hvorki sé leigt óeðlilega stórt húsnæði né heldur óeðlilega dýrt, og reynt að hafa samræmi í því, hvaða leiga er greidd fyrir húsnæði. Ég tel, að á þessu stigi málsins sé það raunverulega það eina, sem hægt er að gera til þess að hafa sem mestan hemil á þessum leigumálum ríkisins, að öðru leyti en því, að ég tæki mjög undir það, ef það væri skoðun hv. þm., að það ætti að leggja sig fram um að verja meira fé til þess að byggja yfir ríkisstofnanir.